Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.2.2008 | 16:15
Fáum álver í plássið
Loftmengun slæm fyrir greind barna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2008 | 11:31
Fólk horfir til framtíðar
Af hverju hefur fylgi Samfylkingarinnar farið vaxandi að undanförnu?
Ég tel að framtíðarsýn flokksins hugnist fólki almennt. Samfylkingin hefur nefnilega framtíðarsýn. Hún er ekki að verja gamla flokkshagsmuni. Hún er laus við gamlar klíkuerjur.
Í Samfylkingunni kemur saman fólk sem hefur áhuga á jöfnuði og réttlæti, vill félagslega þátttöku í rekstri samfélagsins og horfir bjartsýnt til framtíðarinnar.
Það er einmitt þetta með framtíðina.
Við eigum framtíðina í höndum okkar. Við erum sjálfstæð og vel upplýst og viljum taka þátt í að skapa okkur framtíð. Við viljum hafa áhrif. Þar býður Samfylkingin upp á samræðustjórnmál, ekki bara kappræður. Þannig að fólk sem tekur þátt í starfi Samfylkingarinnar hefur eitthvað til málanna að leggja, tekur þátt í stefnumótun. Út úr þessarri stefnumótun kemur opnun, nýjar hugmyndir en ekki gömul þrætubók. Hér eru engin tabú, engar hugmyndir sem ekki má efast um eða þróa áfram.
Hvað eigum við við með sjálfstæði Íslands? Hvernig sjálfstæði viljum við? Hvernig finnum við því farveg í fjölþjóðasamfélgi?
Hverjar eru auðlindir Íslands? Hvernig á eignarhald og nýting á þeim að vera?
Hvers virði er náttúruvernd? Hvernig viljum við nýta náttúruna? Þurfum við og viljum við breyta lífsháttum okkar með tilliti til náttúrunnar?
Viljum við meiri jöfnuð í samfélaginu? Hversu langt viljum við ganga í þá veru? Hvernig viljum við ná meiri jöfnuði?
Er allur einkarekstur drifinn áfram af gróðafíkn? Getur fólk sem hefur nýjar hugmyndir í menntamálum eða heilbrigðismálum aðeins reynt að ströggla innan opinberra stofnana, eða getur það boðið upp á einkafyrirtæki á þessu sviði án þess að vera sakað um græðgi? Er hárgreiðslufólk fégráðugt, eru pípulagningameistarar fégráðugir? Af hverju eru hjúkrunarfræðingar fégráðugir ef þeir stofna hjúkrunarheimili? Hvað meinum við með félgslegum rekstri á félagslegri þjónustu?
Hvernig bætum við tækifæri fólks til að bæta lífsgæði sín? Hvaða máli skipta þar menntakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngukerfið, fjarskiptatækni, aljóðleg viðskipti, aðbúnaður barnafjölskyldna?
Það er sama hvar borið er niður, Samfylkingin spyr áhugaverðustu spurninganna og veltir upp áhugaverðustu svörunum.
Það skiptir ekki máli hvað úrtakið var stórt í síðustu könnun og hvort Villi var viðutan eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn er viðutan, Framsóknarflokkurinn úreltur, Vinstri græn að reyna að sníða veruleikann að kenningunum, Frjálslyndir og Íslandshreyfingin utanveltu. Eina stjórnmálahreyfingin sem hreyfist í framtíðarátt er Samfylkingin. Þess vegna eykst fylgi hennar.
Samfylkingin stærst allra flokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2008 | 10:38
23 milljarða lausn
Hugsaðu þér ......
Ef sá vondi Dagur hefði aldrei runnið upp þegar nýr meirihluti tók völd í borginni í nóvember........
Þá hefðum "við verið lausir frá þessu"!
Þá hefðum við selt einkarétt á allri þekkingu og útrásarmöguleikum Orkuveitu Reykjavíkur til 20 ára.
Þá hefðum við selt allan hlut okkar í REI fyrir 23 milljarða króna.
Þá hefðum við haft peninga til að slá um okkur fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.
Þá hefði foringi okkar ekki "þurft að axla ábyrgð með því að missa borgarstjórastólinn".
Þá nytu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík trausts.
Hugsaðu þér hvað hægt hefði verið að gera fyrir 23 milljarða króna!
Þjónustusamningur: Glitnir vildi REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2008 | 15:01
Ingu Jónu aðferðin
Hanna Birna Kristjánsdóttir á að leyfa keppinautum sínum um forustu fyrir Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík að falla í sömu gildru og Inga Jóna Þórðardóttir leiddi Björn Bjarnason í á sínum tíma. Láta einhvern þeirra taka völdin í vonlausri stöðu og renna á rassgatið. Svo kemur hún og tekur við stjórnartaumunum þegar flokksgreyið bröltir á fætur á ný og leiðir hann fram til næstu sóknar.
Björn Bjarnason hefur ekki einu sinni náð því að verða næstbesti vinur aðal síðan hann féll á því að ná borgarstjórastólnum af Reykjavíurlistanum forðum daga.
Fréttamannafundur Vilhjálms Þ. sýnir að hann situr einn. Myndin af baklandinu er úr gamalli frétt. Hönnu Birnu er alveg óhætt að hleypa einhverjum af bráðlátu stráknum að, til að leysa Villa úr snörunni. Þeim verður ekkert ágengt. Dagur B. Eggertsson verður næsti borgarstjóri í Reykjavík.
Vilhjálmur: Hamrað á því sem mér kemur verst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2008 | 01:07
Lengt í snörunni
Af hverju segir Vilhjálmur Þ. ekki af sér strax?
Er það af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki komið sér saman um hver eigi að verða næsti leiðtogi flokksins í Reykjavík?
Er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn óttast að flosni upp úr samstarfinu við Ólaf F. þegar Vilhjálmur Þ. víkur?
Er það af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fundið neina aðra leið til að halda völdum í Reykjavík?
Er það af því að Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa Vilhjálm sem forustumann flokksins í Reykjavík?
Ég held að skýringin sé ekki sú að flokkurinn sé að gefa Vilhjálmi Þ. færi á að halda andlitinu, meðan reynt er að finna hrukkulausa lausn á vandanum. Það bara getur ekki verið að flokkurinn taki andlit einstaklings fram yfir andlit flokksins sjálfs.
Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að missa allan trúverðugleika, í augum alls almennings og eigin flokksmanna líka. Honum gefst ekkert færi á að láta tímann líða í kyrrð og spekt, meðan hann hugsar ráð sitt. Hann verður krafinn sagna strax og morgnar og menn mæta aftur til vinnu. Helgarfríið er búið. Sjálfstæðisflokknum verða ekki gefin nein grið.
Ég er þess fullviss að nú um mundir eru Sjálfstæðismenn að stunda svo ákafar þreifingar, að það nálgast að vera dónó. Sumir eru gerðir út til að tala við Samfylkinguna, aðrir til að tala við Vinstri græna, enn aðrir til að tala við Framsóknarflokkinn og loks einhverjir til að reyna að tala við Margréti Sverris og hennar hluta F-listans. En, það skilar þeim engum árangri!
Flokkarnir þrír og sá hluti F-listans sem með þeim mynda Tjarnarkvartettinn, munu standa saman sem einn borgarstjórnarflokkur. Allir saman. Það verður ekki mynduð ný borgarstjórn í Reykjavík nema með Tjarnarkvartettinum í heild. Annað hvort dregur Ólafur sig í hlé og Tjarnarkvartettinn verður einn við stjórn, eða Tjarnarkvartettinn og Sjálfstæðisflokkurinn verða saman í stjórn. Og ef það síðara verður, hver haldið þið að verði þá borgarstjóri? Það stígur enginn út úr Tjarnarkvartettinum til að draga Sjálfstæðisflokkinn upp úr Tjörninni og leiða hann hundblautan upp ráðhúströppurnar.
Það er sama hvað Sjálfstæðismenn þreifa og þreifa, þeir enda á einhentum þreifingum.
Síðustu fregnir herma að Vilhjálmur muni ekki segja af sér á næstu dögum. Lengdi flokkurinn í snörunni hans eftir að hann fékk opinbert hryggbrot frá Degi og Svandísi í Silfri Egils?
Pólitísk staða Vilhjálms rædd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 10:49
"Kommaarmur" Sjálfstæðisflokksins
Er grey Sjálfstæðisflokkurinn kominn með bæði krataarm og kommaarm, þá sem vilja samvinnu við Samfylkinguna og þá sem vilja samvinnu við Vinstri Græna?
Stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna verður sáttmáli um það sem má ekki gera, las ég einhvern lýsa yfir í aðdraganda að myndun síðustu ríkisstjórnar. Man ekki hver sagði þetta, en er jafn sammála því samt. Stjórnarsáttmáli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er um þau framfaramál sem á að gera.
Lesendur góðir, þið geti sjálfir skemmt ykkur við að búa til stjórnarsáttmála í anda Vinstri grænna og "kommaarms" Sjálfstæðisflokksins. Framtíðarsýn?!
Sjá blogg Jóns Bjarnasonar þingmanns VG: "Krataarmur" Sjálfstæðisflokksins leikur lausum hala.
4.2.2008 | 17:48
Raunverulegir barnaníðingar
Stjórnvöld í öðru ríkinu eru að reyna að kenna hinu eitthvað um lýðræði og mannréttindi. Að börn falli eða slasist í þessum kennslustundum, who cares!
Bandaríkjaher felldi óbreytta borgara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2008 | 11:44
Lestu dóminn
Af hverju eru orð gegn orði metin jafn gild?
Hvað segir skynsemi þín eftir lestur dómsins, "þannig að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum" að þarna hafi gerst? Finnst þér vanta eitthvað upp á skynsamleg rök dómaranna?
HÉR er dómurinn, með vitnisburðum beggja málsaðila og vitna.
Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2008 | 10:02
Við erum læs og heyrandi
Af hverju segir Björn Bjarnason að fréttastofa RÚV hafi snúið út úr orðum hans?
Ég elti hlekkinn sem hann setti sjálfur á frétt RÚV og bæði las hana og hlustaði á hana. Þar finn ég engan fót fyrir þessarri fullyrðingu Björns: "Ég sé, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins er tekin til við að snúa út úr orðum mínum. Aldrei hefur vakað fyrir mér, að lögfesta neina skyldu fyrir björgunarsveitir til að breytast í varalið." Ég finn hvergi í fréttinni nefnt eða gefið í skyn að lögfesta skuli neina skyldu fyrir björgunarsveitir til að breytast í varalið.
Hvet fólk til að kynna sér málið sjálft og smella á hlekkina hér á eftir. Svo er viðtalið við BB síðast á dagskránni í Silfri Egils frá því í gær.
Annars bloggaði ég um þetta mál í gær og færi þar rök fyrir því að þessi hugmynd um varalið lögreglu sé misskilin góðsemi, sem muni frekar draga úr öryggi borgaranna en að efla það.
Silfur Egils
Frétt RÚV
Blogg BB
Blogg mitt: Varalið dregur úr öryggi íbúanna
Dómsmálaráðherra segir snúið út úr orðum hans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 23:36
Varalið dregur úr öryggi íbúanna
Með því að stofna sérstakt varalið lögreglu er hætta á að tapa niður því mikilvæga sjálfboðaliðastarfi sem Íslendingar eiga í björgunarsveitum um land allt og einnig hætta á að með því verði dregið úr faglegum styrk lögreglunnar.
Hlutverk varaliðsins:
Hugmyndir um hlutverk varaliðs lögreglunnar hafa þróst nokkuð í meðförum við undirbúning frumvarps dómsmálaráðherra, sem senn fer að líta dagsins ljós.
Fyrstu hugmyndir voru á þá leið að stofna 250 manna varalið og fá nokkra brynvarða bíla og slatta af auknum vopnabúnaði. Þetta lið átti m.a. að geta bælt niður óeirðir. Hugsið ykkur hverslags aðstæður væru komnar upp í landinu ef til slíkra átaka kæmi! Þá hefðu menn einhversstaðar farið alvarlega út af sporinu með lýðræðið.
Til að koma varaliðinu í gegn, var hernaðardraumunum hent fyrir borð og nú er þetta að þróast í eitthvert varalið af ótiltekinni stærð sem á, eftir því sem dómsmálaráðherra sagði í Silfri Egils í dag, að sinna almennum löggæslustörfum ef lögreglan verður upptekin við einhver afar brýn og umfangsmikil verkefni. Og engir brynvarðir bílar! Lýsti dómsmálaráðherra sérstökum áhuga sínum á að fá fólk úr röðum björgunarsveitanna til þessa starfa.
Áhrif á lögregluna:
Varalið lögreglunnar mun kosta sitt og ef ekki á að stórauka fjárframlög til lögreglumála, mun rekstur þess bitna á lögreglunni í landinu. Við þurfum hæfa og vel menntaða lögreglumenn sem endast í starfi með reynslu sína. Það er óásættanlegt að grípa til einhvers varaliðs þegar mannekla verður í lögreglunni, eins og slegið var fram fyrir nokkrum vikum í umræðu um þau mál í útvarpinu.
Áhrif á björgunarsveitir:
Ef stofnað verður fjölmennt varalið lögreglu, að stofni til með liðsmönnum björgunarsveitanna okkar, mun það hafa mikil áhrif á starf sveitanna. Þessi hópur mun, hvað sem hver segir nú, þróast upp í að verða fremstur í útkallsröðinni. Hann hirðir rjómann af útkallsverkefnunum, sem aftur leiðir til minni áhuga annarra björgunarsveitarmanna og mun draga úr þátttöku í starfi þeirra. Þar með dregur úr öryggi allra landsmanna, því almennur liðsflótti verður aldrei bættur upp með neinu atvinnu- eða hálfatvinnumannaliði.
Þarf svona varalið?
Í lögreglulögum og í almannavarnalögum eru ákvæði um hvernig bregðast skuli við hættuástandi, hver fari með yfirstjórn og hverja hægt sé að kveðja til starfa undir slíkum kringumstæðum.
Nú þegar eru til Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitamenn, Reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita, hvort tveggja frá árinu 2003. Þá voru á árinu 2005 undirritaðir tveir samningar milli dómsmálaráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, annar samningur um þjónustu og samstarf á sviði leitar og björgunarmála og hinn milli sömu aðila og Landhelgisgæslu Íslands líka, um aukið samstarf. Til eru nokkrar viðbragðsáætlanir fyrir sérstök tilvik, sem hægt er að sjá á vef almannavarna. Í sumum lögregluumdæmum er til samstarfssamningur milli lögreglu og björgunarsveita innan umdæmisins og í fleiri lögregluumdæmum er unnið að slíku. Þá eru þjónustusamningar við samgönguráðuneytið frá árinu 2001 og SL er aðili að Vaktstöð siglinga, á fulltrúa í Siglingaráði í Umferðaráði, Almannavarnaráði og er einn af eignaraðilum Neyðarlínunnar. Félagið kemur að viðbragðsáætlun vegna sjúkdómafaraldra og á fulltrúa í alls kyns nefndum og ráðum um öryggi sjófarenda og vegfarenda, svo nokkuð sé nefnt.
Hvað er Slysavarnafélagið Landsbjörg?
Slysavarnafélagið Landsbjörg byggir á 80 ára starfi sjálfboðaliða við slysavarnir og björgunarstörf til sjós og lands um land allt. Í samtökunum eru 18 þúsund manns og nokkur þúsund þeirra virkir þátttakendur um land allt í fjáröflunarstarfi, forvarnastarfi og í útköllum. Þessi mikli fjöldi er sá liðsafli sem almannavarnir byggja á. Þetta er sá mikli fjöldi, sem leysir allt frá smæstu til flóknustu og hættulegustu björgunarverkefna á landinu.
Þessi fjölmenni hópur mun aldrei láta hafa sig út í það að manna einhverja óeirðasveit ef misvitrum stjórnmálamönnum tekst að fara með lýðræði og frið í landinu fjandans til.
Í þessum hópi er fjöldi fólks sem leggur tugi og upp í hundruði vinnustunda á ári hverju, hver og einn, til fjáröflunarstarfa, námskeiða, æfinga og margvíslegrar vinnu. Það eru fáar ef nokkur þjóð jafn heppin og við Íslendingar að eiga svona lið. Gætum að því.
Björgunarsveitarmenn í varalið lögreglu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Soffía Sigurðardóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar