Svona flytur maður gjaldeyri úr landi

Þeir sem vilja losna við stórar fjárfúlgur í íslenskum krónum, geta ekki skipt þeim út fyrir erlendan gjaldeyri, vegna þeirra gjaldeyrishafta sem nú eru í lögum. Þetta gildir t.d. um eigendur svokallaðra jöklabréfa. Þeir fá bara útborgað í íslenskum krónum og geta ekki skipt þeim í gjaldeyri. Hvað gera þeir þá?

Þeir geta annað hvort keypt vörur innanlanda, borgað fyrir þær í krónum og flutt þær síðan út og selt þær þar fyrir erlendan gjaldeyri, sem þeir flytja síðan ekki til Íslands. Eða að þeir troða íslensku krónunum í ferðatösku og nota þær svo til þess að greiða íslenskum útflytjendum fyrir vörur erlendis. Íslenski útflytjandinn kemur þá heim með krónur en ekki gjaldeyri. Í báðum tilvikum berst gjaldeyrir fyrir útflutninginn ekki til landsins.

Eðlilega leiðin er að útflytjandi selur vöru gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri og skiptir þeim gjaldeyri svo í Seðlabanka Íslands fyrir íslenskar krónur sem hann leggur inn á reikninginn sinn. Gjaldeyrinn notar Seðlabankinn síðan til að selja þeim sem eru að flytja inn vörur, en fyrir þær þarf að greiða í erlendum gjaldeyri.

Ástæða þess að útflytjendur svíkjast um að taka við greiðslum í erlendum gjaldeyri og skipta honum hér heima, er að þeir eru að versla á miklu lægra gengi íslensku krónunnar á gráa, eða eigum við að kalla það svarta, markaðinum en á gjaldeyrismarkaði Seðlabanka Íslands.

Þeir sem vilja eindregið losna við íslenskar krónur, eru reiðubúnir til að skipta þeim á miklu lægra gengi en því opinbera. Vandinn er að í íslensku hagkerfi liggja stórar fúlgur í krónum í eigu aðila, einkum erlendra kaupenda jöklabréfa, sem vilja fyrir alla munu skipta þeim út fyrir hagstæðari gjaldmiðla. Ef þessir aðilar skipta þessum krónum fyrir erlendan gjaldeyri, ryksuga þeir upp gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og valda því að Seðlabankinn þarf að kaupa nýjan gjaldeyri dýrum dómum, af því að erlendir bankar vilja ekki kaupa íslenskar krónur. Þess vegna er verið að fá þessi lán frá AGS og erlendum ríkjum.

Við Íslendingar erum nefnilega háð innflutningi á mjög mörgum vörum, sem ekki fást frá innlendri framleiðslu. Gríðarlegt gengisfall og samsvarandi verðhækkunarsprengja myndu senda verðtryggingu lána í þvílíkar hæðir, að jafnvel formanni Framsóknarflokksins svelgdist á að reyna að strika þær út.

Lögunum um gjaldeyrishöft er ætlað að reyna að halda innflutningi sem mest innan þess ramma sem útflutningur skaffar af gjaldeyri. Skili gjaldeyristekjur af útflutningi sér ekki, þarf að nota lánsféð frá AGS og fleirum til að skaffa nauðsynlegan gjaldeyri fyrir innflutningi.

En sumir telja svo smáskitlegan þjóðarhag ekki ofar eigin hag. Sá sem er búinn að innleysa jöklabréfið sitt og situr uppi með vænt íslenkt seðlabúnt, kaupir t.d. fyrir það fisk á Íslandi. Svo flytur hann fiskinn út og selur hann þar. Eða hann situr fyrir íslenska fisksalanum erlendis og býðst til að skipta gjaldeyrinum sem hann var að fá fyrir fisksöluna, með mun fleiri krónum en hann getur fengið fyrir hann hér heima.

Með þessu móti er íslenski útflytjandinn að hjálpa til við að smygla erlendum gjaldeyri úr landi. Það kemur nefnilega í sama stað niður að flytja gjaldeyri úr landi og að flytja gjaldeyri ekki inn í landið.

Gengi gjaldmiðils ræðst af framboði og eftirspurn, því færri sem vilja eiga íslenskar krónur og því lægra verð sem þeir vilja borgar fyrir þær, því lægra verður gengið. Ef sá sem vill losna við íslenkar krónur er tilbúinn að skipta þeim fyrir 300 kr á móti hverri evru, þá verður það gengi íslensku krónunnar.

Þetta er það sem kallað er gjaldeyriskreppa íslensku krónunnar.


mbl.is Brýnt og óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Einmitt.  Næst verður innflutningur á úrum, skartgripum, demöntum bannaður.  Þá færa menn sig yfir í lyf og lækningartæki.  Þessi eltingarleikur endar aldrei alveg eins og í Sovét.  Hugsið ykkur fólk bíðandi í Leifsstöð með seðlabúnt til að selja ferðamönnum á leið til landsins. Allir á miðjum aldri sem fóru í denn tíð til austur Evrópu muna eftir þessu fólki.

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 20:43

2 Smámynd: Jens Guð

  Nú er ég miklu fróðari um gjaldeyriskreppu íslensku krónunnar.

Jens Guð, 31.3.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband