Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.7.2009 | 14:29
Vondur, verri og ófær vegur
Á íslenskum landakortum eru yfirleitt þrjár merkingar fyrir vegi: Malbikaðir vegir, malarvegir og fjallvegir. Hins vegar láist að flokka fjallvegina í vondur, verri og ófær.
Ég vann við skálavörslu í Nýjadal í þrjú undanfarndi sumur, þó ekki nú í sumar.
Slóðinn í gegnum Vonarskarð er aðeins á fáum kortum. Um Vonarskarð eiga menn ekki að aka nema með reynslu af fjallaferðum, á vel búnum bílum og þá ekki einbíla. GPS-slóðar sýna ekki alltaf réttar leiðir yfir ár, einfaldlega vegna þess að árnar breyta farvegi sínum og þar með þarf að finna rétta leið hverju sinni. Til þess þarf kunnáttu sem fæst með reynslu, ekki bara með tækjum.
Þarna inni í Vonarskarði er heldur ekkert fjarskiptasamband nema með gervihnattasíma. Þarna næst ekkert gsm, nmt, vhf eða tetra. "If you get in trouble, you stay in trouble" tuðaði ég yfir túristum sem vildu endilega kanna Vonarskarðið akandi.
Rauðá lætur ekki mikið yfir sér en er þekkt fyrir sandbleytur. Hún tekur við skammt sunnan við hið bratta og grýtta Gjóstuklif, rétt sunnan við Valafell (ekki Vaðlafell). Vissara er að fara ekki niður nema vera viss um að komast aftur upp. Komist menn suðurfyrir þetta, þá tekur við auðfarnari leið um stund, en síðan þarf að komast yfir jökulár til að komast suður úr Vonarskarði. Þaðan liggja tveir slóðar, annar yfir Köldukvísl og suður með Hágöngulóni vestanverðu, en hinn suður Bárðargötu og að Jökulheimum.
Til að komast vestur fyrir Hágöngulón þarf að krækja fyrir Svarthöfða (við hlið Kolufells). Þá er fyrst ekið yfir Köldukvísl og þverá sem út í hana fer, en þær geta báðar verið erfiðar og síðan suðurfyrir höfðann þar sem leita þarf vaðs yfir Köldukvísl aftur.
Leiðin suður Bárðargötu er mjög torfær og þar þarf m.a. að komast yfir árnar Sveðju og Sylgju sem eru þekktar fordæður. Menn eiga bara einfaldlega að sleppa þeirri hugmynd og láta sér detta eitthvað skemmtilegara í hug. Menn geta upplifað einveru á hálendi Ísland víðar en þarna og spilað svo mýrarbolta á Ísafirði ef þeir vilja vaða í drullu.
Vissulega hafa menn komist Bárðargötu akandi og gangandi. En þótt einhver hafi komist þar á ákveðnum tíma þýðir það ekki að sá hinn sami komist það á öðrum tíma, hvorki daginn eftir eða á sama tíma að ári. Til þess eru aðstæður þarna of óáreiðanlegar.
Að lokum mæli ég með því að fólk upplifi Vonarskarð með samblandi af skynsamlegri ökuferð og gönguferð. Tilvalið er að aka inn í skarðið að norðan og að vörðu sem er rétt sunnan við Valafell. En EKKI lengra. Þaðan er góð dagsganga að fylgja hliðum Tungnafellsjökuls og að jarðhitasvæðinu í Snapadal og njóta landslagsins sem háhitasvæðið hefur litað í sinni alkunnu dýrð. Þarna er líka svo fáfarið að engar líkur eru á að maður verði troðinn undir af öðrum túristum. Eftir það er annað hvort genngið til baka í bílinn, eða ökumaðurinn snýr einn við, en hinir ganga suðurfyrir Tungnafellsjökul og um Mjóhrygg í skálann í Nýjadal. Þetta er öræfaferð með öflugri upplifun og engum föstum trukk.
Svo bara að lokum, farið þennan hring, en ekki byrja í Nýjadal og ætla að hitta trússarann í Vonarskarði. Landslag þar er þannig að mjög auðvelt er fyrir göngumenn og bílstjóra að fara á mis og svo upphefst stressið: Hvar er göngufólkið? Hvar er bíllinn? Hvar er björgunarsveitin til að finna þettta alltsaman? Og ekkert fjarskiptasamband....
Góða ferð!
Trukkur fastur í Rauðá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.7.2009 | 19:55
Hér með breyti ég samningi okkar
Mér hefur borist svohljóðandi tölvupóstur:
Síminn vekur athygli á að 14. gr. í skilmálum fyrir internetþjónustu hefur verið breytt.
14. gr. sem gildir til 31. júlí.
Síminn áskilur sér rétt til þess að takmarka þjónustu til rétthafa tengingar fari erlent niðurhal, á síðustu 30 dögum, umfram það sem innifalið er í áskriftarleið viðskiptavinar. Fari notkun umfram nefnd mörk áskilur Síminn sér rétt til þess að takmarka þjónustu hans tímabundið og minnka bandvídd tengingar hans til útlanda. Síminn mun tilkynna viðskiptavini samstundis um slíkar þjónustutakmarkanir með tölvupósti. Bregðist viðskiptavinur ekki við þeim takmörkunum áskilur Síminn sér rétt til þess að takmarka þjónustu til viðskiptavinarins enn frekar.
14. gr. sem gildir frá 1. ágúst
Síminn áskilur sér rétt til þess að takmarka þjónustu til rétthafa tengingar tímabundið fari erlent niðurhal umfram það gagnamagn sem innifalið er í áskriftarleið viðskiptavinar. Fari erlent niðurhal umfram innifalið gagnamagn áskilur Síminn sér rétt til þess minnka bandvídd tengingar hans til útlanda. Síminn mun tilkynna viðskiptavini samstundis um slíkar þjónustutakmarkanir með tölvupósti.
Núgildandi skilmálum var síðast breytt 1. apríl s.l. Þá var 14. greininni m.a. breytt á þann veg að miðað var við ákveðið gagnamagn á 30 daga tímabili, en áður var miðað við mælingu á 10 daga tímabili. Skammturinn innan 10 daganna var svo knappur að hann leyfði nánast engar sveiflur milli daga innan mánaðaráskriftarinnar.
Núna er bandvíddin minnkuð ef niðurhal fer umfram mörk á undanförnum 30 dögum og færist upp aftur um leið og niðurhal er komið innan marka aftur. Skerðingin stendur því álíka lengi og toppurinn. En nú verður ekki getið um neitt viðmiðunartímabil lengur. Eitthvert viðmiðunartímabil hlýtur þó að vera, annað er ógerlegt. Af hverju er ekki hægt að upplýsa mann um nýju viðmiðunina? Og hvað á þessi tímabundna skerðing á bandvídd að standa lengi, hafi notandinn farið yfir strikið?
Eitt er að sæta einhliða skilmálabreytingum af hálfu annars aðila viðskiptasambandsins, annað er að fá ekki að vita hvað í skilmálagreytingunni felst.
Haldir þú lesandi góður að einhliða skilmálabreyting standist ekki, þá vísa ég á 30. grein Skilmála Internetþjónustu:
30. Síminn áskilur sér rétt til að endurskoða þessa skilmála án fyrirvara ef þörf krefur.
13.7.2009 | 00:54
Hver á forgangskröfuna?
Af hverju á ílsenski innlánstryggingasjóðurinn ekki forgang á þrotabú Landsbankans vegna Icesave? Er það kannski af því aðhann hefur ekki greitt trygginguna út, heldur fengið hana að láni hjá öðrum sem þar með á forgangskröfuna núna?
Lítum fyrst á hver munurinn er á þeirri leð sem farin var samningunum um greiðslu íslensku innistæðutryggingarinnar á Icesave og þeirri leið sem RHH segir að hefði átt að fara.
A) Leið Ragnars: Innlán eru forgangskröfur, en þær hafa að auki innbyrðis forgangsröð þar sem íslenski innlánstryggingasjóðurinn er fyrstur, viðbótin frá breska innlánstryggingasjóðnum næst og ótryggð innlán í þriðja sæti.
B) Leið Icesavesamningsins: Innlán eru forgangskröfur, en þær hafa að auki innbyrðis forgangsröð þar sem íslenski og breski innlánstryggingasjóðurinn eru jafnsettir fyrstir, en ótryggð innlán í öðru sæti.
Ragnar bendir á að sá sem kaupir forgangskröfu, að hluta eða í heild, öðlast þar með forgangskröfuréttinn á hendur þrotabúinu, þannig sé þessu t.d. varið með tryggingasjóð launa.
En, breski innistæðutryggingasjóðurinn tryggir ekki aðeins mismun á íslensku (EES-bundnu) tryggingunni og þeirri bresku, heldur alla upphæðina upp að 50 þús pundum (eða evrum, mismunandi eftir fréttum!). Nú er breski innistæðutryggingasjóðurinn búinn að greiða innistæðueigendum á Icesave út alla þá tryggingu. Þannig "keypti" hann kröfuna á íslenska innistæðutryggingasjóðinn og er nú að gera kröfu á hann um að greiða íslenska hlutinn inn í breska tryggingasjóðinn. Það er þar af leiðandi breski innistæðutryggingasjóðurinn sem á kröfurétt á þrotabúið, en ekki sá íslenski.
Síðan er samið um það í þessum margumrædda Icesave samningi að það sem innheimtist úr þrotabúinu inn í breska tryggingasjóðinn, gangi hlutfallslega jafnt upp í þær kröfur sem íslenski tryggingasjóðurinn ábyrgist og þann hluta sem lendir eingöngu á breska sjóðnum. Þeir innistæðueigendur sem áttu fé inni á Icesave umfram þessar ábyrgðir koma svo næstir í kröfuröðinni, að þessum innistæðutryggingum greiddum.
Þótt 50 þúsund evra (eða punda) innistæðutrygging Breta sé umfram skylduna samkvæmt EES, þá er hún sett með breskum lögum, áður en Landsbankinn fór á hausinn, að vísu frekar skömmu áður.
Hefði íslenski innistæðutryggingasjóðurinn gengist strax við ábyrgð sinni og greitt sitt út strax, en ekki fengið það að láni hjá Bretum, hefði hann átt sjálfstæðan kröfurétt á þrotabúið og e.t.v. getað gert kröfu um fyrsta forgang, með breska tryggingasjóðinn í öðru sæti og ótryggðar innistæður í þriðja sæti, eins og RHH er að tala um.
En, hann átti ekki fé fyrir innistæðutryggingunni og þaðan af síður í gjaldeyri. Já, það er dýrt að vera fátækur. Og dýrara að vera féflettur af bankaræningjum.
Sökudólgarnir í Icesave málinu og bankahruninu öllu eru bankaræningjarnir, en ekki sú ríkisstjórn sem var kosin eftir hrunið og er að takast á við þá ábyrgð að koma þjóðarbúinu aftur í rekstarhæft ástand.
Ragnar H. Hall ætti nú að vita að það er ekki skiptastjóranum að kenna að þrotabúið fór á hausinn.
Mistök í Icesave-samningnum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2009 | 11:00
Hvar finnst reyndur saksóknari?
Þegar ég hlustaði á Evu Joly segja í Kastljósi að ráða þyrfti þrjá reynda saksóknara til að fara með rannsókn á gömlu bönkunum þremur, þá velti ég því fyrir mér hvar þá væri að finna. Og hverjir hefðu skipað þá í embætti.
Ég byrjaði á því að fletta upp í ráðherralista dómsmálaráðuneytisins, sem birtir lista yfir alla dómsmálaráðherra Íslands frá árinu 1917. Þar sést skilmerkilega að helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa skipt þessu embætti á milli sín allveg síðan þeir urðu til, með eftirfarandi undantekningum:
Jón Sigurðsson, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 8. júlí 1987 til 28. september 1988.
Vilmundur Gylfason, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 15. október 1979 til 8. febrúar 1980.
Friðjón Skarphéðinsson, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 23. desember 1958 til 20. nóvember 1959.
Finnur Jónsson, dómsmálaráðherra frá 21. október 1944 til 4. febrúar 1947.
Ofantaldir sátu allir á þingi fyrir Alþýðuflokkinn, meðan þeir voru ráðherrar.
Svo nú spyr ég: Hvaða núlifandi dómari, sýslumaður eða saksóknari á öllu Íslandi hefur ekki verið skipaður í embætti af dómsmálaráðherra annars helmingaskiptaflokkanna, Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks? Og ... var hann valinn í embætti af því að hann var hæfari en aðriri umsækjendur, eða af því að ráðherranum sem skipaði hann þótti hann hæfari?
Gangi okkur vel að finna þrjá reynda saksóknara!
Frumvarp um sérstakan ríkissaksóknara fyrir þingið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.7.2009 | 00:18
Breskir og hollenskir fjárfestar væntanlegir
Hvað gagnast það að borga Icesave innistæðutryggingarnar í íslenskum krónum? Heldur einhver að breskir og hollenskir sparifjáreigendur ætli að fjárfesta á Íslandi fyrir sparifé sitt? Er ekki líklegast að þær krónur bættust á biðlistann með jöklabréfakrónunum sem bíða þess óþreyjufullar að komast úr landi í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri?
Í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld hlustaði ég á Eygló Harðardóttur, þingmann Framsóknarflokksins, gagnrýna það ítrekað að ekki hefði verið samið um að íslensku innistæðutryggingarnar á Ivesave yrðu borgaðar í íslenskum krónum. Hún sagði það afar mikilvægt af því að við ættum ekki og myndum ekki eignast nægan gjaldeyri til að borga þær í erlendri mynt. Því spyr ég: Hver er munurinn á því að borga innistæðutryggingarnar beint í erlendri mynt, eða að borga þær fyrst í íslenskum krónum og þurfa svo að leggja fram gjaldeyri þegar sparifjáreigandinn vill skipta þeim í erlenda mynt?
Hvernig rímar þetta við áformin um að aflétta gjaldeyrishöftum?
Innistæðutryggingin, samkvæmt reglum EES, hljóðar upp á ákveðna upphæð í evrum. Á hvaða gengi krónunnar ætlar Eygló að umreikna í krónur þegar sparifjáreigandanum verður borgað út? Því lægra sem gengið er, því fleiri krónur fær hann. Gengið stendur andskoti lágt núna. Vill Eygló láta borga út núna? Eða vill Eygló láta borga út seinna, t.d. eftir 7 ár? Hvert veðjar hún á að gengi krónunnar verði þá? Ef borga á þetta út seinna, en samt í íslenskum krónum, hvenær ætlar hún þá að umreikna úr evrum í krónur? Vegna verulegra breytinga á gengi krónunnar undanfarna mánuði og ófyrirséðra en samt líklega verulegra breytinga á gengi krónunnar það sem hún á eftir ólifað, þá skiptir tímasetning umreikningsins og tímasetning greiðsludagsins verulegu máli.
Annars ætti þingmönnum Framsóknarflokksins ekki að verða skotaskuld úr því að finna snillinga í gerð framvirkra gjaldeyrissamninga til að reikna þetta dæmi fyrir sig. Nóg er af slíkum flokksgæðingum á þeim bæ. Og tær snilld þeirra víðfræg.
Meirihluti mótfallinn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2009 | 23:39
Það sem ekki er í fréttinni
Maðurinn hafði hringt í fréttastofu fyrr um kvöldið og beðið um umfjöllun. Hann var þá í talsverðu uppnámi og sagðist eiga óuppgerðar sakir við lögregluna.
Hann hringdi aftur síðar um kvöldið, enn órólegri en í fyrra skiptið. Þá sagðist hann vera á tveggja tonna jeppa á 140 kílómetra hraða á leið niður í miðbæ. Hann sagðist ætla að keyra inn í lögreglustöðina og talaði síðan um að keyra inn í samskiptamiðstöð lögreglunnar. Auk þess hótaði hann að skaða lögreglumenn eða -bíla ef þeir yrðu á vegi hans.
Finnst þér ekki fáránlegt að ég sé að segja þetta?" sagði maðurinn og sagðist vera kominn með nóg af því að lögreglan vildi ekki ræða við hann. Hann sagðist grípa til þessara ráða til að fá loksins einhverja athygli.
Fréttamaður reyndi að róa manninn niður og segja honum að fara heim án árangurs. Símtalinu lauk þegar maðurinn sagðist ætla að fá leiðbeiningar 118 símaskrár til að finna Skógarhlíð 16, þar sem hann sagðist ætla að keyra inn í húsið.
Þú átt eftir að heyra af þessu í kvöld."
Nú spyr ég um það sem ekki er sagt frá í fréttinni á visir.is: Gerði fréttamaðurinn lögreglu viðvart eftir þessi símtöl?Ók á hurðir slökkviliðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2009 | 23:11
sr Jón eða Sigurjón
Hefði Kópavogsbær tekið kúlulán til 20 ára með 3,5 vöxtum hjá lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar, hefði þetta þá verið tær snilld?
Hefði lífeyrissjópurinn ávaxtað féð með kaupum á innlendum og erlendum verðbréfum, skuldabréfum og hlutabréfum í réttum hlutföllum, og horast herfilega, væri það þá ekki hið besta mál?
Ef ég kæri lífeyrissjóðina og séreignarlífeyrissjóðinn sem ég hef borgað í fyrir að hafa rýrt sjóð minn umtalsvert á árinu 2008 og að það fé sem þar er bundið sé enn að rýrna, mun FME þá kæra stjórnendur sjóðanna til efnahgasbrotadeildar ríkislögreglustjóra? Ég ætla að láta á þetta reyna!
Ávöxtuðu fé sjóðsins hjá Kópavogsbæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2009 | 11:08
Oh he is one of Goodfellas
Það er vel við hæfi að þjóðsöngur útrásarvíkinganna sé sunginn á ensku, enda búa þeir flestir á Englandi. Einn aðallögfræðingur þeirra hefur upplýst að fræg kona sé ekki talin góður pappír í þeirra hópi. "She ain´t a Jol(l)y good fellow", segir hann í fyrirsögn á grein þar að lútandi í Pressunni.
Á meðan syngja persónur og leikendur í þeiri frétt sem hér er bloggað við, hver um annan:
Oh, he is one of Goodfellas,
oh, he is one of Goodfellas,
oh, he is one of Goodfeeeeellaaaaas!
That nobody can deny!
Fékk 70 milljóna lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2009 | 11:41
Aspartam í tonnavís
Það væri heilsufarslegt stórslys ef sykurskattur leiddi til þess að framleiðendur færu að dengja enn fleiri tonnum af aspartam í matvæli landsmanna.
Gervisykurinn aspartam, eða Neutra Sweet, blekkir bragðlaukana með því að líkja eftir sykursameindum, en er bara gervi og gefur því engin kolvetni og þar með enga orku. Sætubragð án kaloría, er það ekki lang sætasti draumurinn? Ef bara væri verið að blekkja tunguna, væri draumurinn fullkominn. En draumurinn getur breyst í martröð. Blekkingarefnið aspartam gufar nefnilega ekki upp af tungunni, heldur breiðist út um líkamann eins og hver önnur innbyrt næringarefni. Þar telur það líkamanum trú um að hann hafi fengið sykur og líkaminn bregst við eins og hann hafi fengið sykur, en sykurinn er enginn og þar með ruglast líkamssstarfsemin, þar með talin stjórnstöðin heilinn. Það þarf ekkert háskólapróf í líffræði til að skilja þetta, það sést með heilbrigðri skynsemi. Það þarf hinis vegar háskólapróf í líffræði og helst líka í lögfræði, til að geta véfengt þetta.
Ef við Íslendingar höfum lært eitthvað á "þessum síðustu og verstu tímum" þá ætti það að vera að treysta heilbrigðri skynsemi en ekki sérfræðingum sem segjast hafa meira vit á málum en við sjálf. Það getur ekki verið skaðlaust fyrir líkamann að éta gerviefni, hvað svo sem sérfræðingaher stórfyrirtækja segir!
Lestu smáletrið á matvælaumbúðunum og kauptu aldrei vöru sem inniheldur aspartam.
Hitaeiningasnautt gos sykurskattlagt? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.6.2009 | 21:00
Fær bæjarstjórinn inni á Letigarðinum?
Í mínu ungdæmi - voða er gaman að vera svo gömul að geta tekið svona til orða - þá kallaðist það að fara á Letigarðinn að vera stungið inn á Litla-Hraun. Allir vita ennþá fyrir hvað Litla-Hraun stendur, en nú býðst Kópavogsbúum að leigja sér pláss á Letigörðum og eiga meira að segja að borga fyrir það.
Ég býð spennt eftir þeirri stundu þegar bæjarstjórinn þeirra segir: "Það er gott að búa á Letigarði"!
Letigarðar í Kópavog | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar