17.4.2008 | 10:59
Einu sinni var ...
... menningarsalur í Hótel Selfossi.
Þetta er upphafið að spennandi ævintýri, svo lestu áfram!
Þegar gamla Selfossbíó var rifið, var nýtt Hótel Selfoss byggt og í þeirri byggingu var gríðarstór salur með hallandi stöllum fyrir áhorfendasæti. Fyrir endanum er mikið svið og hár turn upp af því, þar sem hægt er að hífa leiktjöld upp og niður. Undir sviðinu er samsvarandi svæði, af sumum hugsað sem æfingasvið og svo átti búningaaðstaðan og leikmyndageymslan og allt það að vera í kjallaranum. Í turninum eru líka tveir salir, sá efri með flottu útsýni. Mörg hundruð fermertrar allt í allt. Hefur staðið fokhelt í nærri því 40 ár!
Það var kosningaloforð frambjóðenda til bæjarstjórnar Selfoss fyrir margar kosningar, að fullgera þennan Menningarsal Suðurlands í Hótel Selfossi. Eftir nokkrar kosningar var þetta orðið svo pínlegt að menn hættu að minnast á salinn.
Hótel- og veitingarekstur í Hótel Selfoss gekk alltaf illa. Gistirými var lítið, en veitingarými mikið, húsið stórt og dýrt í rekstri en var einhvern veginn alltaf bæði of og van.
Ég hef ekki tíma til að fletta upp í skriflegum heimildum núna, en fletti þess í stað bara upp í minninu.
Svo kom bjargvætturinn.
Kaupfélag Árnesinga, KÁ, rak orðið hótelið, en bærinn átti alltaf húsið. Nú bauðst KÁ til að kaupa húsið af bænum, á hóflegu verði, gegn því að lofa að fullgera þennan menningarsal. Samningar voru undirritaðir og KÁ stofnaði eignarhaldsfélagið Brú um rekstur hússins og setti yfirmann hótelsviðs síns sem framkvæmdastjóra þess.
Samningurinn við sveitarfélagið hljóðaði upp á að kaupverð væri 40 milljónir króna. Bærinn átti ekki að gefa afsal fyrir menningarsals hlutanum fyrr en honum væri lokið og þannig þurfti nýr eigandi ekki að borga fasteignagjöld meðan rýmið stóð ónotað. Þá átti bærinn að rífa nálægt hús, til að rýma fyrir stækkun hótelsins, en í húsinu rak bærinn leikskóla. Hluti af bílastæðunum í kring voru líka húseiganda að kostnaðarlausu.
Nú, Brú hófst handa við að hanna nýtt og glæsilegt hótel og sömuleiðis endurbæturnar á menningarsalnum. Fjárhagaáætlun var auðvitað gerð. Svo óx viðbyggingin eitthvað að umfangi og út fyrir fjárhagsáætlunina.
Þá rann upp hinn 11. september 2001. Fjármálamarkaðir heimsins skelltu í lás fyrir framan nefið á öllu sem hét ferðaþjónusta, flugfélög og hótel. Fram að þessu hafði þetta verið "alveg að koma" og framkvæmdir fjármagnaðar á skammtímalánum sem átti að klára þegar húsið yrði veðhæft. KÁ var í ábyrgðum.
Nú voru góð ráð dýr og bjargráð enn dýrari.
Ákveðið var að stofna sér félag um Menningarsal Suðurlands og leita styrkja til að fullgera hann. Menntamálaráðherra var þá búinn að tromma upp með áform um Menningarhús í hverjum landsfjórðungi. En, Menningarsalur Suðurlands átti sér betri lobbýista í Vestmannaeyjum og þar skyldi hann staðsettur. Leitað var til SASS (Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga), bæjarstjórnar Árobrgar, þingmanna Suðurlandskjördæmis (en þar í eru Vestmannaeyjar) og allir bentu eitthvert annað. Leitað var til almennings og hafin söfnun fyrir stólum salinn, þar sem fólk gat keypt sér sæti. Ég held jafnvel að einhverjir hafi borgað sín.
Nú fóru lánadrottnarnir að þjarma að og KÁ sökk dýpra í reddingum og ábyrgðum. Bærinn skrifaði upp á veðheimildir í húsinu, án þess að menningarsalurinn væri þar undanskilinn, en uppákrift bæjarins þurfti af því að það var ennþá þinglýstur eigandi hluta hússins. Bærinn skrifaði hins vegar ekki upp á neinar ábyrgðir. Svo var þinglýsingu á eignarhaldi hússins klúðrað (ekki halda að það hafi gers hjá sýslumannsembættinu á Selfossi, þar klúðra menn aldrei neinu), svo húsið var allt þinglýst óskipt eign Brúar.
Dæmið gekk ekki upp og Brú fór á hausinn, með hótel hlutann nær fullbúinn, en mennignarsalinn jafn ókláraðan og áður. Lánardrottnar gengu að veði í húsinu öllu og bærinn átti þar með engan Menningarsal í Hótel Selfoss lengur. Bærinn var víst líka búinn að samþykkja eitthvert skuldabréf fyrir vangoldnum fasteignagjöldum svo hann átti ekki lengur lögveð fyrir þeim öllum, restina hefur hann væntanlega fengið greidda frá hæstbjóðandanum. Svo var gengið að ábyrgðaraðilanum KÁ, sem varð svo gott sem gjaldþrota, fór í nauðasamninga og þurfti að selja allar eigur sínar til að standa undir þeim hluta af skuldbindingum sínum sem nauðarsamningarnir kváðu á um.
Nú er verið að bjóða bænum að kaupa Menningarsalinn aftur. Þeir mega borga hann með niðurfellinga fasteignagjalda, segir í fréttinni. Ekki fylgir það fréttinni hvort það séu uppsöfnuð ógreidd fasteignagjöld nýs eiganda eða hvort þetta sé bara ráðstöfun til framtíðar.
Hvort heldur er, þá kemur þessi guðsvolaði menningarsalur allt eins vel til greina sem nýr menningarsalur í Árobrg, en ekkert frekar en nýr. Íbúar Árborgar skulda eigendum menningarsalarins ekki neitt.
Köttur úti í mýri, setti upp á sér stýri ...
Menningarsalurinn skuli keyptur strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.