Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.3.2009 | 12:21
ÉG þarf að vera á Alþingi
Af hverju skiptir maður um flokk þegar hann tapar í prófkjöri? Er nóg að skoða skýringu hans sjálfs til að svara því?
Það hendir ótrúlega marga að telja setu á Alþingi vera allt frá alfa til omega í pólitískum áhrifum. Einkum vill þetta verða hlutskipti þeirra sem ná einhverntíma setu á þessu Alþingi. Svo falla menn í kosningum og lýsa því þá yfir að þeir séu annað hvort hættir í pólitík, eða farnir í annan flokk.
Hvað er allt þetta fólk að gera í Samfylkingunni, sem ekki er með þetta steinbarn, alþingismann, í maganum?
Það fólk er að útbreiða hugsjón jafnaðarstefnunnar, alla daga, alls staðar!
Fólk gengur í Samfylkinguna til að ræða og þróa hugmyndir og til að bindast samtakamætti um að hrinda þeim í framkvæmd, í smáu sem stóru í samfélaginu. Mörg hundruð manns vinna þar launalaust og telja það ekki eftir sér. Þetta fólk hefur áhuga á samfélagi sínu og tekur þar til viðbótar þá ákvörðun að gera líka eitthvað í málunum. Þetta er fólkið sem dags daglega heldur fram málstað réttlætis, jafnréttis og samvinnu.
Á nokkurra ára fresti kjósum við okkur umboðsmenn til að fylgja þessum hugsjónum eftir á Alþingi og í sveitastjórnum og víðar. Við skiptum meira að segja stundum um umboðsmenn. En við skiptum ekki um hugsjón og hættum að vera jafnaðarmenn.
Þegar við kjósum í prófkjöri náum við sjaldnast að velja allt það góða fólk sem býður sig fram í efstu sætin. En það er enginn skaði, því aðeins var úr jafnaðarmönnum að velja. Það vefst hins vegar oft fyrir frambjóðendunum sjálfum og helstu stuðningsmönnum þeirra, að sjá útfyrir eigin árangur.
Ég hef unnið með Karli V í einum af málefnahópum Samfylkingarinnar, um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og hópurinn mun skila sinni vinnu til landsfundarinnar sem framundan er. Þar hef ég ekki orðið vör við annað en að málflutningur Karls hafi verið í góðu samræmi við málflutning annarra í flokknum. Að hann hverfi úr okkar röðum nú, vegna ágreinings um sjávarútvegsstefnu, eða vegna ónógs framgangs þeirrar stefnu innan flokksins, er því tóm þvæla.
Að velja svo Frjálslyndaflokkinn til að starfa í, er bara galið....!!!
Karl V, nú sló aldeilis útí fyrir þér!
Karl V. til liðs við Frjálslynda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2009 | 22:14
Ofsótti ópólitíski embættismaðurinn
"Af hverju ertu ekki ópólitískur eins og ég og kýst Sjálfstæðisflokkinn?" Þessi óborganlega setning er höfð eftir einum af þeim sem eitt sinn settu svip á bæinn Reykjavík, þekktan karakter sem ekki steig í vitið.
Sjálfstæðismenn halda margir hverjir að þeir séu normið og allrir aðrir séu eitthvað afbrigðilegir. Völd eru þeim í blóð borin og eiga að ganga að erfðum. Ef þeir missa völd hlýtur það að stafa af samsæri, - á æðstu stöðum, - a.m.k. á Bessastöðum.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vitnar í nokkurra ára gömul ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur um mikilvægi sjálfstæðis og fagmennsku í Seðlabankanum og furða sig á að hún skuli nú ætla að hlutast til um stjórnunarstöður þar. "Hvað hefur breyst?" hrópar hann yfir þingsalinn!
Já, hvað skyldi nú hafa breyst að undanförnu? Hefur einhver séð geimskip í bakgarði Alþingishússins? Eða hvaðan kemur sá maður sem skundar upp í ræðustól og spyr í forundran hvað hafi eiginlega breyst á Íslandi nýverið?
Svo skrifar einn í bréfi: "Lög sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka og forða pólitískri aðför að seðlabankastjórninni hafa nú verið þverbrotin."
Hver sagði þetta? Og var það þegar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra til margra ára var skipaður í embætti seðlabankastjóra, eða var það þegar hann var rekinn úr embættinu?
Björn: Réttmæt ábending Davíðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2009 | 14:49
3 af 15000 sæta einelti
Pétur Blöndal ákallar Ögmund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2009 | 20:40
Ein bomba á stjórnarsáttmálanum
Hvað getur falist í þessum orðum: "að kosningalögum verði breytt og að opnað verði á persónukjör í kosningum til Alþingis."?
Ég er með ákveðna tillögu að breytingu í þessa veru:
Boðnir verða fram listar eins og áður. Nöfnum á listana verður ekki raðað fyrirfram, heldur ræðst röð þeirra af vali kjósenda á kjördag. Hver kjósandi getur aðeins valið einn lista. Innan þess lista getur hann raðað frambjóðendum. Raði kjósandi ekki frambjóðendum á þeim lista sem hann kýs, þá ræðst röð þeirra af vali hinna sem röðuðu.
Þar sem stutt er til næstu kosninga finnst mér allt í lagi að opna á þennan möguleika en skylda hann ekki, þannig að enn sem áður verði hægt að bjóða fram forraðaða lista. Þá verður þeim heldur ekki breytt, nema samkvæmt gömlu útstrikunar- og röðunarreglunum sem áður giltu.
Hjá þeim sem fara þessa leið, verður ekkert forval, ekkert prófkjör fyrir kosningar.
Eftir sem áður verða listar flokkanna bornir fram af kjöræmisráðum þeirra og þannig bjóða ekki aðrir sig fram þar en samþykktir verða af kjördæmisráðunum. Þeir sem ekki hljóta náð fyrir augum flokksfélaganna, verða að fara fram fyrir einhverjar aðrar hreyfingar.
Hjá gömlum flokkshestum vakna spurningar eins og: Hver á að leiða listann í kosningabaráttunni? Hver á að svara fyrir hann í fjölmiðlum og á kosningafundum?Ég spyr á móti: Hvort er mikilvægara að velja foringja eða að velja fulltrúa?
Þetta fyrirkomulag er lýðræðislegara en það sem við búum við nú. Það gerir stjórnmálamenn líka meðvitaðari um að þeir sækja vald sitt til fólksins, en ekki til flokkseigendafélagsins, eða klíkunnar sinnar. Þetta eykur líka tilfinningu flokksfélaga fyrir því að flokkurinn snúist um stefnumál og samtakamátt til að ná þeim fram, en ekki um baráttu við útvalda sem gína yfir því sem þeim eitt sinn var trúað fyrir.
Þetta breytir talsverðu í vinnubrögðum þeirra sem starfa fyrir stjórnmálahreyfingar í framboði og líka fyrir fjölmiðla sem eru að fjalla um kosningabaráttu. Þetta er öðruvísi og það getur stundum verið erfitt að vinna öðruvísi. En þetta er vel hægt og ég er ein af þeim sem er reiðubúin að gera hlutina öðruvísi.
Til hamingju með daginn!
Slá skjaldborg um heimilin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 10:57
Vondir verkamenn
Ingibjörg Sólrún er góður verkstjóri, en Sjálfstæðisflokkurinn er vondur samstarfsaðili.
Þegar ekki er góðra kosta völ, skal taka vondan kost framyfir verri. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn er klárlega vondur kostur. Er það virkilega svo að aðrir kostir séu verri? Finnst enginn skárri kostur?
Hvort er skárra góður verkstjóri og vondur samstarfsaðili, eða síðri verkstjóri og skárri samstarfsaðili?
Það má mikið koma uppá í samningaviðræðum Samfylkingar og Vinsgtrigrænna til að samstarfsstjórn þeirra sé ekki skárri kostur heldur verri en að hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
Vilja taka að sér verkstjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 18:03
Stjórnmálamaður sem þorir
Af hverju sagði Björgvin ekki af sér fyrr?
Ég hef verið að lesa fjölmargr umsagnir um afsögn Björgvins. Sammerkt er með ótrúlega mörgum þeirra að höfundarnir ná ekki að sjá út fyrir sitt eigið skinn og halda að Björgvin hljóti að vera eins og þeir. Um þann hóp getur Björgvin vissulega sagt: "Margur hyggur mig sig".
Sé Björgvini fyrst og fremst umhugað um sitt eigið skinn, þá hefði hann sagt af sér fyrir löngu, helst strax í upphafi efnahgashrunsins. Og næg fékk hann tækifærin síðar til að bjarga skinninu. En hann var bara ekki að hugsa um sitt eigið skinn. Hann er bæði samviskusamur og þrautseigur og líka maður sem þorir. Hann þorir að taka óvinsælar ákvarðanir, hefur sýnt það sem ráðherra og sýnir það nú.
Ekkert í þessum viðbrögðum koma á óvart: "Betra seint en aldrei", "seint i rassinn gripið", "er að bjarga eigin skinni", "sá fram á að vera rekinn", "blekkingaleikur", "kosningabrella", "hugleysi", "liðhlaupi" o.fl., o.fl....
Þegar ég sá Björgvin fyrst í pólitík fannst mér ekki mikið til hans koma, en ég vil alltaf meta fólk af verkum sínum. Björgvin hefur vaxið í áliti hjá mér, smátt og smátt alla tíð síðan. Hann hefur sýnt það að vera gætin, orðvar, traustur og vera góður mannasættir og finna lausnir á viðfangsefnum þegar til hans er leitað. Því skil ég vel að hann hafi ekki verið fyrstur manna til að hlaupa úr stýrishúsinu þegar skútan strandaði. Hann hefur lagt sitt af mörkum, bæði til þess að verja hag almennings í þessarri ágjöf og til þess að láta fjárglæframenn ekki komast yfir allar eigurnar aftur og fletta ofan af gjörðum þeirra.
Lög um greiðsluaðlögun hafa verið lengi í undirbúningi í hans ráðuneyti, en dregist mánuðum saman í dómsmálaráðuneytinu, sem þau þurftu að fara í gegnum líka. Man einhver hvernig stóð á því að lífeyrissjóðir og ónefndir fjármálamenn keyptu ekki Kaupþing skömmu eftir hrunið? Veit einhver af hverju fjárglæframennirnir eru ekki búnir að kaupa Kaupþing í Lúx?
Með afsögn sinni er Björgvin hvorki að kaupa sér forskot á endurkjöri til Aþingis né vísan ráðherrastól í næstu ríkisstjórn. Hann er að taka pólitíska áhættu. Af hverju? Af því að hann er að knýja á um nauðsynlega atburðarás, þegar ríkisstjórnin er komin í þá stöðu að hafa hvorki getu til að gera nauðsynlegar breytingar, né nýir aðilar að þora að axla ábyrgð á því að þurfa að taka þær umdeilanlegu ákvarðanir sem nauðsynlegt er að ráðast í. Hann er að þvinga stjornvöld upp úr hjólförunum.
Nú getur Samfylkingin ekki setið áfram stundinni lengur í ríkisstjórn sem setur seðlabankastjórnina, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherrann ekki af. Annað hvort neyðist Sjálfstæðisflokkurinn því til að gera þetta sjálfur, eða þorir það ekki og felur öðrum flokki að koma inn í stjórn með Samfylkingunni til að gera það.
Afsögn Björgvins auðveldar líka myndun minnihlutastjórnar Samfylkigingar og Vinstrigrænna. Næsta víst er að Vinstrigrænir munu þurfa að slá einhverjar pólitískar keilur til að réttlæta fyrir æstum fylgismönnum sínum að fara í stjórn með þessarri voðalegu Samfylkingu. Hann verður hér með ekki sú keila sem flokkarnir geta tekist á um.
Hefði Björgvin ekki átt að segja af sér mun fyrr? Það hefði breytt ýmsu fyrir hann. En, hverju hefði það breytt fyrir landsstjórnina? Hefðu einvherjir aðrir frekar sagt af sér þá? Hefði einhver annar maður staðið sig betur sem viðskiptaráðherra í þessu samstarfi? Hefði ríkisstjórnin þá staðið sig betur? Væri óþolinmæði og reiði fólksins þá ekki að ná hámarki um þessar mundir? Væri Samfylkingn þá vinsælli?
Nei, þessi ákvörðun Björgvins er afspyrnu sterk. Hann vann sín verk af ósérhlífni og tók af skarið á hérréttum tíma til að sú gerð hans hefði afgerandi áhrif.
Um Björgvin má segja, eins og um alla gildir, að sá sem tekur ákvarðanir tekur stundum rangar ákvarðanir. En sá sem þorir ekki að taka ákvarðanir tekur heldur engar réttar ákvarðanir.
Björgvin G. Sigurðsson er stjórnmálamaður sem þorir.
Björgvin segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 00:54
Svona eiga sýslumenn að vera
Sýslumaðurinn okkar slær öllum hinum mótmælendunum við.
Allur sá mannfjöldi sem safnast mun saman fyrir framan Alþingishúsið í dag og öll þeirra hróp og spjöld munu ekki ná að hækka blóðþrýsting þjóðarinnar neitt í líkingu við fréttina um hinar væntanlegu handtökuskipanir sem sýslumaðurinn okkar ætlar að skrifa undir síðar í vikunni.
Í hundrað daga hafa mótmælendur hímt með kuldadropa á nefbroddinum hlustandi á gjallarhorn, þeir æstari kastað eggjum og þeir æstustu sniffað gas. Sumir hafa reynt að vekja athygli með frumlegum aðgerðum, jafnvel með táknrænum leikrænum tilburðum. En sýslumaðurinn okkar þarf enga sýndarmennsku til að koma mótmælum sínum á framfæri. Hann sendir alvöru löggur í alvöru löggubúningi til að sækja alvöru skuldara og setja þá í alvöru handjárn ef þeir verða með múður.
Iss, mótmælendur og Spaugstofan eru bara pen útblásturop fyrir kjökrið í þjóðinni. Sýslumaðurinn okkar er lúður sem heyrist í og fylgist bara með þegar stjórnmálamennirnir fara að nötra undan blæstri hans!
Hátt í 400 handtökuskipanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2009 | 15:24
Velkomnir á Litla-Hraun
Konur sem vinna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands höfðu frumkvæði að mótmælafundi sem haldinn var á Selfossi í dag. Boðað er vikulegt framhald á slíkum fundum.
Á fundinum rifjaði Rosemarie Þorleifsdóttir, formaður Sambands sunnlenskra kvenna, upp hvernig kvennfélagskonur á Eyrarbakka og síðar kvennfélagskonur um allt Suðurland stóðu að því að byggja sjúkrahús á Suðurlandi. Húsið reis á Eyrarbakka og stendur enn. Ekki tókst að ljúka fjármögnun húsbyggingarinnar og tók ríkið það yfir og setti aðra starfsemi inn í það, svo ekkert varð af sjúkrahúsinu fyrir Sunnlendinga í það skiptið.
Þessi ráðstöfun ríkisins olli mikilli reiði á Suðurlandi, því margt fólk hafði gefið stórar gjafir til sjúkrahússbyggingarinnar, dánarfé, sparifé og sjálfboðavinnu.En sunnlenskar konur halda áfram að styrkja sjúkrahúsreksturinn á Suðurlandi og enn á starfsemi þess í vök að verjast.
Ég var óvænt spurð hvort ég væri til í að taka til máls á þessum fundi, þar sem einn frummælenda hafði forfallast. Hugmyndina að lokaorðum mínum fékk ég í upphafsorðum Rosemarie um sjúkrahúsið á Eyrarbakka. Þar sem tala mín var óundirbúin og blaðlaus, endursegi ég hana hér nokkurnveginn:
Við erum samankomin til þess að mótmæla. Með hruni íslensks efnahgaslífs eru miklar byrðar lagðar á okkur. Okkur finnst það ekki réttlátt, en við tökum þessarri staðreynd og erum tilbúin að endurreisa þjóðfélag okkar, með eigin höndum og með eigin hugmyndum. Til þess að koma höndum og hugmyndum okkar að þurfum við nýjar kosningar. Mestu máli skiptir að við útdeilingu þeirra byrða sem á okkur eru lagðar sé gætt réttlætis.Við sættum okkur ekki við það að bankaræningar þessa lands liggi á meðan í sólbaði á Caymaneyjum, hvorki með þá 25 milljarða sem þeir fengu frá Katar, né nokkra aðra af þeim hundruðum milljarða sem þeir hafa lagt á herðar okkar. En þótt við getum ekki unnt þeim þess að liggja í sólbaði, þá erum við ekki að vísa þeim á vergang. Nei, við erum góðhjartaðar konur og við bjóðum þeim húsaskjól í því húsi sem sunnlenskar konu byggðu snemma á síðustu öld. Við bjóðum þá velkomna á Litla-Hraun.
Fjöldi manns á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2009 | 12:16
Leyf mér aðeins að útskýra
Hvað er líkt með viðbrögðum Ísraela og Íslendinga við gagnrýni erlendis frá? Jú, þau halda að þau geti leiðrétt misskilning umheimsins með útskýringum sínum.
Hvernig brugðust íslenskir ráðamenn ríkis og fjármálafyrirtækja við ábendingum erlendis frá um að fjámálalíf landsins væri í stórhættu? Sendu talsmenn og yfirlýsingar til að leiðrétta misskilninginn! Hvernig bregðast ísraelskir ráðamenn við ábendingum erlendis frá um að framkoma þeirra við Palestínumenn sé röng og jafnvel stríðsglæpir? Jú, þeir senda talsmenn og yfirlýsingar til að leiðrétta misskilninginn!
Annars legg ég til að menntamálaráðherra okkar taki á móti hinum ísraelska kollega sínum. Hún gæti meira að segja boið honum upp á endurmenntunarnámskeið, þar sem hún er sjálf nýbúin að fara sjálf á eitt slíkt í afleiðingum hroka og afneitunar. Kannski að íslenski ráðherrann gæti frætt þann ísraelska um afleiðingar þess að hlusta ekki.
Óhæfuverk verða ekkert betri þótt þau séu útskýrð. Þau verður að stöðva og það strax. Þá og þá fyrst, er hægt að setjast niður til að ræða málin og útskýra.
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2009 | 01:50
Eina uppstokkunin sem dugar er kosningar
Nú er kominn tími til að fá nýja ríkisstjórn, án Sjálfstæðisflokks og án Framsóknarflokks. Hér þarf ekki að framlengja samstarf núverandi stjórnarflokka. Það eru óraunhæfir draumórar að þeir muni ná að vinna fyrir einhverja meinta sameiginlega hagsmuni allra landsmanna.
Við stöndum nú frammi fyrir því að útdeila byrðum en ekki arði. Þá reynir á hverra hagsmuna flokkarnir eru að gæta. Þar standa Samfylking og Sjálfstæðisflokkur fyrir sinn hvora fylkingu landsmanna.
Núna er tími neyðaraðgerða liðinn, hvort sem hann hefur verið vel eða illa nýttur og hvort sem neyðarástand er enn viðvarandi eða ekki. Nú er kominn tími á stefnumótun til langtíma. Til þess verður að ganga til nýrra kosninga. Því lengur sem það dregst, því verra fyrir þjóðarbúið.
Grundvallarstefna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er gerólík. Sjálfstæðisflokkurinn er hægriflokkur, hagsmunaflokkur innlends og erlends auðvalds, viðurkennir réttinn til sérhagsmuna og misskiptingar. Þar á ofan er hann gegnum spilltur. Samfylkingin er vinstriflokkur, sem hefur klassísk gildi jafnaðarstefnu að leiðarljósi, samábyrgð og réttlæti.
Þessir flokkar áttu aldrei að fara saman í ríkisstjórn og það var í raun neyðarúrræði eftir að síðustu kosningaúrslit buðu ekki upp á annað skýrt val. Þeir gátu starfað saman meðan tiltöluleg sátt ríkti í samfélaginu. Sú staða er ekki uppi lengur og þessir flokkar munu ekki geta náð saman um hvernig staðið verði að uppbyggingu samfélagsins eftir hrun þess. Það er ekki bara afstaðan til ESB sem sker þar á milli.
Af hverju á að fara að skipta út hluta ráðherraliðsins núna? Er það til að axla ábyrgð á kollsteypu þjóðarbúsins? Eru stjórnvöld svo sein að hugsa að það taki þau 4 mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að skipta út einhverjum ráðherrum af þessu tilefni? Eða er núna kominn tími á að efna yfirlýsingar frá upphafi þessarar ríkisstjórnar um að mannabreytingar muni verða á kjörtímabilinu?
Nei! Tilfæringar á ráðherraembættum núna, verða engin friðþæging fyrir það sem á undan er gengið. Þar er of seint í rassinn gripið nú. Ég hef heldur enga trú á að tilfæringar muni bæta tökin á viðreisn þjóðfélagsins. Til þess hef ég ekki séð menn bíða með nein betri úrræði innan þessa samstarfs en nú eru í boði.
Allt bendir til að við séum að losna við þann hörmungarflokk sem Framsóknarflokkurinn er, úr íslenskum stjórnmálum. Nú þurfum við að losna við hinn helmingaskiptaflokk sérhagsmunagæslunnar, Sjálfstæðisflokkinn. Sjáfstæðisflokkurinn er að verða það sem hann hefur alltaf átt að vera; lítill ljótur hagsmunaflokkur auðs og sérgæsku, án alþýðufylgis. Allur almenningur er að sjá í gegnum það fyrir hvað sá flokkur stendur í raun og fylgi hans mun hrapa verulega í næstu kosningum. Þá fáum við það einstaka tækifæri í sögu landsins frá fullveldi þess fyrir 90 árum, að hafa hvorugan spillta valdaflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn né Framsóknarflokkinn, við völd í samfélaginu.
Skúli Helgason: Krafa um breytingar á rétt á sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar