Hvað er á bakvið?

Af hverju hefur dv.is verið svona skelfilega bitlaust undanfarið? Það byrjaði vel, en torsnaði svo upp. 

Þetta er of snubbótt frétt til að mann klæi ekki í puttana af löngun til að kíkja undir teppið!

Það er  umhugsunarefni fyrir mbl.is að yfirleitt þarf að fara á aðra netmiðla til að sjá huldu fréttirnar.

Er Jóhann Hauksson líka hættur á dv.is? 


mbl.is Hættur sem ritstjóri dv.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sitthvað gáfur og greind

Af hverju bullar vísindamaður um vísindalegar niðurstöður?

Jú, vísindamenn eru ekkert víðsýnni en annað fólk. Þeir sjá oft bara mjög þröngt svið og eru jafnvel stundum svo þröngsýnir að þeir sjá ekki einu sinni það sem næst liggur þeirra þrönga sviði.

Hver er munurinn á vísindamanni og blaðamanni? Vísindamaðurinn veit allt um ekkert, en blaðamaðurinn veit ekkert um allt!
Þetta er auðvitað gróf alhæfing, en sannleikskornið í henni er að sumir vísindamenn geta vitað allan andskotann um eitthvert smáatriði, en verið alveg ótrúlega fáfróðir af almennri þekkingu. Á sama hátt eru blaðamenn ekki sérfræðingar í neinu, en góður blaðamaður hefur nasasjón af öllum andskotanum um allt mögulegt.

Vísindaleg þekking á uppbyggingu DNA, segir ekkert um félagslega þekkingu sama vísindamanns. Þennan umrædda vísindamann skortir t.d. alla þekkingu á fornri menningu Afríkubúa. Verst er þó að ég hef hann grunaðan um að vilja ekki vita um niðurstöður neinna rannsókna sem raska félagslegri heimsmynd hans.

Annars varð ég hugsi um stefnu ÍE gangvart persónuvernd, þegar ég las fyrst um þetta. En fyrst karlinn birti sjálfur genamengi sitt opinberlega, þá verður öllum jafn heimilt að rannsaka það og birta sínar niðurstöður opinberlega líka.


mbl.is Nóbelsverðlaunahafi með svört gen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvendni

Hvernig skyldi öðrum börnum þessarra hjóna ganga að uppfylla væntingar foreldranna? Eins gott að þau séu ekki matvönd.

Vissara að biðja Barnaverndarnefnd Hong Kong að fylgjast með hvort börnin séu beitt andlegri kúgun.

Er annars til Barnaverndarnefnd í Hong Kong? 


mbl.is Skiluðu ættleiddu barni eftir 7 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kókakóladreifarinn

Fann blogg á eyjan.is með þessarri frábæru mynd!

Minnir mig á Útvarp Rót, þegar Jens Guð skammaði Kókakólakompaní fyrir að ritskoða alla pólitík út úr útsendingu sinni á "Hjálpum þeim" tónleikum sem sendir voru út bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Styrktaraðil þar westra var nefnilega fyrrgreint kompaní. Í þá daga glumdi slagorðið Coca Cola is it! og Jens sagði að nær væri að segja Kókakóla is shit!

Vífilfell brást hart við og heimtaði útskrift af ummælunum. Jens færðist allur í aukana og í næsta þætti fékk hann hlustendur til að hringja inn og segja hvort þeim heyrðist slagorðið enda á it eða shit.

Yngri strákurinn minn var ofvirkur gutti á þeim árum og söng í strætó "Kókakóla is shjitt, kókakóla is shjitt". Einhver farþegi brosti til litla ólátabelgsins, sem tók auðvitað eftir athyglinni og bætti við með stríðnisglotti, "kókakóla er kúkur"!


Mannréttindi ofar þjóðréttindum

Af hverju studdi Ísland sjálfstæði Króatíu?

Það er gott að íslensk stjórnvöld hafa áttað sig á því að íslensk þjóðernisstefna er ekki útflutningsvara.

Íslendingar búa allir á einni eyju, innan einna landamæra, tala eitt tungumál og hafa sameiginlega menningu. Við erum bara rétt að kynnast fjölmenningu innan okkar landamæra og höfum að mörgu leyti hagað okkur eins og algjörir vitleysingjar í afstöðu til fjölmenningar í öðrum löndum.

Þannig brugðust íslensk stjórnvöld alveg kolvitlaust við þegar Júgóslavía var að leysast upp. "Við erum smáríki, nýbúin að fá okkar sjálfstæði, skiljum vilja smáþjóða til sjálfstæðis og styðjum það!"

En hvar var skilningurinn á sögu Balkanskagans? Hvar var skilningurinn á hatursfullum deilum milli þjóðaernishópa og trúarhópa á því svæði? Það er hættulegt fyrirbæri þegar menn sem ekki hafa lesið mannkynssögu fortíðar ætla að fara að skrifa mannkynssögu framtíðar.

Á Balkanskaga mætast vestræn og austræn menning í Evrópu. Þar mæstast allar þrjár megin greinar Kristinnar trúar, Rómversk kaþólsk, Grísk kaþólsk og að nokkru líka Lúthersk evangelísk. Og þar mætast Kristni og íslömsk trú.

Í Sarajevo var fyrsta skoti fyrri heimsstyrjaldarinnar hleypt af. Í síðari heimsstyrjöldinni var allan tímann barist af mikilli heift í Júgóslavíu, stórir þýskir herflokkar voru bundnir þar öll stríðsárin. Verst var þó hin ofboðslega grimmd, miskunnarlaus morð og fjöldamorð, þar sem m.a. tókust á fasistahreyfing Króata og andspyrnuhreyfing Serba. (Auðvitað skiptist fólk ekki alfarið á þessar hreyfingar eftir þjóðerni, en samt að miklu leyti).

Að halda að hægt væri að lima Júgóslavneska ríkið í sundur á grundvelli þjóðernishyggju, án þess að vekja alla hatursfullu draugana upp úr gröfunum,með nýjum blóðsúthellingum, var yfirnáttúruleg heimska.

Fagna því að hafa loks fengið utanríkisráðherra sem vill ekki kynda undir viðsjám!


mbl.is Ættum ekki að kynda undir viðsjám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bús fyrir börn

Húsasmiðjan/Blómaval biðst afsökunar á því að börn hafi komist í áfengi sem kynningaraðili var með á Konukvöldi hjá þeim um daginn.

Fann blogg um þetta mál á eyjan.is, þar sem Hörður Svavarsson segir frá þessu.

Ég sendi Húsasmiðjunni fyrirspurn af heimasíðu þeirra og fékk þetta svar:

Sæl Soffía

Ég vil byrja á að biðjast innilegrar afsökunar fyrir hönd Húsasmiðjunnar/Blómavals á þessu alvarlega atviki. Ég hafði ekki heyrt af þessu fyrr en nú en hef upplýst fólk hér innanhúss um málið
Ég dreg ekki í efa að þetta hafi gerst og í raun lítið sem ég get sagt sem afsakar þetta. Mig langar hinsvegar aðeins að útskýra málið.

Til upplýsinga þá var s.l. miðvikudagskvöld haldið svokallað Konukvöld Blómavals í Skútuvogi. Þar voru kynntar ýmsar vörur s.s. snyrtivörur, skreytingar, föt ofl. Á meðal þeirra vara sem kynntar voru var nýr sykurminni Breezer.

Það veldur okkur miklum vonbrigðum að svona hafi farið og munum við endurskoða kynningar sem þessar í framtíðinni. Vínið er ekki í boði Blómavals heldur var heildsöluaðili að kynna sína vöru og fékk kynningarfyrirtæki í lið með sér. Ég hef nú þegar rætt við heildsöluaðila Breezer á Íslandi og fengið staðfest, einsog ég fékk áður, að fyrirmæli frá þeim til kynningaraðila séu alveg skýr þ.e. að engin undir lögaldri megi fá smakk af áfengum vörum sem kynntar eru frá þeim. Hér hafi augljóslega átt sér stað mjög alvarleg mistök sem alls ekki eiga að geta gerst. Við treystum þessum aðilum fullkomlega til að gera þetta vel enda hafa þeir staðið sig mjög fagmannlega í öllu sem ég hef séð til - en einsog við sjáum í þessu tilfelli geta mistök átt sér stað. Það verður því miður ekki aftur tekið.

Við sem komum að rekstri Blómavals erum hreinlega miður okkar yfir þessu atviki og einsog ég hef sagt munum við endurskoða Konukvöldin okkar með hliðsjón að þessuog læra af reynslunni. Við gerum okkur vel grein fyrir því hve alvarlegt málið er og munum gera okkar besta til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og munum ekki leyfa kynningar á áfengum vörum aftur á uppákomum sem þessum þar sem börn eða fólk undir lögaldri hefur aðgang.

Virðingarfyllst,
Magnús Magnússon, Markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.


Búskussar

Heimanaut eru oft ágæt naut og ættartala þeirra ekkert ótryggari eða verri en sæðingarnautanna.

Sumir bændur eru aftur á móti óáreiðanlegir búskussar, sem með kunnáttuleysi eða kæruleysi blanda göllum inn í búfjárræktina.

Það er svo langt síðan að holdanaut voru flutt inn til landsins að það er af og frá að áhrifa þeirra gæti ekki í íslenska kúastofninum. Mikið af þessum áhrifum hefur vonandi ræktast úr aftur, því holdakýr og holdakýrsblendingar eru ekki góðar mjólkurkýr og því setja góðir bændur ekki á undan þeim þótt þær slæðist inn í stofn þeirra. Hinir halda bara áfram að vera búskussar.


mbl.is Dæmi eru um að útlenskar kýr séu notaðar hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gufuhálka oft þarna

Hálka efst í Hveradalabrekkunni er vel þekkt af þeim sem fara oft um þann veg. Þetta er nánar tiltekið þar sem margir kalla Skíðaskálabrekkuna við Hellisheiði.

Svona hálka af völdum gufu er líka oft á ákveðnum stað í Kömbunum.

Þetta fyrirbæri er mun eldra en virkjanirnar á Hellisheiði, en mjög trúlegt er að það hafi aukist með auknu gufuútstreymi af völdum virkjanaframkvæmdanna og gæti á fleiri stöðum á þessari leið.


mbl.is Hálka af gufu við Hveradali?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnlausi pöddubjórinn

Af hverju er tegundin ekki tilgreind?

Af hverju í ósköpunum er ekki tilgreint undir hvaða vörumerki viðkomandi jólabjór var?

Þótt fréttin sé úr 24 stundum, þá er hún frétt mbl.is, þegar hún er birt á mbl.is og ber mbl.is því alla ábyrgð á henni eins og hún er birt þar.

Ég hef ekki einu sinni gáð að því hvort nafn framleiðandans kemur fram á 24 stundum, af því að það kemur gagnrýni minni á fréttina ekki við. Ég er að gagnrýna fréttaflutninginn.

Annað hvort er þetta frétt eða skemmtiefni. Ef það er frétt, á að koma fram frá hvaða framleiðanda þetta er.

Kannski telur fréttamiðillinn sig ekki geta sannað fréttina ef framleiðandinn fer í mál út af atvinnurógi og sleppir nafnbirtingunni þess vegna. Þá er hann um leið að beita atvinnurógi gegn öllum sem selja vöru hér á landi sem "jólabjór". Þess vegna þarf fjölmiðill að velja hvort hann birtir frétt eða ekki.

Kannski er þetta bara kranablaðamennska vefs, sem birtir ófullnægjandi úrdrátt úr annarri frétt. En það er ekki gild afsökun.

Ég á svo sem ekki von á svari við spurningunni sem ég bar upp fremst, en ber upp aðra og lýsi eftir svari:

Undir hvaða vörumerki var þessi bjór seldur?


mbl.is Fann skordýr í jólabjórnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband