Draumastjórn í vökulandi

Er núverandi ríkisstjórn við það að springa eftir fáeina daga? Hvað tekur við ef svo fer? Þá verður um tvennt að velja, nýja ríkisstjórn byggða á núverandi þinglið, eða nýjar þingkosningar í október.

Lítum fyrst á nýjan stjórnarmeirihluta. Skipting þingsæta er:
Samfylking 20
Vinstrigræn 14
Sjálfstæðisflokkur 16
Framsóknarflokkur 9
Borgarahreyfing 4
Samtals 63

Borgarahreyfingin er í rugli og enginn mun treysta á hana í ríkisstjórn. Hún er því ekki talin með í hugmyndum um þriggja flokka stjórnarmöguleika.
Vinstrigræn geta ekki myndað tveggja flokka meirihluta með neinum nema Samfylkingu, en gætu stærðfræðilega verið í hverskonar þriggja flokka stjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn getur heldur ekki myndað tveggja flokka meirihluta með neinum nema Samfylkingu, en gætu verið í hverskonar þriggja flokka stjórn.
Framsóknarflokkurinn getur ekki verið í minna en þriggja flokka stjórn.
Samfylking getur myndað tveggja flokka meirihluta með hvort heldur er VG eða Sjálfstæðisflokki og verið í hverskonar þriggja fokka stjórn.
Svo er svokölluð þjóðstjórn, eða öllu heldur þverflokkastjórn, en hún er skipuð öllum flokkum og fer meirihluti og minnihluti þá eftir einstaklingum en ekki flokkslínum.

Við skulum skoða raunhæfa möguleika á nýrri ríkisstjórn úr þessum potti, en lítum fyrst á kosningaleiðina.

Fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar mun þá hafa náð innan við hálfu ári. Með því að springa, er verið að senda þau skýru skilaboð að slík stjórn sé ekki volkostur. Enda, af hverju ættu þessir flokkar að ná saman aftur eftir kosningar? Hvaða sameiginlegu úrlausnum eru þeir að sækja umboð til að hrinda í framkvæmd?

Gömlu valdaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, munu ná völdum á ný, eftir að hafa í fyrsta sinn í sögunni verið báðir utan ríkisstjórnar í tæpt hálft ár. Alla daga íslenska lýðveldisins fram að því, - og reyndar fyrr, hafa þeir skipt með sér völdum í landinu, pólitískum og efnahagslegum, í ríkisstjórn, í embættismannakerfi, í valdablokkum atvinnulífsins og í aðgangi að kjötkötlum hermangs og einkavinavæðingar. Bandalag þeirra heldur, hvort sem þeir eru báðir eða annar í ríkisstjórnar. Sá þeirra sem er innan ríkisstjórnar hverju sinni sér til þess að ekki verði gengið um of á hlut hins. Þeir munu ekki unna sér hvíldar, fyrr en þeir verða komnir að kjötkötlunum aftur.

Þessir flokkar eru þegar búnir að velja sér nýja formenn og setja hreina bleiu á bossana á þeim. Nú munu þeir setja fram stefnuskrár um endurreisn lands og þjóðar, sem yfirbýður svo glæsilega í áætlunum að annað eins hefur ekki sést frá endurreisn þýska ríkisins á fjórða áratug síðustu aldar. Þeir munu höfða til særðs stolts þjóðarinnar og eftirsjá hennar vegna nýhorfins góðæris. Ekki verður nokkur þörf á að setja fram raunhæfar áætlanir, enda þjóðin búin að fá sig fullsadda af raunsæisrausi undangengna mánuði. Fólk er samt ekki algjör fífl og því verður ekki hægt að segja þjóðinni að þetta verði sársaukalaust. En, því verður lofað að þjóðin muni aðeins þurfa að æpa eitt "Æ" á meðan góði læknirinn rífur plásturinn af, svo kyssir hann á báttið og sárið verður gróið!

Heldur einhver að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur geti ekki sett saman söluhæfan kosningapakka handa þjóðinni? Heldur einhver að sá pakki verði þá ekki keyptur? Enda, hvað ætla félagshyggjuflokkarnir að setja í sína pakka? Raunsæi? Og með hverju ætla þeir að skreyta þá? Sultaról?

Líklegast er að þingkosningar í október kæmu gömlu valdaflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki aftur til valda. Báðum.

Skoðum þá betur möguleika á nýrri ríkisstjórn án nýrra kosninga.

Ef ný ríkisstjórn verður mynduð úr núverandi þinglið, þá verður hún með þátttöku annarra eða beggja gömlu valdaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Raunhæfir möguleikar eru: Samfylking + Sjálfstæðisflokkur eða "þjóðstjórn".

Sjálfstæðisflokkur + Samfylking:

Fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átti að ná mjúkri lendingu eftir efnahagslega þenslu, sem vitað var að gengin var til enda, þótt endann sjálfan sæju menn ekki fyrir. Hugmyndin byggði á "þjóðarsáttarsamningum" en það heiti hefur verið notað um samstarf samtaka atvinnurekenda og launþega, SA og ASÍ, hið sanna "stétt með stétt". Hugmyndafræði þessi sagði að hvorki auðvaldið né alþýðan næðu árangri ef þau væru alltaf að berjast hvort gegn öðru, hvort um sig kæmi í veg fyrir árangur hins, nær væri að þau sýndu hvort öðru tillitssemi, báðum í hag. Þannig fengi auðvaldið að græða á daginn og alþýðan að grilla á kvöldin. Að vísu þyrfti alþýðan að fá yfirdráttarlán í banka auðvaldsins til að borga Vísareikninginn fyrir grillinu, en veltum okkur ekki upp úr því.

Vitað er að sterk öfl í röðum atvinnulífsins mæna vonaraugum á endurnýjað samstarf þessara flokka. Þeir umbera ábyrgðarlaust gaspur þingmanna Sjálfstæðisflokksins meðan þeir eygja þá von að með því takist að draga kjarkinn svo úr einstaka stjórnarþingmönnum að stjórnin springi. En þegar ný ríkisstjórn tekur við, með þátttöku Flokksins, þá verður ekkert gaspur liðið lengur. Þessir aðilar vilja hafa vinstriflokka með í stjórn til að tryggja frið á vinnumarkaði. Þeir hafa líka lært það af reynslunni að Sjálfstæðisflokkur + Framsóknarflokkur, án samstarfs við vinstriflokk, leiðir til hömlulauss gróðafyllerís með harkalegum timburmönnum á eftir. "Þjóðstjórn" eða þverflokkastjórn uppfyllir þessi óska skilyrði.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu hvorki fara í "þjóðstjórn" né nokkra aðra ríkisstjórn, nema til þess að tryggja þau öfl sem þeir eru pólitískur armur fyrir. Þeir fara ekki í ríkisstjórn bara til þess að bjarga þjóðinni! Hvorki nú eða síðar.

Nú ramba Vinstrigræn á barmi klofnings. Flokkurinn hefur ekki styrk innan þingliðs síns til að taka erfiðar ákvarðanir. Hann hefur hvorki sameiginlega sýn á það hvaða erfiðu ákvarðanir þurfi að taka né hvernig. Stór hluti þingmanna þeirra er upptendraður af því að vera kominn inn á Alþingi til að standa við persónulega sannfæringu sína. Þeir eru bakkaðir upp af fjölda liðsmanna sinna sem telja það æðra að halda fram réttlæti en að ná fram endurbótum. Jafnvel þótt með því uppskerir þú hvorugt. Þar skilur sko á milli þeirra og kratanna!

Í Samfylkingunni hugnast mönnum alls ekki að endurnýja stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. En, það er kominn fram mikill þrýstingur á flokkinn að gera það samt, annað hvort í tveggja flokka stjórn eða í þverflokkastjórn. Þetta er afar vondur kostur, því hann kemur gömlu spilltu valdaflokkunum aftur til valda. Þeim völdum fylgja áhrif. Áhrif til að gera ekki upp við kollsteypu samfélagsins sem skyldi og áhrif til að láta ekki valda menn sæta ábyrgð. Einnig áhrif til að koma í veg fyrir róttækrar breytingar á samfélaginu, breytingar sem gætu tekið samfélagslega velferð fram yfir einkahagsmuni og græðgi.

Geti vinstristjórnin ekki leyst vandamálin nú, er hún óstarfhæf og fellur þar með. Þá verður engin vinstristjórn meir. Alla vega ekki næstu allmörg ár.

Það ræðst í alvöru á  allra næstu dögum hvort þessi ríkisstjórn stendur eða fellur!

Vilji Vinstrigræn og Samfylkingin aðeins segja okkur sögur um réttlátt þjóðfélag, geta þau eftirlátið auðvaldsflokkunum völdin og haldið áfram að segja okkur sögur fyrir svefninn.

Vilji Vinstrigræn og Samfylkingin byggja réttlátt þjóðfélag, skulu þau leysa þau vandamál sem staðið er frammifyrir núna og sýna okkur framkvæmdaáætlun sem dugar vakandi fólki.

Við búum í vökulandi en ekki í draumalandi.

 


mbl.is Efast um alvöru þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála öllu sem þú segir um spillinguna og völdin. En í hverju birtist okkur vinstrimennska þessarar stjórnar?

Doddi D (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 14:29

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég held að þú hafir nokkuð til þíns máls. Það sem Steingrími yfirsást frá fyrsta degi var að þjóðin vænti sér ekki efnahagslegs bata á fyrri forsendum. Hrunið var orðið staðreynd og vonlaust að fela það með einhverjum samningum undir hótunum um einhverjar hefndaraðgerðir. Það sem fjöldi þjóðarinnar vænti var ný stefna með breyttu gildismati. En það kostaði politískan kjark sem ekki var fyrir hendi.

Árni Gunnarsson, 10.8.2009 kl. 14:35

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála þess vegna verður að kjósa um Æsseif

Sigurður Þórðarson, 10.8.2009 kl. 16:08

4 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Einmitt, Doddi D. Kannski þufa vinstrimenn, þar á meðal stjórnarþingmenn, að finna vinstristefnu þessarrar stjórnar til að sjá mikilvægi þess að setja hana á. Sé hún ekki vinstristjórn, til hvaða gagns er hún þá?

Já, Árni. Við væntum og þurfum nýja stefnu með breyttu gildismati og pólitískan kjark til að breyta. Við megum hins vegar ekki láta stolt og þrjósku villa okkur sýn. Þótt andstæðingur okkar hafi í hótunum ef við förum ekki að vilja hans, þá er ekki þar með sagt að rangt sé að fara að vilja hans. Við verðum að leggja kalt mat á stöðu okkar en ekki láta frýja okkur til óheppilegra viðbragða. Ef ég bakka á bíl, á ég að borga tjónið, jafnvel þótt eigandi hins bílsins kalli mig heimska kellingu og hóti að berja mig ef ég borgi ekki.

En, Sigurður. Um hvað eigum við að kjósa í kosningu um Æsseif? Hvort við eigum að borga eitthvað? Hve háa upphæð við eigum að borga? Hvernig við eigum að borga? Um einstaka greinar samningsins? Getum við kosið um það hvernig nýr samningur eigi að vera?

Soffía Sigurðardóttir, 11.8.2009 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband