29.7.2009 | 14:29
Vondur, verri og ófær vegur
Á íslenskum landakortum eru yfirleitt þrjár merkingar fyrir vegi: Malbikaðir vegir, malarvegir og fjallvegir. Hins vegar láist að flokka fjallvegina í vondur, verri og ófær.
Ég vann við skálavörslu í Nýjadal í þrjú undanfarndi sumur, þó ekki nú í sumar.
Slóðinn í gegnum Vonarskarð er aðeins á fáum kortum. Um Vonarskarð eiga menn ekki að aka nema með reynslu af fjallaferðum, á vel búnum bílum og þá ekki einbíla. GPS-slóðar sýna ekki alltaf réttar leiðir yfir ár, einfaldlega vegna þess að árnar breyta farvegi sínum og þar með þarf að finna rétta leið hverju sinni. Til þess þarf kunnáttu sem fæst með reynslu, ekki bara með tækjum.
Þarna inni í Vonarskarði er heldur ekkert fjarskiptasamband nema með gervihnattasíma. Þarna næst ekkert gsm, nmt, vhf eða tetra. "If you get in trouble, you stay in trouble" tuðaði ég yfir túristum sem vildu endilega kanna Vonarskarðið akandi.
Rauðá lætur ekki mikið yfir sér en er þekkt fyrir sandbleytur. Hún tekur við skammt sunnan við hið bratta og grýtta Gjóstuklif, rétt sunnan við Valafell (ekki Vaðlafell). Vissara er að fara ekki niður nema vera viss um að komast aftur upp. Komist menn suðurfyrir þetta, þá tekur við auðfarnari leið um stund, en síðan þarf að komast yfir jökulár til að komast suður úr Vonarskarði. Þaðan liggja tveir slóðar, annar yfir Köldukvísl og suður með Hágöngulóni vestanverðu, en hinn suður Bárðargötu og að Jökulheimum.
Til að komast vestur fyrir Hágöngulón þarf að krækja fyrir Svarthöfða (við hlið Kolufells). Þá er fyrst ekið yfir Köldukvísl og þverá sem út í hana fer, en þær geta báðar verið erfiðar og síðan suðurfyrir höfðann þar sem leita þarf vaðs yfir Köldukvísl aftur.
Leiðin suður Bárðargötu er mjög torfær og þar þarf m.a. að komast yfir árnar Sveðju og Sylgju sem eru þekktar fordæður. Menn eiga bara einfaldlega að sleppa þeirri hugmynd og láta sér detta eitthvað skemmtilegara í hug. Menn geta upplifað einveru á hálendi Ísland víðar en þarna og spilað svo mýrarbolta á Ísafirði ef þeir vilja vaða í drullu.
Vissulega hafa menn komist Bárðargötu akandi og gangandi. En þótt einhver hafi komist þar á ákveðnum tíma þýðir það ekki að sá hinn sami komist það á öðrum tíma, hvorki daginn eftir eða á sama tíma að ári. Til þess eru aðstæður þarna of óáreiðanlegar.
Að lokum mæli ég með því að fólk upplifi Vonarskarð með samblandi af skynsamlegri ökuferð og gönguferð. Tilvalið er að aka inn í skarðið að norðan og að vörðu sem er rétt sunnan við Valafell. En EKKI lengra. Þaðan er góð dagsganga að fylgja hliðum Tungnafellsjökuls og að jarðhitasvæðinu í Snapadal og njóta landslagsins sem háhitasvæðið hefur litað í sinni alkunnu dýrð. Þarna er líka svo fáfarið að engar líkur eru á að maður verði troðinn undir af öðrum túristum. Eftir það er annað hvort genngið til baka í bílinn, eða ökumaðurinn snýr einn við, en hinir ganga suðurfyrir Tungnafellsjökul og um Mjóhrygg í skálann í Nýjadal. Þetta er öræfaferð með öflugri upplifun og engum föstum trukk.
Svo bara að lokum, farið þennan hring, en ekki byrja í Nýjadal og ætla að hitta trússarann í Vonarskarði. Landslag þar er þannig að mjög auðvelt er fyrir göngumenn og bílstjóra að fara á mis og svo upphefst stressið: Hvar er göngufólkið? Hvar er bíllinn? Hvar er björgunarsveitin til að finna þettta alltsaman? Og ekkert fjarskiptasamband....
Góða ferð!
Trukkur fastur í Rauðá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hei...lets face it, það eru 320.000 manns á þessari risastóru eyju. Ísland er 103.000 ferkílómetrar, þýskaland er 298.000 ferkílómetrar, semsagt 3svar sinnum ísland, og í þýskalandi búa 84.000.000 (MILLJÓNIR) skráðir íbúar. Íslenska þjóðin hefur komist af án gsm sambands uppi á fjöllum þar til fyrir ca 10 árum síðan....
Ég elska safarí vegina útum allt land. Maður upplifir náttúruna á annann hátt á malarvegum og torfærum.
Ferðafólk þarf bara að vera meðvitaðra um hrikaleika nttúrunnar hér og fara varlega. Þá verður ferðin góð
anna (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.