Síðan hvenær er Þjórsá í Ölfusinu?

Af hverju á nú að nota orku úr heimabyggð aðeins í heimabyggð?

Nú vilja sveitarstjórnir víða um land að sú orka sem kann að verða virkjuð í þeirra hreppi verði aðeins notuð í þeirra heimahreppi. Hafa íbúar þar þó ekki fúlsað við rafmagni úr orkuverum í öðrum hreppum hingað til! En þegar virkjað skal heima hjá þeim, þá skal það aðeins til heimabrúks.

Steininn tekur þó úr þegar sveitarstjórn sem hefur afgreitt virkjanaleyfi og rannsóknarleyfi á færibandi, til orkubrúks utanhrepps, kvartar yfir því að þurfa "að horfa á eftir orkunni sem verður til í sveitafélaginu fara í verkefni langt í burtu", á meðan hún ásælist orku úr á sem rennur ekki einusinni að hreppamörkunum þeirra.

Eða eins og mbl.is segir, og ekki lýgur Mogginn:

"Það eru mikil vonbrigði ef ákvörðun Landsvirkjunar um að selja ekki orku úr Þjórsá til álvera leiði til þess að ekki verið reist álver í Þorlákshöfn," sagði forseti bæjarstjórnar í Ölfusi.

Bara smá landafræði: Sveitarfélagið Ölfus á land að Ölfusá, en ekki að Þjórsá. Svo orka úr virkjunum í Þjórsá verður ekki til í sveitarfélaginu þeirra, fyrr en þeir hafa samþykkt sameiningu við Flóahreppana, sem þeir, vel að merkja, höfnuðu fyrir 2 árum.
 


mbl.is „Gífurleg vonbrigði að fá ekki orku í álver”
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skessur eða töffarar

Af hverju er orka kvenna minna metin en karla?

Karlmaður nýtur virðingar fyrir það að vera orkumikill og það þykir ljóður á ráði hans að vera daufgerður. Konur sem eru orkumiklar þykja hins vegar vera frekar.

Þessa stöðnuðu afstöðu til karla og kvenna má allavega sjá hjá formanni Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssyni, í ræðu hans á miðstjórnarfundi flokks síns í dag. Stöð 2 hafði það eftir honum í kvöld að Geir Haarde væri of daufgerður og að Ingibjörg Sólrún væri valdaskessa. Sennilega saknar Guðni þess hve Davíð var mikill töffari, sá helypti nú engum skessum að.

Svo kveinkaði Guðni sér undan því í ræðunni að neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Framsóknarflokkinn hefði fælt unga og hæfa stjórnmálamenn frá honum! Hvenær skyldi honum detta í hug að hans eigin ummæli, sem komast í fjölmiðla, fæli fólk frá þessum forneskjuflokki?

Konur góðar, ef við ætlum að virkja orku okkar, þurfum við að hætta að tipla á tánum og stíga fast til jarðar. Jafnvel þótt þá verði einhverjir hræddir við skessur.


mbl.is Utanríkisráðherra talar um að nýta kvenorkuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eltu aurana

Af hverju veðjar Landsvirkjun nú á annað en álver?

"Follow the money!" er oft góð byrjun á fréttaskýringu. Það þarf ekki að leita langt til að elta aurana, bara að kíkja á aðra frétt sem sett er inn á mbl.is á sama tíma og heitir Hærra verð fyrir orku:
"... en fram kom hjá Landsvirkjun að vænta mætti hærra raforkuverðs í viðskiptum við netþjónabú og sólarkísil en við aðra stórkaupendur."

Það malar víst ekki gull að virkja stórt ofan í álfabrikkur á þeim kostakjörum sem þeim bjóðast. Eða hvað segir í frétt á visir.is?
"Kárahnjúkavirkjun er komin fram úr kostnaðaráætlun og munar nokkrum milljörðum króna. Þetta kemur fram í viðtali Stöðvar 2 við Guðmund Pétursson, yfirverkefnisstjóra Kárahnjúkavirkjunar."

Þá bíð ég líka spennt eftir að hinn eini sanni seðlabankastjóri segi sitt álit á þeim sem vilja skipta yfir í dollar, rétt eins og hann hefur látið þá heyra það sem vilja skipta yfir í evrur. Sjá frétt á visir.is: Landsvirkjun skiptir yfir í dollara
"Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hættir að nota krónuna sem starfrækslumynt um áramót og skiptir yfir í bandaríkjadollar."

Í því samhengi er líka fróðlegt að skoða aðra frétt á visir.is sama dag: Kínverjar vilja losa sig við dollara
Alveg þess virði að lesa þau fáu orð sem fréttin sjálf er.

En svo ég snúi mér aftur að upphaflegu fréttinni, þá á eftir að sjá hvaða áhrif þessi ákvörðun Landsvirkjunar hefur á möguleika þeirra á að fá að virkja í neðanverðri Þjórsá.



mbl.is Skynsamleg ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki heimamenn

Fín aðferð til að benda á að þarna hafi akp verið að verki: "Hann verður yfirheyrður í dag þegar náðst hefur í túlk."

Það er mjög algengt þegar lesnar eru löggufréttir af landsbyggðinni, að þar komi fyrir orðin "utanbæjarmaður" og "erlendur", en mun sjaldnar orðið "heimamaður".

Það er kannski bara svo algengt að heimamenn brjóti af sér, að það taki því ekki að geta þess, þegar þeir rata í löggufréttirnar.


mbl.is Landi gerður upptækur í Þorlákshöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er sambærilegt við ...

Á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar má sjá aðra frétt um 200 sekúndulítra, sem í það skiptið flóðu inn í göng sem þeir voru að gera. Þar kemur fram samanburður sem segir dálítið um hvert þetta magn er.

"Til að setja 200 sekúndulítra vatnsrennsli inn í jarðgöng í samhengi má til gamans nefna hliðstæðrar tölur úr nokkrum af þekktustu veggöngunum hérlendis. Rennsli inn í Vestfjarðagöngin er um 1.000 lítrar á sekúndu, rennsli inn í Ólafsfjarðargöng er 150 sekúndulítrar en inn í Hvalfjarðargöng leka einungis um 5 lítrar á sekúndu að jafnaði."

Sjá hér!


mbl.is Meiri leki í aðrennslisgöngum en menn væntu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 ára og ekki flugdólgur

Flugfélagið Iceland Express auglýsir eftir forritara sem þarf að vera orðinn 15 ára og má ekki vera flugdólgur. Þetta er alveg satt! Ég fann hana á vafri um veraldarvefinn, af Eyjunni, á Mannlíf og þaðan á þessa auglýsingu!

Hengdir með belti

Þetta framferði bankans kallar maður nú varla að ganga með belti og axlabönd. Nær væri að kalla það að ganga með axlabönd og hengja viðskiptavinina í beltinu!
Skoðið þessa bloggfærslu hjá Axel Birni.

Sunnlensk saga

Meðan Krónan var enn með verslun á Selfossi, gerði ég nokkrum sinnum verðkönnun í verslunum hér á Selfossi og varð mikið uppistand eftir hverja þeirra. Fyrsta könnunin var birt á Útvarpi Suðurlands og eftir þau harkalegu viðbrögð verslunareigenda sem hún fékk, sögðu forsvarsmenn hinna sunnlensku fjölmiðlanna: "Þarna sérsðu Soffía af hverju blöðin hér hafa ekki birt verðkönnun í mörg ár!" Það var víst ekki auglýst hjá þeim lengi á eftir!!!
Ég komst að ýmsu athyglisverðu um verðkannanir.
Eitt er að búðirnar áttu sérstakar "verðkönnunarvörur" sem dregnar voru fram, neðst úr frystinum eða úr efstu hillu í kælivörurekkanum. Þarna var t.d. nautahakk í Krónunni, sem ég fór og kannaði nánar. Hakkið var framleitt sérstaklega fyrir Krónuna hjá Goða á Kirkjusandi, í litlu magni og á lægra verði og þetta ódýra hakk var líka blandað sojakjöti, en ekki hreint nautgripahakk. Mig minnir að það hafi verið auðkennt sem Sparhakk úr nautakjöti, en lesa mátti líka sojakjöt í smáaletri innihaldslýsingarinnar. Þetta fékk ég staðfest hjá starfsmanni sem svaraði fyrir málið þegar ég kannaði það hjá Goða.
Annað er að verslanirnar höfðu, ásamt ASÍ og Neytendasamtökunum, samþykkt reglur um framkvæmd verðkannana. Í þeim fólst m.a. að sá sem gerði verðkönnun ætti alltaf að gefa sig fram við verslunarstjóra strax og hann kæmi inn í verslunina til að gera könnunina, og það gerði ég.
Svo mátti bara bera saman algjörlega sambærilegar vörur, sömu vörutegund í sömu stærð af pakkningu. Ekki mátti umreikna kílóverð eftir stærð pakkninga. Svo voru ótrúlega oft mismunandi stærðir pakkninga í verslununum. Þannig fékkst kannski bara 1 kg pakkning af kornflakesi í annarri versluninni, þegar 750 g pakkning fékkst í hinni og svo hafði þetta víxlast í næstu heimsókn. Þá var líka talsvert um að innlendar vörur væru sérpakkaðar undir vörumerkjum verslananna og því mótmælt harðlega að um sömu vörur væri að ræða, Bónuskex og Krónukex voru sko hreint ekki sambærilegar vörur, þótt ég sæi og fyndi engan mun á þeim og Frónkexi!
Ekki má gleyma klósettpappírsskandalnum! Fékk lærðan fyrirlestur um mismunandi gæði og magn á klósettrúllum, eftir hneyksluninni yfir að ég skyldi voga mér að brjóta verðkönnunarreglur um að bera ekki saman mismunandi vörur. Ég hringdi skömmu seinna í Gunnar kaupmann í Horninu og hann sagðist vera upptekinn við að mæla lengdina á rúllunum hjá sér og eyða orðið löngum stundum á afluktum stað til að geta svarað fyrirspurnum viðskiptavina sinna um mýkt og rakadrægni klósettpappírs. Ef þið sjáið ekki klósettpappír í verðkönnunum, þá vitið þið hér með hvers vegna.
Tannkremstúpur af sömu stærð var líka erfitt að finna í sama vörumerki og þegar þær funndust, gat önnur túpan staðið á haus en hin ekki og þar með urðu þær ósambærilegar.
Svo sendi ég verslunarstjórunum afrit af könnuninni á tölvupósti og dró djúpt andann, því á eftir fylgdi holskeflan. Guðmundur Marteinsson í Bónus kom nokkrum sinnum austur, alveg öskureiður, af því einhver kjöttutla fannst ódýrari í Krónunni á Selfossi en starfsmenn hans höfðu skannað í einhverri Krónubúð í Reykjavík á sama tíma. Svo bar hann það upp á okkur að við værum hlutdræg af því að Krónan væri hluti af gamla KÁ veldinu og því verslun heimamanna.
Þetta með krónumuninn, sem komið hefur fram í umræðunni undanfarið, kom líka í ljós í könnunum okkar. Bónus lagði sig fram um það að hafa margar vörur 1 kr ódýrari en Krónan. Hvort það voru samantekin ráð, held ég ekki, en það var allavga þegjandi samkomulag um að svona yrði þetta. Krónumenn sögðust leiða með sínu verðlagi og svo stillti Bónus sig af þessari einu krónu lægra.
Við forhertumst bara á neytendavaktinni og tókum til viðbótar verðkönnuninni, samanburð á hillumerkingum og kassaverði, hvort verðmerkingar vantaði á búðarhillur og hvort vörur væru komnar fram yfir síðasta söludag.
Útvarp Suðurlands fitnaði allavega ekki á auglýsingasamningum við verslanakeðjurnar.
Hvernig gengur annars ASÍ eða Neytendasamtökunum að fá fjölmiðla á landsbyggðinnii til að aðstoða sig við gerð verðkannana eða annarra neytendakannana, eða bara að fá þær birtar?


mbl.is Segir blekkingum beitt þegar verðkannanir eru gerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónarhorn þolenda

Gauti B. Eggertsson skrifar stórgóða fræslu á bloggsíðu sína um Tíu litla negrastráka, þar sem hann lýsir þeim jarðvegi sem kveðskapurinn er sprottinn upp úr. Skyldulesning fyrir alla.


Bannorð

Ég þekkti einu sinni fatlafól sem flakkaði um á hjólastól ... hann ók loks í veg fyrir valtara og varð að klessu ojbara.

Rithöfundurinn Pearl S. Buck bjó lengi í Kína og skrifaði bók um einhverfa dóttur sína, sem ég las sem barn, löngu áður en ég kynntist fyrst einvherfri manneskju. Í bókinni sagði hún m.a. frá dreng í kínverskum skóla, sem skólasystkinin kölluðu "klumbufót". Vesturlandabúunum fannst þetta ljótt af börnunum að uppnefna drenginn, en var bent á að með þessu viðurnefni væri ekki verið að hæðast að fötlun hans, heldur að viðurkenna sérstöðu hans og honum ekki virt hún til neinnar lítillækkunar. Ég skildi þetta þá og hef aldrei síðan skilið þessa fælni við að kenna fólk við sérkenni sín og þaðan af síður kröfuna um að fólk eigi að leggja sig fram um að hafa engin sérkenni.

Hommi er ekki niðrandi orð, "helvítis hommi" er sagt í niðurlægingarskyni. Negri og svertingi eru ekki niðrandi orð, en þegar ég heyri ungling lýsa því yfir að hann ætli að fá negra til að þrífa herbergið sitt, sem hann nennir ekki að þrífa sjálfur, fær hann reiðilesturinn alveg óþveginn.

Orð eins og hommi, lesbía, feitur, fatlaður, bæklaður, þroskaheftur, vangefinn, mongólíti, svertingi, kani, bókaormur, prófessor, múslimi og kommi, er hægt að nota bæði með virðingu og vanvirðingu fyrir þeim sem um er rætt.

Þegar ég var barn, las ég, söng og skoðaði myndir um 10 litla negrastráka. Samt leit ég aldrei niður á svertingja. Líklega af því að mér var kennt að bera virðingu fyrir svertingjum eins og öðru fólki og sérstaklega að bera virðingu fyrir mannréttindabaráttu þeirra og taka afstöðu gegn þeim sem vildu mismuna fólki vegna kynþáttar eða af öðrum ástæðum. Ég vona að bókin um 10 litla negarstráka verði lesin, sungin og skoðuð í hverjum leikskóla og á hverju heimili og börnunum innrætt, já innrætt, að hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

"Sjáðu manneskjuna en ekki stimpilinn", hef ég heyrt frá þeim sem vilja ekki láta tala um fatlað fólk heldur fólk með fötlun, ekki þroskaheft fólk heldur fólk með þroskaskerðingu. Eða kannski einhver enn nýrri orð á flótta undan hugsanlegum stimplum. Hvað svo, ekki blindur  heldur maður með blindu? Sjálfsbjörg, landssamtök fólks með fatlanir? African American af fimmtu kynslóð fæddri í Bandaríkjum Norður Ameríku! Hversu lengi þarf að búa í Vestmannaeyjum til að vera ekki AKP?

Bönnum ekki orðin sem lýsa sérkennum fólks, berum heldur virðingu fyrir sérkennum hvers og eins. Krefjumst ekki þess að allir séu eins, fögnum fjölbreytileika fólks.

Viðurkennum sérkenni fólks og virðum þau, bæði manneskjuna og sérkennið.

Bannorð eru hluti af fordómum.


« Fyrri síða

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband