Ég hefði samið betur

Icesavesamningarnir eru ekkert flóknir. Því hef ég ákveðið að útskýra þá hér á máli sem hver fullorðinn Íslendingur skilur. Ég útskýri forsendurnar, hvað um var samið og svo bendi ég á það sem betur hefði mátt fara.

1. Ísland á að borga!

1.1. Íslenski innlánstryggingasjóðurinn og íslenska ríkið vegna hans, bera fulla ábyrgð á endurgreiðslu út af innlánsreikningum Landsbankans, allt að 20.887 evrum á hverjum reikningi. Fyrir þessu eru lagaleg rök, sem eru t.d. skýrt rakin í grein Hróbjarts Jónatanssonar hrl í Morgunblaðinu.

1.2. Fari ágreiningur um greiðsluskylduna fyrir dómstól, hvort heldur er á Íslandi eða annars staðar í Evrópu, þá mun íslenska ríkið verða dæmt þar til greiðslu ábyrgðar, þ.e. tapa málinu. Sjá fyrri tilvitnun.

1.3. Tapi íslenska ríkið málinu, mun það annað hvort þurfa að greiða reikninginn strax, eða semja um greiðslu hans. Þá stendur Icesave-skuldbindingin aftur á byrjunarreit. Auk þess mun verulegur málskostnaður hafa bæst við.

1.4. Að þessarri niðurstöðu komust íslensk stjórnvöld og út frá þeim gekk íslenska samninganefndin. Þess vegna rengdi hún aldrei grunnupphæðina.

1.5. Íslenski innlánstryggingasjóðurinn átti ekki fyrir skuldbindingum sínum og það hefði reynst íslenska ríkinu mjög erfitt að snara þessum greiðslum fram. Þess vegna var ákveðið að semja um greiðslur Icesave-skuldbinganna við hollensku og bresku kröfuhafana. Ekki að semja um hvort, heldur um hvernig.

1.6. Breskir og hollenskir innlánstryggingasjóðir höfðu tekið yfir kröfur allra einstakra innleggjenda í þeim löndum og því var við tvo viðsemjendur að ræða en ekki hátt í fjögurhundruðþúsund.

2. Hvernig á að skipa samninganefnd?

2.1. Samninganefnd samanstendur af öllu í senn, viðræðunefnd, stærri baknefnd, aðstoðarmönnum og sérfræðingum um einstök álitamál.

2.2. Sérfræðingar um einstök álitamál, telja sig oft best til þess fallna að leysa mál sem snertir þeirra svið, en yfirsést mikilvægi annara sviða sem snerta sama mál. Fyrir því er m.a. dæmi í niðurlagi tilvitnunarinnar í 1.1.

2.3. Samninganefnd þarf að gera sér grein fyrir því hvað er umsemjanlegt og hvað ekki og svo hvað sé mikilvægara og hvað léttvægara í því sem umsemjanlegt er. Þar á meðal verður hún að gera sér grein fyrir því að ekki verður hægt að halda fram lagarökum sem eiga sér ekki lagalega stoð. Hins vegar er hægt að teygja sig með ýmsum öðrum rökum, þess vegna er verið að semja.

2.4. Mikilvægast er að samninganefnd sé fær um að ljúka samningum. Til mats á því hvenær sé nóg komið er lagt það grundvallaratriði að vega saman það sem náðst hefur og svo tilkostnað á móti ávinningi af því sem enn er hugsanlegt að ná.

2.5. Afar óraunhæft er að ætla samninganefnd að ná fram öllu því sem hún gæti fræðilega náð fram á lengri tíma. Þá er enn ótalið það sem óraunhæft er að hún nái nokkurn tíma fram, hvernig sem reynt er.

3. Um hvað er samið?

3.1. Semja þarf um: a) lánstíma, b) vexti, c) dreifingu greiðslnanna, d) tryggingu fyrir fullnustu greiðslnanna. Þetta kunna allir sem einhverntíma hafa tekið lán.

3.2. Langur lánstími léttir greiðslubyrði afborgana, en þyngir heildar greiðslur, því á þær safnast vextir. Samið var um 15 ára lánstíma.

3.3. Vaxtakjör ráðast af þeim vöxtum sem í boði eru á þeim tíma sem lánið er tekið og möguleikum lántakans til að taka lán annars staðar. Samið var um 5,5% vexti og hafa íslenska ríkinu ekki boðist hagstæðari vextir annars staðar, sem er skjalfest því íslenska ríkið hefur á sama tíma verið að semja um lán annars staðar.

3.4. Afborganir lánsins dreifast þannig að fyrstu 7 árin eru afborgunarfrjálsar, þ.e. hvorki þarf að borga af höfuðstól né vöxtum á þeim tíma, en eftir það verður höfuðstól með áföllnum vöxtum deilt niður á 8 ár með ársfjórðungslegum afborgunum. Á fyrstu 7 árunum má borga inn á höfuðstólinn eftir því sem efni verða til og lækkar þá vaxtaberandi höfðustóll eftir því.
Reiknað er með að til þessarra afborgana fari það sem inn kemur af eignum Landsbankans, en þær falla til við innheimtur af skuldabréfum og sölu eigna.
Þessi sjö ára frestun á beinum framlögum ríkisins til greiðslu afborgana, er mjög mikilvæg. Því á þeim tíma ætti íslenska ríkinu, ef vel er á haldið, að hafa tekist að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið og vera í stakk búið til að mæta skuldbindingum sínum.
Þar að auki er líklegt að á þessu tímabili takist að ná því hæsta verði út úr eignum Landsbankans, sem á annað borð er hægt að ná.

3.5. Íslenska ríkið semur um lánið og Alþingi Íslendinga, sem fer með fjárveitingavaldið á Íslandi, samþykkir því ríkisábyrgð á því. Þar að auki er samið um að það sem fæst út úr eignum hins fallna Landsbanka, gangi til greiðslu krafna innistæðueigenda.

4. Fyrivarar

4.1. Í samningnum er fyrirvari um að hægt sé að skoða málið að nýju eftir 7 ár, þegar afborganir eigi að hefjast. Deilt hefur verið á að ákvæðið sé ekki afgerandi varðandi það hvað þurfi til að endursemja um afborganirnar og hvað í því þurfi að felast.
Ég túlka þetta ákvæði sem svo að í stað þess að vera með getgátur um framtíðina, verði málið eftirlátið þáverandi stjórnvöldum. Megin línurnar eru lagðar. Vilji annar aðilinn endursemja þarna, þá verður hann að færa fyrir því góð rök og vona að hinn aðilinn taki rökum. Rétt eins og fyrri daginn.
Tel ég að endurskoðunarákvæðið sé hvorki tryggara né ótryggara en spár um lífsins ólgusjó að sjö árum liðnum.

4.2. Alþingi Íslendinga, sem hefur reynslu af íslenskri fjárlagagerð og íslenskri pólitík, leggur sjálfstætt mat á það hvernig það geti ábyrgst greiðslurnar.

4.3. Á að krefjast þess að Bertar og Hollendingar hafi meðaumkun með okkur ef á þeim tíma verður Bjarni Benediktsson orðinn forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fjármálaráðherra og Tryggvi Þór Herbertsson efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar? Hver ætlar að bera upp þá hugmynd í endurupptöku samningaviðræðnanna?

4.4. Á að krefjast þess að Ísland þurfi ekki að borga eftirstöðvarnar, nema sem hluta af hagvexti á Íslandi á þeim tíma, eins og Pétur Blöndal lagði til í Kastljósi? Hvað þá með viðmið við hagvöxt í Bretlandi og Hollandi?

4.5. Á að krefjast viðmiðs um hversu ríkt Ísland megi vera, í samanburði við nágrannalönd,til að þurfa að efna samninginn? Ertu með tillögu um viðmið sem aðrir geti sætt sig við?

4.6. Á að krefjast þess að til þess að Ísland þurfi að efna samninginn, þá megi lífskjör í landinu ekki hafa lækkað um eitthvað tiltekið frá því sem var á meðan við lifðum í góðærinu margrómaða? Hvaða viðmið?

Svona hefði ég samið:

1. Íslenska ríkið ábyrgist greiðslur innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og í Hollandi, allt að upphæð 20.887 evrur, eftir innistæðum á hverjum reikningi.
2. Íslenska ríkið samþykkir að taka til þess lán hjá innistæðutrygingasjóðum breska og hollenska ríkisins.
3. Lánstíminn er 15 ár.
4. Vextir eru 5,5%.
5. Lánið ber strax vexti, en er afborganalaust fyrstu 7 árin. Að því loknu verður höfuðstól með áföllnum vöxtum deilt niður á ársfjórðunglegar afborganir til 8 ára.
6. Heimilt er að greiða inn á lánið á fyrstu sjö árunum og lækkar vaxtaberandi höfuðstóll sem því nemur hverju sinni.
7. Endurskoða skal samninginn að sjö árum liðnum. Hafi Íslendingar þá kosið yfir sig ræningjaflokka og sápukúluhagfræðinga, veðsett óveiddan fisk í sjónum og niðurgreitt orku til erlendra auðhringa, þá er óskað eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beiti hernaðaríhlutun til að frelsa þjóðina undan sjálfri sér.

Af þessu má sjá að ég hefði samið betur!


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smellið hjá þér frænka, ætla að senda Kára þetta.

Skrítið að frjálst flæði fjármagns virki bara þegar allt er í plús. Nú eigum við sem þjóð að vera ábyrg fyrir skuldinni.  Er ekki skrítið að Evrópubandalagið tekur niður landamæri en gerir okkur svo ábyrg sem þjóð.  Mitt frelsi er semsagt skert að mér ómeðvituðum.  Kannski átti ég að vita þetta.  Ég viðurkenni að stjórnvöld notuðu pólitísk frjálshyggjugleraugu við túlkun laga um bankastarfsemi og ábyrgð.  Stjórnvöld áttu að láta bankana stefna sér og fá dæmt samkvæmt þessum lögum áður en leyfi voru gefin.  Auðvitað.  Skrítið að við vissum ekki að við værum ábyrg fyrir einkabanka.  Hefðum við ekki krafist öryggis og varna.  Ekki er ljóst að við hefðum getað krafið þá um að reka eigin varasjóði útyfir lög Bandalagsins.  Eva hefur bent á ábyrgð Evrópumanna sjálfra í þessu sambandi. 

Hefðum við ekki átt að gera fyrirvara sem gengur útá að falli mál í sambærilegu máli getum við valið að hlíta þeim dómi. Nú gæti ríkið tekið leyfi af banka eða við komið því þannig við að (Ríkis) banki sæki um leyfi til að reka banka í Evrópu – Seðlabankinn/bankaeftirlitið neitar og bankinn rekur mál á hendur Ríkinu fyrir Evrópskum dómstóli?

Ásgeir Sigurvaldason (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 21:48

2 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Sæll, frændi.  Andrés sonur minn heimsótti Kára um daginn og þeir ræddu pólitík langt fram á nótt.

Já, ég vissi það líka að hagkerfið væri allt að fara til fjandans, samt sá ég þetta ekki fyrir!

Svo hef ég lika komist að þeirri niðurstöðu, eftir ítarlega rannsóknarblaðamennsku, að af öllu því sem ég hef sagt ljótt um auðvaldið og öll þess feitu kapitalistasvín, hef ég ekki talað nógu illa um þá.

Soffía Sigurðardóttir, 11.8.2009 kl. 22:27

3 identicon

Það er engu við þetta að bæta.

Auðséð að þú hefur ekki lært lögfræði.

(Taktu eftir að ég nota ekki hugtakið ¨lögfræðimenntuð¨, enda væri það mótsögn í sjálfri sér). 

Hjörtur B Hjartarson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 22:35

4 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Sæl.

Þetta er athyglisverð samantekt sem er þó mætti bæta. Sama má segja un skrif Ásgeirs. Þau fyrst. Ásgeir, aðalatriðið sem þú misskilur er að skv. ESB erum við ekki ábyrg. Við settum á fót Tryggingasjóð innistæðueigenda sem er ábyrgur. Á bak við hann má ekki vera ríkisábyrgð vegna þess að þá væri Íslenska ríkið að mismuna sínum (Íslenskum) bönkkum umfram banka annarra landa. Það er það sem ICESAVE samningurinn gengur útá í stórum dráttum. Sjóðurinn á að tryggja innistæður að upphæð €20.887 en hann á ekki alla þá upphæð. Bretar og Hollendingar eru BÚNIR að greiða út innistæðurnar og tóku uppá því að greiða út meira en sem nemur þessarri upphæð. Nú þarf tryggingasjóðurinn að taka lán til að endurgreiða UK og Hollendingum það sem hann á ekki fyrir. Fyrir Alþingi liggur núna að samþykkja ríkisábyrgð á þessu láni.

Soffía:

1.2 Ef málið færi fyrir dóm yrði dæmt. Tap liggur síður en svo fyrir.

2.1 Mörgum finnst að samninganefndin hefði átt að innihalda fólk sem hafði reyslu og þekkingu í þeim málum sem semja átti um. Útbrunnir atvinnupólitíkusar (sem hafa alla tíð þruft að styðja sig við aðstoð annara) eru sem regla ekki í þeim flokki. Nýútskrifaðir fræðingar af hvaða sviði sem er, burtséð frá gáfum og gjörfileika, hafa einfaldlega ekki þá reynslu sem til þarf.

2.3 Þetta mistókst nefndinni hrapalega. Hún samdi ekki um neitt. Hún einfaldlega samþykkti allt. Ekki ein grein í "samningnum" tekur mið af sjónarmiðum Íslands nema kannski helst að ú upphafi er 7 ára frestur. Einhverra hluta vegna er þessum 7 árum haldið á lofti eins og um langan tíma sé að ræða.

3.3 Taktu eftir því að þó að tiltekið sé að vextirnir séu 5,55% er samt tekið fram að ef við semjum við aðra á öðrum kjörum (t.d. Svía, Norðmenn, eða Rússa) skulil þau kjör gilda um þennan "samning" Ef rússalán bæri 6,55% vexti yrðu vextir ICESAVE lánsins það líka. Opinn tékki á ótilgreinda vaxtaupphæð á þessu láni.

3.5 Forgangur krafna er mjög umdeildur og því alls ekki ljóst að þetta sé svona. Máske er þetta rétt en um þessar mundir deila lögfróðir um það.

4.1 Í "samningnum" er eingöngu sagt á við getum farið fram á að ræða málið. Það sem hinir skuldbinda sig til að gera er að halda fund til að ræða hvort eitthvað verði rætt.

4.4 Já. Algerlega já. Ef á þeim tíma Íslenska ríkið stendur höllum fæti og bjártýni dagsins í dag um bjarta framtíð ganga ekki eftir t.d. vegna aflabresta, algers verðhrums á áli, eða einhvers annars sem gæti orðið til þess að við eigum lítið aflögu þurfun við að tryggja að þessar afborganir greiði okkur ekki náðarhöggið af því að okkur láðist að semja um greiðslugetu. Sjálfsagt mál. Hvað varðar hagvöxt í UK eða Hollandi bendi ég á að það eru ekki þau lönd sem eiga að greiða. Megi þau bera sem mest úr býtum.

4.5 Nei. Meira er betra. Of lítið og þá erum við í vanda.

4.6 Já. Sama svar og 4.4. Nei, ég hef ekki viðmið en þá tölu má eflaust finna sé rétt fólk látið um að vinna í málinu.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 12.8.2009 kl. 09:38

5 identicon

Takk Ólafur. Soffía vitnar í Hróbjart og ég fæ ekki betur séð en að ríkisstjórn Sjálfstæðis og Framsóknar hafi séð að við bærum ábyrgð, þú manst að þeir settu samningana af stað og þú veist að þá þegar var ljóst að semja átti um hvernig en ekki hvort.  Þú sérð það á samningsmarkmiðunum sem þá voru sett í upphafi.  Ég hef rætt þetta við sjálfstæðismenn sem nota það sem strategíu og reykmaskínu að fara aftur á byrjunarreit og segja að við séum ekki ábyrg. Og svo hitt að skiljanlega viðurkenna menn algert gjaldþrot hægri pólitíkur liðinna frjálshyggju ára með því. Ég tek mark á Evu, sem efast ekki um ábyrgð beggja aðila og Hróbjarti.  En bróðir minn mynnti mig á tilvitnun í Laxnes þar sem hatt talar um að íslendingar geti ekki tekið rökum en klífi þrítugan hamar og gangi í dauða frekar en taka rökum, en að húmor virki á þá.  Í raun er lýsing Laxnes persónulýsing á Davíð ef hann er holdgerving Arkitýpunnar íslensku.  Mér finnst þetta að vísu best koma fram í nútíma vísindum um hvernig, þöggun, dulin stjórnunarárátta, frekja og yfirgangur sjálfsréttlætingar og sjálfsblindu birtist í sjúkleika meðvirkils/alkóhólista.  Þjóðin hagar sér nefnilega eins og hver annar meðvirkill með sukkistunum og henni hefur fjandann ekki batnað.   Ég verð að viðurkenna að í hvert sinn sem koma slæmar fréttir af sukkinu eða misráðnum viðbrögðum okkar þá hugga ég mig við það að því harðari lending, því naktari sem við (sem keisarinn) verðum, því betri von um bata.  

En hitt finnst mér vera klók hugsun hjá mér að setja á svið málaferli eins og ég lagði til hér ofar. Þar mættu mér fróðari manneskjur leggja í púkkið eða stela hugmyndinni og koma hanni á framfæri við tækifæri og kalla sýna.  Það er hvortveggja velkomið.  

Það sem ég óttast er að í sundrung okkar þá fari tækifæri til að félagsvæða auðlindir forgörðum og eftir standi endanleg einkavæðing sem sökum blánkheita íslenskrar yfirstéttar flyst til Evrópu með inngöngu í Evrópubandalagið.  Þess vegna vil ég ekki taka nein skref þangað eins og staðan er. En til vara vil ég viðsemjendur sem eru efasemdamenn og ekki tilbúnir að leggjast flatir.  Ég skil hinsvegar þá sem vilja gefast upp og sjá okkur ekki fær um að stjórna okkur sjálf eða reka gjaldmiðil.  En tækifærið til að ná þroska sem lýðræðisþjóð fer þá líka forgörðum.  Við börðumst og fengum sjálfstæði en eins og margar nýlenduþjóðir snerist pólitíkin strax um peninga og völd en ekki að þroska lýðræðið, enda höfum við ekki einu sinni grundavallar skilning á eðli þrískiptingar valds.  Til dæmis heimtum við núna að ráðherrar tjái sig sem ráðherrar þótt þeir séu fyrst og fremst þingmenn og vafasamt verði að teljast að rétt sé að þeir vermi ráðherrastóla enda hagsmunaáreksturinn augljós.  Eða kusum við þá í ráðherrastóla og getum við látið þá sæta ábyrgð í kosningum?  Hah.

Ásgeir Sigurvaldason (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband