Who is going to Möðrudalur?

Á hverju sumri villast nokkrir ferðamenn sem ætluðu frá Öskju í Mývatnssveit og þvælast í margar klukkustundir um óvegi sem enda á Sprengisandi. Þeir sáu skilti sem stóð á "Möðrudalur"! Hvaða túristi er á leið í Möðrudalur? Túristi getur hvorki lesið né sagt orðið Möðrudalur. Verða menn ekki bara étnir af ísbjörnum þar? Eða vegpresturinn við Laugafell sem vísar í Skagafjörður? Ha? Vegvísir uppi á hálendinu sem vísar þér út á sjó!?

Nú þegar ferðamenn, innlendir og erlendir, þeysa um allar trissur, kemur berlega í ljós hve skelfilega vantar mikið upp á almennilegar merkingar, bæði þær sem vísa fólki til vegar og þær sem vara við hættum.

Fáðu þér gott landakort! Þar eru sýndar þrjár gerðir af vegum: Malbikaðir vegir, malarvegir og jeppavegir. En jeppavegirnir eru ekki flokkaðir í vondur, verri og ófær. Þar á ofan er þekking þeirra sem reyna að leiðbeina ferðalöngum, jafnvel um næsta umhverfi, víðast hvar allsendis ófullnægjandi hvað varðar þekkingu á fjallvegum. Sumir þessir fjallvegir eru bara fyrir bændur á hestum að smala rollum. Ef þú lendir í vandræðum þar, máttu bíða í marga daga eftir að næsti ferðalangur eigi þarna leið um. Og hann hefur líklega villst til þín! Hva, hringja bara, það er komið gsm samband um allt hálendið. Mikil er trú þín maður! Gsm samband nær EKKI um allt hálendið.

Þetta þekkingarleysi virðist enn herfilegra þegar kemur að starfsmönnum og forráðamönnum bílaleigufyrirtækja. "I have a four wheel" er samheiti lítilla fjórhjóladrifinna "jepplinga" sem sumir eru lítið hærri en götusópar. Og þeir sópa fjallvegina! Sjálfsábyrgð leigutakanna hlýtur að vera há, fyrst það borgar sig að leigja þeim þessar pútur til fjallferða.

Nú er ég að starfa þriðja sumarið mitt við skálavörslu í Nýjadal á miðjum Sprengisandi. Ég stend margsinnis í ströngu við að telja ferðamönnum, innlendum og erlendum, trú um að farkostur þeirra muni ekki flytja þá heilu og höldnu gegnum Vonarskarð, hvað þá yfir Köldukvíslarbotna og bið um nafn og símanúmer nánustu aðstandenda ef þeir ætli yfir "vaðið" á Tungná við Jökulheima. Eða leiðin frá Ingólfsskála, norðan Höfsjökls, að Kili! "Oh! That was on my scedule. But, what if we have two cars?"

Svo þarf eldsneyti á bílana. Það virðist vera talsverð útgáfa á Íslandskortum erlendis þar sem frjálslega er farið með uppfærslur. Eitt slíkt var með bensínstöðvar í Versölum (á Sprengisandi 50 km norðan Hrauneyja), heima á bæ norðarlega í Bárðardal og inni í Veiðivötnum. Á engum þessara staða er selt eldsneyti. Bara til að svala forvitni þinni, þá eru 250 km frá Hrauneyjum að næstu bensínstöð norðan Sprengisands, á Fosshóli í Bárðardal, við hringveginn. Talan á skiltinu við Hrauneyjar er nokkuð lægri. Svo er líka skilti þegar ekið er frá Versölum, sem vísar á að 163 km séu norður í næstu bensínstöð, en ekkert um hve langt sé í bensínstöðina í suðurátt. Að vísu eru 200 km frá Versölum í Fosshól, en skiltið er þar á ofan forngripur frá því að fyrir mörgum árum var bensínsala í Versölum.

Missi menn af því að taka eftir vegprestinum sem vísar þeim á að beygja inn á Sprengisand, um 13 km norðan Hrauneyja, fara þeir upp að Þórisvatni. Slíkt gerist þónokkuð oft. Þá koma menn að mörgum slóðum, fæstum merktum og öðrum með merkingum sem menn klóra sér í hausnum yfir og halda áfram að villast eftir.

Þegar komið er að Versölum, þarf að beygja til austurs eftir Sprengisandsvegi. Fari menn ekki eftir því skilti, halda þeir beint áfram eftir Kvíslaveituveginum, sem er fínn uppbyggður Landsvirkjunarvegur. Svo kemur skilti fyrir ofan Kvíslavatn, sem bendir í austur og á stendur Hágöngur. Er Sprengisandsvegur þar? Sértu ekki viss, heldurðu áfram og kemst í ógöngur. Eftir nokkurn spöl fer vegurinn að versna og þú kemur að skilti sem sýnir þér skýrt og greinilega að vegurinn framundan endi í botnlanga! Að vísu heldur hann áfram eftir eldgömlu Sprengisandsleiðinni upp á Sprengisandsveg við syðri afleggjarann að Laugafelli, en hann er grjótbarningur með nokkuð ströngu vaði á og ekki gott að draga skuldahalann á eftir sér þar. Svo eru tveir þverslóðar inn á Sprengisandsveg sunnan Nýjadals, en þeir eru jafn grimmir við skuldahala og "I have a four wheel" sóparana. Til viðbótar er þarna norðantil fullt af villuslóðum eftir Landsvirkjun sem er þarna um allar trissur að tutla hvern vatnsdropa inn í hana Þjórsá sína.

Loks eru það göngumenn sem ætla að vaða yfir Köldukvísl og Tungná, eða yfir Þjórsá.....

Æ,æ, ég þarf að hætta að blogga og koma mér út í Flugger að kaupa málningu á skálana í Nýjadal.

Hittumst heil!


mbl.is Skilti verða sett upp við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 994

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband