17.1.2009 | 01:50
Eina uppstokkunin sem dugar er kosningar
Nú er kominn tími til að fá nýja ríkisstjórn, án Sjálfstæðisflokks og án Framsóknarflokks. Hér þarf ekki að framlengja samstarf núverandi stjórnarflokka. Það eru óraunhæfir draumórar að þeir muni ná að vinna fyrir einhverja meinta sameiginlega hagsmuni allra landsmanna.
Við stöndum nú frammi fyrir því að útdeila byrðum en ekki arði. Þá reynir á hverra hagsmuna flokkarnir eru að gæta. Þar standa Samfylking og Sjálfstæðisflokkur fyrir sinn hvora fylkingu landsmanna.
Núna er tími neyðaraðgerða liðinn, hvort sem hann hefur verið vel eða illa nýttur og hvort sem neyðarástand er enn viðvarandi eða ekki. Nú er kominn tími á stefnumótun til langtíma. Til þess verður að ganga til nýrra kosninga. Því lengur sem það dregst, því verra fyrir þjóðarbúið.
Grundvallarstefna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er gerólík. Sjálfstæðisflokkurinn er hægriflokkur, hagsmunaflokkur innlends og erlends auðvalds, viðurkennir réttinn til sérhagsmuna og misskiptingar. Þar á ofan er hann gegnum spilltur. Samfylkingin er vinstriflokkur, sem hefur klassísk gildi jafnaðarstefnu að leiðarljósi, samábyrgð og réttlæti.
Þessir flokkar áttu aldrei að fara saman í ríkisstjórn og það var í raun neyðarúrræði eftir að síðustu kosningaúrslit buðu ekki upp á annað skýrt val. Þeir gátu starfað saman meðan tiltöluleg sátt ríkti í samfélaginu. Sú staða er ekki uppi lengur og þessir flokkar munu ekki geta náð saman um hvernig staðið verði að uppbyggingu samfélagsins eftir hrun þess. Það er ekki bara afstaðan til ESB sem sker þar á milli.
Af hverju á að fara að skipta út hluta ráðherraliðsins núna? Er það til að axla ábyrgð á kollsteypu þjóðarbúsins? Eru stjórnvöld svo sein að hugsa að það taki þau 4 mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að skipta út einhverjum ráðherrum af þessu tilefni? Eða er núna kominn tími á að efna yfirlýsingar frá upphafi þessarar ríkisstjórnar um að mannabreytingar muni verða á kjörtímabilinu?
Nei! Tilfæringar á ráðherraembættum núna, verða engin friðþæging fyrir það sem á undan er gengið. Þar er of seint í rassinn gripið nú. Ég hef heldur enga trú á að tilfæringar muni bæta tökin á viðreisn þjóðfélagsins. Til þess hef ég ekki séð menn bíða með nein betri úrræði innan þessa samstarfs en nú eru í boði.
Allt bendir til að við séum að losna við þann hörmungarflokk sem Framsóknarflokkurinn er, úr íslenskum stjórnmálum. Nú þurfum við að losna við hinn helmingaskiptaflokk sérhagsmunagæslunnar, Sjálfstæðisflokkinn. Sjáfstæðisflokkurinn er að verða það sem hann hefur alltaf átt að vera; lítill ljótur hagsmunaflokkur auðs og sérgæsku, án alþýðufylgis. Allur almenningur er að sjá í gegnum það fyrir hvað sá flokkur stendur í raun og fylgi hans mun hrapa verulega í næstu kosningum. Þá fáum við það einstaka tækifæri í sögu landsins frá fullveldi þess fyrir 90 árum, að hafa hvorugan spillta valdaflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn né Framsóknarflokkinn, við völd í samfélaginu.
Skúli Helgason: Krafa um breytingar á rétt á sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Loksins lætur samfylkingarfólk í sér heyra! Já, sendum Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn í ævilanga útlegð, enda báðir komnir langt fram yfir meðalaldur og löngu tímabært að þeir safnist til feðra sinna og mæðra!
En, góða samfylkingarkona, mér finnst að Samfylkingin eigi að taka sér gott frí frá stjórn (já, já, ég veit að núna hristir þú höfuðið) . Það fyrsta sem þarf að gera er að endurvekja lýðræði á Íslandi með nýrri stjórnarskrá, sjá hér og síðan að bjarga því af náttúrunni sem bjargað verður með því kjósa Íslandshreyfinguna og Vinstri græna. Allir flokkar þurfa síðan að henda út um 9/10 núverandi þingmönnum sínum og laða til sín fólk sem tekur hagsmuni lands og þjóðar fram yfir eigin hagsmuni og flokks síns.
Bestu kveðjur í bæinn!
Helga (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 03:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.