Þegar ég varð verðbréfabraskari

Ég gerðist verðbréfabraskari fyrir um tveimur árum síðan. Fjandinn fjarri mér! Ég sem hef aldrei haft nokkurn áhuga á verðbréfum. Ég sumsé hóf að leggja fyrir smá sparnað.

Nú var komið að þeim kaflaskilum í lífi mínu, að ég var hætt að borga bankanum vexti, vaxtavexti og dráttarvexti og hóf að leggja inn í bankann. Ha, ha, ha, tapaði líka á því! Svona fór ég að:

Ég skráði mig í séreignarlífeyrissparnað og lagði jafnframt inn á einhverja sparnaðarlínu sem sérfræðingur bankans sagði að hentaði einmitt svo vel mínum aldri.

Við vitum flest að bankinn geymir peningana okkar ekki bara í bankanum og leggur svo annað slagið nokkra seðla ofan á búntið. Nei, við vitum að hann notar innlegg okkar í veltu sinni, m.a. til útlána og á annan hátt. Skipti mér ekkert af því, meðan bankinn stendur við sitt gagnvart mér og ég fæ innleggið mitt og umsamda vexti útborgaða þegar mér hentar, þá má hann græða á innlegginu eins og hann vill.

Þannig gat bankinn t.d. grætt eða tapað á einstaka lánveitingum og verðbréfakaupum, þá skilaði hann bara meiri eða minni hagnaði. Ekki mitt mál, enda átti ég ekkert hlutabréf í bankanum. Bara smá innistæðu.

En, bankinn er klókur. Hann sá auðvitað að það var ótækt að hann bæri alla áhættu af áhættuviðskiptum. Lánveitingar og verðbréfakaup falla einmitt undir áhættuviðskipti. Ráð við þessu var auðvitað að deila áhættunni milli bankans og viðskiptavinanna. "Vina mín, ef þú leggur inn á þessa frábæru sparileið, þá munum við sjá um að fjárfesta fyrir aurana þína í verðbréfum og hlutabréfum og þú færð arð í samræmi við það hversu snjallir við erum í vali á fjárfestingaeiðum. Sjáðu hérna hvað verðbréfasjóðirnir okkar skiluðu miklum hagnaði í fyrra!" Svo fjárfestu snillingarnir í verðbréfum, innlendum og erlendum skuldabréfum og hlutabréfum. Þeir sögðu mér aldrei hvaða bréfum og ég spurði ekki. Yfirlitið sýndi ávöxtun með mínusstriki fyrir framan. Ég sumsé tapaði á sparnaðinum.

Séreignarlífeyrissparnaðurinn fór sömu leið. Um séreignarlífeyrissparnaði gilda ákveðnar reglur, hann er bara hægt að leggja inn í séreignarlífeyrissjóði, en ekki á almenna innleggsreikniga í bönkum því þá fæst ekki mótframlag frá launagreiðanda. Séreignarlífyrissjóðurinn var ávaxtaður af sömu snillingum og með sömu aðferðum og að ofan er lýst. Hann bar líka neikvæða ávöxtun, sumsé tap.

Ég hefði betur sleppt séreignarlífeyrissparnaðinum og mótframlagi launagreiðandans og lagt minn hlut inn á venjulega bankabók, þá ætti ég aðeins fleiri aura í bankanum nú.

Svo sá ég í heimilisbankanum að ég get breytt um "línu" í sparnaðinum og er búin að því. Nú ber hann bara innleggsvexti áháð verðbréfaviðskiptum bankans.

Ég þarf ekkert að upplýsa ykkur um hvaða séreignarlífeyrissjóður þetta var, þeir vinna allir eins. Gáðu bara að þínum!

Nú, nú, svo borga ég líka í almennan lífeyrissjóð. Hann lofar mér ekki ákveðnum vöxtum, gefur mér eitthvað í skyn um það á hverju ég megi eiga von í ellinni, miðað við innborganir mínar. Það fer allt eftir þvi hversu vel honum gengur að ávaxta sitt (mitt) fé, hver lífeyrir minn verður í fyllingu tímans. Hér gerist ég verðbréfabraskari í þriðja sinn. Lífeyrissjóðurinn minn ávaxtar aurana mína nefnilega af sömu snilld og sérfræðingarnir í bönkunum. Hann kaupir innlend og erlend skuldabréf og hlutabréf. Arðurinn af þeim fer í að ávaxta innlegg sjóðsfélaganna. Nú eru þeir allir með tölu reknir með bullandi halla. Sá halli þýðir að lífeyrissjóðsgreiðslur launafólks rýrna í sjóðnum. Eins og segir í fréttinni, "en ekki liggur fyrir hversu mikil sú skerðing verður." 

Viðtu fá meira að heyra um lífeyrissjóði? T.d. hvernig þeim er stjórnað, fyrr og nú? Ok, kíktu þá á síðuna mína aftur innan fárra daga.

 

 


mbl.is Lífeyrisréttindi væntanlega skert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband