Varalið dregur úr öryggi íbúanna

Með því að stofna sérstakt varalið lögreglu er hætta á að tapa niður því mikilvæga sjálfboðaliðastarfi sem Íslendingar eiga í björgunarsveitum um land allt og einnig hætta á að með því verði dregið úr faglegum styrk lögreglunnar.

Hlutverk varaliðsins:

Hugmyndir um hlutverk varaliðs lögreglunnar hafa þróst nokkuð í meðförum við undirbúning frumvarps dómsmálaráðherra, sem senn fer að líta dagsins ljós.

Fyrstu hugmyndir voru á þá leið að stofna 250 manna varalið og fá nokkra brynvarða bíla og slatta af auknum vopnabúnaði. Þetta lið átti m.a. að geta bælt niður óeirðir. Hugsið ykkur hverslags aðstæður væru komnar upp í landinu ef til slíkra átaka kæmi! Þá hefðu menn einhversstaðar farið alvarlega út af sporinu með lýðræðið.

Til að koma varaliðinu í gegn, var hernaðardraumunum hent fyrir borð og nú er þetta að þróast í eitthvert varalið af ótiltekinni stærð sem á, eftir því sem dómsmálaráðherra sagði í Silfri Egils í dag, að sinna almennum löggæslustörfum ef lögreglan verður upptekin við einhver afar brýn og umfangsmikil verkefni. Og engir brynvarðir bílar! Lýsti dómsmálaráðherra sérstökum áhuga sínum á að fá fólk úr röðum björgunarsveitanna til þessa starfa.

Áhrif á lögregluna:

Varalið lögreglunnar mun kosta sitt og ef ekki á að stórauka fjárframlög til lögreglumála, mun rekstur þess bitna á lögreglunni í landinu. Við þurfum hæfa og vel menntaða lögreglumenn sem endast í starfi með reynslu sína. Það er óásættanlegt að grípa til einhvers varaliðs þegar mannekla verður í lögreglunni, eins og slegið var fram fyrir nokkrum vikum í umræðu um þau mál í útvarpinu.

Áhrif á björgunarsveitir:

Ef stofnað verður fjölmennt varalið lögreglu, að stofni til með liðsmönnum björgunarsveitanna okkar, mun það hafa mikil áhrif á starf sveitanna. Þessi hópur mun, hvað sem hver segir nú, þróast upp í að verða fremstur í útkallsröðinni. Hann hirðir rjómann af útkallsverkefnunum, sem aftur leiðir til minni áhuga annarra björgunarsveitarmanna og mun draga úr þátttöku í starfi þeirra. Þar með dregur úr öryggi allra landsmanna, því almennur liðsflótti verður aldrei bættur upp með neinu atvinnu- eða hálfatvinnumannaliði.

Þarf svona varalið?

Í lögreglulögum og í almannavarnalögum eru ákvæði um hvernig bregðast skuli við hættuástandi, hver fari með yfirstjórn og hverja hægt sé að kveðja til starfa undir slíkum kringumstæðum.
Nú þegar eru til Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitamenn, Reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita, hvort tveggja frá árinu 2003. Þá voru á árinu 2005 undirritaðir tveir samningar milli dómsmálaráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, annar samningur um þjónustu og samstarf á sviði leitar og björgunarmála og hinn milli sömu aðila og Landhelgisgæslu Íslands líka, um aukið samstarf. Til eru nokkrar viðbragðsáætlanir fyrir sérstök tilvik, sem hægt er að sjá á vef almannavarna. Í sumum lögregluumdæmum er til samstarfssamningur milli lögreglu og björgunarsveita innan umdæmisins og í fleiri lögregluumdæmum er unnið að slíku. Þá eru þjónustusamningar við samgönguráðuneytið frá árinu 2001 og SL er aðili að Vaktstöð siglinga, á fulltrúa í Siglingaráði í Umferðaráði, Almannavarnaráði og er einn af eignaraðilum Neyðarlínunnar. Félagið kemur að viðbragðsáætlun vegna sjúkdómafaraldra og á fulltrúa í alls kyns nefndum og ráðum um öryggi sjófarenda og vegfarenda, svo nokkuð sé nefnt.

Hvað er Slysavarnafélagið Landsbjörg?

Slysavarnafélagið Landsbjörg byggir á 80 ára starfi sjálfboðaliða við slysavarnir og björgunarstörf til sjós og lands um land allt. Í samtökunum eru 18 þúsund manns og nokkur þúsund þeirra virkir þátttakendur um land allt í fjáröflunarstarfi, forvarnastarfi og í útköllum. Þessi mikli fjöldi er sá liðsafli sem almannavarnir byggja á. Þetta er sá mikli fjöldi, sem leysir allt frá smæstu til flóknustu og hættulegustu björgunarverkefna á landinu.

Þessi fjölmenni hópur mun aldrei láta hafa sig út í það að manna einhverja óeirðasveit ef misvitrum stjórnmálamönnum tekst að fara með lýðræði og frið í landinu fjandans til.

Í þessum hópi er fjöldi fólks sem leggur tugi og upp í hundruði vinnustunda á ári hverju, hver og einn, til fjáröflunarstarfa, námskeiða, æfinga og margvíslegrar vinnu. Það eru fáar ef nokkur þjóð jafn heppin og við Íslendingar að eiga svona lið. Gætum að því.


mbl.is Björgunarsveitarmenn í varalið lögreglu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er aldreilis frábær úttekt hjá þér, Soffía. Ég sá ekki þennan hluta Silfurs í dag en bæti úr því á morgun. Ég heyrði hins vegar viðtöl við björgunarsveitarmenn í kvöldfréttum og þeir voru ekki hrifnir.

Við hvað/hverja á þessi sérsveit að berjast? Mótmælendur á ráðhúss- eða þingpöllum? Skrílinn sem fer í mótmælagöngur 1. maí? Varla fara björgunarsveitarmenn að hlaupa uppi dópsala eða nauðgara á götum úti.

Mér finnst þessi umræða og árátta Björns minna um of á þá þróun að stjórna með því að hræða fólk. Blása upp mögulegar hættur sem í raun eru ekki fyrir hendi og fylla almenning einhverjum ótilteknum ótta við einhverja fjarlæga möguleika til að ná betri tökum á skrílnum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.2.2008 kl. 23:48

2 identicon

Árið 1945 voru 2000 manns í Varaliði Lögreglu. Spurning hvort hinir 90 Lögreglumenn í Reykjavík hefðu einir getað stöðvað óeirðirnar á Friðardaginn án stuðnings varaliðsins. Einhverjir Íslendingar sem eru á lífi í dag eiga eflaust líf sitt að þakka því að koma mátti í veg fyrir stórfelldar blóðsúthellingar.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 01:14

3 Smámynd: Landfari

Get ekki að því gert að mér finnst þessi úttekt skrifuð af ekki of mikilli þekkingu á málefninu.

Geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða rjóma er að átt við hjá Björgunarsveitunum. Þetta er enginn kökubasar hjá kvennfélaginu. Síðast þegar ég vissi voru svonefndir undanfarar ræstir út fyrst þegar neyðarkall barst. Aldrei vitað til að öfundar gætti hjá öðrum björgunarsveitarmönnum út í þá. Þeir sem áhuga höfðu á að starfa í þeim hóp unnu sig bara upp í það. Aðrir ekki síður góðir björgunarsveitarmenn höfðu minni áhuga á að vera í fyrsta útkallshóp.

Þess utan heyrist mér Björn vera að vísa í þá einstaklinga sem starfa með björgunarsveitunum en ekki sveitirnar sem slíkar, það litla sem ég hef af þessu frétt.

Landfari, 4.2.2008 kl. 13:03

4 identicon

Þú skrifar eins og það muni koma útköll á þetta varalið lögreglu hvað eftir annað. Ef þetta varalið verður að veruleika verða útköllin væntanlega fátíð, og mun það hvort eð er bitna á lögreglunni ef ekkert er gert í þeirra kjaramálum ef útköll verða tíðari, því þá hættir varalið einfaldlega að mæta í slík útköll.

Tökum sem dæmi ástandið í Frakklandi fyrir ekki svo löngu. Ef ég man rétt þá var lögregla að elta tvo unga erlenda drengi sem voru hjálmlausir og réttindalausir og endaði það á því að þessir drengir lentu í árekstri og létust báðir. Skapaðist þá mikil reiði meðal útlendinga (man ekki hvaða þjóð það var, en það skiptir ekki höfuðmáli) og voru lögreglustöðir brenndar til kaldra kola og ráðist var á lögreglumenn. Segjum að slíkt ástand komi upp á Íslandi. Það væri nú frekar ólíklegt og fátítt en hinsvegar möguleiki. Ef svo kæmi upp, væri þá ekki gott að lögregla gæti sent allan sinn mannskap í að stjórna óeirðum meðan björgunarsveitir yrðu kallaðar út til að aðstoða samborgara sinn á meðan lögreglan er önnum kafin við að sinna meira krefjandi verkefnum?

Ármann (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 13:43

5 identicon

Vil einnig benda á athugasemd sem þú skráðir hjá öðrum sem hafði jákvæðar skoðanir á þessu máli. "Umræðan hefur til þessa mest snúist um pólitískt hlutverk þessa varaliðs." Björgunarsveitir eru ekki pólitískar. Þetta snýst ekki um pólitík. Þetta snýst um að veita hjálp þegar almannarvarnarástand skapast. Svo einfalt er það.

Ármann (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 13:57

6 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Lára Hanna:
Ég skil vel vangaveltur þínar yfir því hvaða hræðsluáróður sé hvatinn að því að búa til þetta varlið. Þetta hugarfóstur dómsmálráðherra er löngu orðið steinfóstur og vonlaust að það fæðist öðruvísi en andvana.

Pétur:
Árið 1945 var heimsstyrjöld að ljúka, svo það er svoldið seint í rassinn gripið að búa til varalið lögreglu núna vegna þess sem gerðist fyrir 63 árum síðan. Hvaða ástæðu sérð þú til að búa til svona varalið núna á árinu 2008?

Landfari:
Ég hef ágæta þekkingu á málefninu og hef m.a. starfað ötullega í björgunarsveit síðastliðinn áratug.

Að fleyta rjómann ofanaf er orðatiltæki sem það fólk skilur sem hefur séð ófitusprengda mjólk, sem er ekki í pappafernu. Hefur sumsé ekkert að gera með það hver er gráðugastur á kökubasar kvennfélagsins. Orðatiltæki eru notuð í yfirfærðri merkingu.

Undanfarar eru ræstir út samhliða öðrum björgunarsveitarmönnum. Ef björgunarsveitarmenn missa áhuga á starfinu, stafar það ekki af öfund, heldur af því að það liggur engin hvatning að baki því að vera varamaður næst á eftir varaliði. Slíkt er eðli áhugabundins sjálfboðaliðastarfs, í björgunarsveit, fótboltaliði eða hvaða félagsskap sem vera skal.

Dómsmálaráðherra er að mínu mati að búa til bákn, í stað þess samstarfs sem þegar er fyrir hendi. Þetta bákn er allt í senn óþarft, dýrt og hefur verri þjónustu í för með sér.

Soffía Sigurðardóttir, 4.2.2008 kl. 14:01

7 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Ármann:
Óeirðir verða ekki til uppúr engu. Ég veit hvað þú sást í sjónvarpinu, en hvaða þjóðfélagsástand sérð þú fyrir utan stofugluggann þinn?

Soffía Sigurðardóttir, 4.2.2008 kl. 14:09

8 identicon

Soffía það sem hefur áður gerst kann að gerast á ný. Árið 1945 skipti Varaliðið sköpum fyrir þjóðina.

2000 manna varalið Lögreglu sannaði sig margoft á þeim áratugum sem það starfaði, og stóð sig oft með mikilli sæmd. Nú hafa aðeins liðið um 12 ár af lýðveldistímanum þar sem Lögreglan hefur ekki yfir að ráða Varaliði. 12 ár af 63. Þetta sem þú óttast hefur hinsvegar aldrei komið til á því tímabili. 

Varaliðið hefur einfaldlega alltof marga kosti fram yfir alla hugsanlega og jafnvel ímyndaða galla til að það borgi sig að vera án þess.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 15:20

9 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Varalið lögreglu hefur aldrei skipt sköpum fyrir þjóðina! Og hvar og hvenær í ósköpunum var það að margsanna sig næstu áratugina eftir það?

Ha? Þetta sem ég óttast og hefur aldrei komið til??? Hvað er það?

Þú færð þó prik fyrir að tala um ímyndaða galla á varaliðinu. Varaliðið er byggt á ímyndaðri varnarþörf og því verður öll umræða um það á svoldið ímyndunarveikum grunni. Þar með lýkur raunverulega rökræðum okkar. Við búum ekki í sama raunveruleika og höfum því sitt hvora ímyndina á varnarþörfum lands og lýðs.

Soffía Sigurðardóttir, 4.2.2008 kl. 17:02

10 Smámynd: Hin Hliðin

Kæra Soffía.

Mér finnst þessi færsla þín vera bull frá upphafi til enda.

Bullið byrjaði mjög fljótlega þegar þú sagðir:

Fyrstu hugmyndir voru á þá leið að stofna 250 manna varalið og fá nokkra brynvarða bíla og slatta af auknum vopnabúnaði.

Svo kom:

Til að koma varaliðinu í gegn, var hernaðardraumunum hent fyrir borð og nú er þetta að þróast í eitthvert varalið af ótiltekinni stærð

Hvaða helvítis vopnabúnað?  Hvaða helvítis her?

Þessi her umræða fer að verða svolítið þreitt hjá ykkur.  BB hefur ekki hingað til talað um að hann vilji fá íslenskan her.  Það eruð ÞIÐ fanatísku fíflin ykkar sem hafið talað um þennan blessaða her hingað til.

Hugmyndin um varalið er góð.  Sama hvort það kemur frá björgunarsveitum eða öðrum.  BB nefnir sjálfsagt björgunarsveitir því þær hafa verið notaðar með góðum árangri hingað til í gæslustörfum.

Ég segi fyrir mitt leiti.

Betra að hafa og ekki þurfa en þurfa og ekki hafa!

Hin Hliðin, 4.2.2008 kl. 23:18

11 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Kæra Hin hlið.

Stendur eitthvað annað á þeirri hlið upphaflega pistils míns sem þú sérð, en á þeirri hlið sem við blasir á tölvuskjánum mínum?

Ég skal viðurkenna að það var ekki 250 heldur 240 manna varalið lögreglu sem Björn kynnti til leiks á fundi Varðbergs þann 29. mars 2007. Sjá HÉR. Um varaliðið er fjallað í þriðja lið. Um tilgang þess má bæði lesa þar og í greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögreglulögum, sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi veturinn 2006-2007, en náði ekki fram að ganga og má lesa HÉR.

BB og ríkislögreglustjóri hafa báðir og hvor um sig rætt um vopnaburð lögreglu, skotvopn, rafbyssur og brynvarða bíla. Áður hefur BB rætt um möguleikann á íslenskum her. Hann hefur líka rætt þessi varaliðsmál í skýru samhengi við varnir landsins eftir brottför bandaríska hersins. Um þetta má m.a. lesa í frétt á eyjan.is, frá 15. desember s.l. Þar er hlekkur inn á skjal sem er Kynning fyrir starfshóp utanríkisráðherra um hættumat, ber yfirskriftina Víðtækar öryggisráðstafanir og er lögð fram af BB dómsmálaráðherra.

Hins vegar, eins og ég skrifa skýrt, eru þessar hernaðarhugmyndir ekki inni í varalilðs drögunum núna, ekki einu sinni brynvörðu bílarnir.

Sú gagnrýni sem ég er að setja hér fram á varaliðshugmyndina, snýr ekki að því að þetta eigi að verða einhver brynvarður og vopnaður miniher í dulbúningi varalöggu. Ég er að gagnrýna varaliðshugmyndina eins og hún stendur núna og eins og hún er kynnt af BB sjálfum. Þ.e.: Dómsmálaráðherra er að mínu mati að búa til bákn, í stað þess samstarfs sem þegar er fyrir hendi. Þetta bákn er allt í senn óþarft, dýrt og hefur verri þjónustu í för með sér.

Þú verður, kæra Hin hlið, að leita á þinni hlið að þeim "fanatísku fíflum" sem óttast óeirðir á Íslandi og dreymir um að varaliðið komi þá til bjargar.

Ég sef vel þótt hér verði ekki stofnað varalið lögreglu.

Dreymi þig vel!

Betra er að sofa rótt og óttast ekki, en að óttast og sofa ekki. 

Soffía Sigurðardóttir, 5.2.2008 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 1045

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband