Meira en aðfinnslur

Af hverju þarf að skoða marga fjölmiðla til að ná utanum fréttina?

Hvernig lýsa aðfinnslur bandaríkjastjórnar sér? "Ályktun: Við hörmum að flugfélag yðar skuli fljúga til Kúbu, af því að okkur er illa við það!" Eða gerist eitthvað fleira?

Á vef RÚV segir: "Niðurstaðan er sú að Boeing hefur ákveðið að þjónusta ekki þær tvær flugvélar sem Loftleiðir notuðu í Kúbu-flugið. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, eru vélarnar notaðar í leiguflugi annars staðar. Ákveðið hafi verið að leita til annars fyrirtækis en Boeings með þjónustu við vélarnar tvær. Málið hafi engin áhrif á starfsemi Loftleiða."

Á visir.is segir: "DV hefur eftir Guðjóni Arngrímssyni upplýsingafulltrúa að félagið sé í daglegu sambandi við Boeing vegna málsins en hann vill ekki tjá sig um næstu skref í málinu."

Ruv.is segir: "Hannes Hilmarsson, forstjóri Atlanta, segir Boeing hafa haft samband við flugfélagið. Atlana flaug til Kúbu á tímabilinu frá maí fram í nóvember 2005." Og visir.is: "Þá hefur DV eftir Hannesi Hilmarssyni, forstjóra Atlanta, að félagið muni ekki fljúga fyrir kúbanska flugfélagið Cubana að svo stöddu."

Fjöldi flugfélaga fljúga til Kúbu, en það er ekkert aðvelt að finna allar þær flugáætlanir á netinu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu af þessu. Ætla íslensk stjórnvöld eitthvað að skipta sér af því? Viðskiptafrelsi og mannréttindi? Humm, það fer nú eftir því hver í hlut á!

 


mbl.is Finna að Kúbu-flugi íslenskra flugfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar er köttur

Af hverju má ekki hafa gæludýr á sambýlum aldraðra?

Ég veit þó um eitt hjúkrunarheimili þar sem býr þessi indæli gulbröndótti köttur og er heimilisfólkinu mikið yndi. Hann tók að venja þangað komu sína sem kettlingur, líkaði betur þar en heima hjá sér í nágrenninu, enda tosar gamla fólkið ekki í skottið á ketti eða rífur í feldinn á honum! Fékk hann þar fasta heimilisvist, en það er strangt tekið brot á reglum sem rekstraraðili heimilisins setur og því er það ekki kynnt opinberlega.

Þessi sóma köttur fer oft inn í herbergi sumra íbúa og leggst til fóta. Er það jafnan gagnkvæm ánægja.

Svo þekki ég líka fólk sem hefur þurft að upplifa þá sorg að vera neytt til að láta aflífa gæludýr sitt vegna reglna á elliheimili. Þetta á ekki bara við á hjúkrunar- og dvalarheimilum, heldur líka í fjölbýlishúsum með einkaíbúðum aldraðra.

Þessi gæludýraandstaða er með ólíkindum. Það apar hver eftir öðrum um ofnæmi, ónæði, óþrifnað og hverslags óáran sem fylgi gæludýrum. Fyrr má nú vera að hafa hoppað út úr moldarkofunum og í steinsteypuna!

Gæludýr gefa einmana fólki mikið. Í okkar steinsteypta samfélagi er aldrað fólk oft einmana og það er grimmt að svifta það þeim félagsskap sem gæludýr geta gefið því. Og oftast er það alveg gjörsamlega ónauðsynlegt.


mbl.is Afþakka vist vegna gæludýrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve hátt hlutfall selur rítalínið sitt?

Ég fullyrði að talsverður hópur þeirra sem komnir eru á unglingsár selja hluta af því ritalíni sem þeim er ávísað. Ég veit að fíklar sækjast mjög stíft eftir ritalíni og held að þeir hafi falsast eftir efninu hjá hverjum einasta unglingi sem þeir þekkja til að noti ritalín. Um leið og einhver unglingur lætur undan þrýstingnum er þrýst á hann áfram.

Svo veit ég um tilvik þar sem foreldrar hafa selt ritalín frá börnum sínum, en það tel ég að séu undntekningar. Hitt er býsna algengt að unglingar selji ritalín, fá kannski um 500 kr á töfluna og hafa því nokkur þúsund upp úr þessu á mánuði.

Hefur það verið kannað hve hátt hlutfall unglinga sem fá ávísað ritalíni hafa verið beðin um að selja það og í hve miklum mæli sé látið undan? 

Annars er fyrirsögn þessarrar fréttar út í hött. Í texta hennar kemur ekkert fram hverjir "Gáfu ekki næga lyfjaskammta" og þar af leiðandi heldur ekki hverjir fengu þá ónæga lyfjaskammta og þaðan af síður til hvers þetta leiddi. Kannski stendur þetta inni í 24 stundum, en ekki á fréttamiðlinum mbl.is sem er að birta frétt með þessarri fyrirsögn.  


mbl.is Gáfu ekki næga lyfjaskammta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af mannavöldum í mannanna valdi

Af hverju eigum við að bregðst við loftslagsbreytingum?


Það er óumdeild staðreynd að nokkrar breytingar hafa orðið á loftslagi jarðar undanfarið og að enn frekari breytingar eru framundan. Það er hins vegar bæði umdeilt hvað valdi þessum breytingum og svo hverjar þær muni verða í framtíðinni.

Þeir sem telja áhrif mannanna lítil til þessa, telja eðlilega að áhrif mannanna verði lítil héðan í frá heldur. Það hentar þeim vel að trúa þessu sem vilja ekki grípa til harkalegra ráðstafana til að draga úr því bruðli sem þeir telja til lífsgæða sinna.

Mismunandi kenningar eru uppi um það hverjar afleiðingar breytinganna verði, svo sem um hve margar gráður hlýnunin verði á hve löngum tíma og hvaða áhrif það hafi á hafstrauma og fleira. Það er mjög gott að nýjar kenningar eru að koma fram. Sá er nefnilega munurinn á trú og vísindum að trúmenn vilja eina óskeikula lausn, en vísindamenn vilja þróa þekkingu sína áfram.

Því skulum við fylgjast með opnu hugarfari með þeim upplýsingum sem fram eru að koma um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni.

Sumar af þessum breytingum eru af manna völdum og aðrar af náttúrulegum orsökum. Sumt er á manna valdi að hafa áhrif á til framtíðar, en annað ekki. Hverjar sem orsakirnar eru og hversu mikil áhrif sem við getum haft á framvindu þróunarinnar, þá er það óneitanlega í okkar valdi hvernig við undirbúum okkur undir að taka við afleiðingunum.

Þess vegna er okkur öllum nauðsynlegt að hlusta á vísindamenn og hvetja þá til enn frekari rannsókna á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ef við þekkjum ekki orsakirnar, getum við ekki gripið inn í þá hluta þeirra sem eru í okkar valdi og ef við þekkjum ekki afleiðingarnar, getum við hvorki metið mikilvægi þess að bregðast við þeim, né við hverju eigi að bregðast.

Á meðan við gerum upp hug okkar, skulum við hefjast handa við náttúruvernd í verki og draga úr mengun af eigin völdum. Það skaðar allavega ekki.


mbl.is Hlýnun jarðar er staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólatiltekt í tölvunum

Af hverju hefði húsleit Samkeppnisstofnunar átt að koma á óvart?

Jólatiltekt stóru matvörukeðjanna hófst snemma í ár. Byrjað var á tölvunum! 


mbl.is Kaupás fagnar húsleit Samkeppniseftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingsmunur eða þjóðernismunur

Af hverju birtast annað slagið fréttir af því að hópi fólks af tilteknu þjóðerni eða kynþætti hafi verið meinaður aðgangur að einvherjum skemmtistað?
Er það af því að engum Íslendingum hafi verið úthýst? Jú, ég held að á ansi mörgum skemmtistöðum sé ákveðnir einstaklingar í aðgöngubanni, en það er rakið til persónulegrar hegðunar þeirra en ekki til þjóðernis þeirra eða kynþáttar. Það þykir heldur ekki viðeigandi að fjalla um þá í fjölmiðlum, það er þeirra persónulegi harmleikur að vera "vitlaus með víni".
Hvaða lesendur hafa búið eða dvalið í sjávarþorpi á meðan vertíðir voru og hétu og verbúðir með? Var þar ekki fullt af vandræðalýð? Sumir kaupfélagsstjórar og aðrir þorpseigendur létu lögguna keyra viðkomandi lýð út fyrir hreppamörkin og þeim fáu sem áttu önnur fyritæki í plássinu var bannað að ráða þá í vinnu.

En helvítis Pólverjarnir!
Það er nefnilega með Pólverja, eins og okkur Íslendinga, að þar er margt hörkuduglegt og strangheiðarlegt fólk og líka fólk sem fótar sig illa í samfélaginu og er jafnvel á vergangi.

"Þeir einu sem munu græða á stóriðjuverinu eru kráareigandinn og hóruhúsið"!

Þessa setningu hafði virt kona eftir reyndum stjórnanda í álverum út um heim, í samtali við mig. Hún hváði auðvitað við.
"Jú, í svona stóriðju sem sett er niður í fámenni, ráðast erlendir farandverkamenn, sem eiga ekki fjölskyldu af því að þeir falla illa inn í samfélagið, menn sem glíma við félagleg og geðræn vandamál, drykkjusýki og þess háttar. Þessir menn þurfa verbúð, krá og hórur."
Skyldi þetta ekki vera vandamálið við hluta þeirra erlendu verkamanna sem hafa verið að koma hingað til lands? Í þeirri þenslu sem er á vinnumarkaði, er leitað eftir vinnuafli sem er tilbúið að koma og vinna á vertíðinni og hypja sig svo aftur.
Pólverjar og Litháar eru jafn gott fólk og við Íslendingar og þar finnst líka jafn slæmt fólk.
Við fáum það sem við pöntum.

mbl.is „Dónaleg framkoma ekki liðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þessi Bitruvirkjun?

Af hverju er Bitruvirkjun sögð vera á Hellisheiði?

Ég held að flestum sem keyri um Hellisheiði finnist hún ekkert falleg.

Svo hvað er þá verið að röfla um að ekki megi spilla náttúruundrum þar vegna Bitruvirkjunar!

Já, flestir keyra nefnilega bara þjóðveg 1  yfir Hellisheiði og vita ekki hverju þeir eru að missa af.

Fyrirhuguð Bitruvirkjun er reyndar ekki á Hellisheiði, en þar skammt undan. Og skoðið nú!

Fleiri frábærar myndir af öllu mögulegu eru á síðunni hans Kjartans. 

 


Gættu Stóra bróður þíns

Af hverju er stóra bróður svona umhugað um okkur?

Á ég að gæta bróður míns?

Jahá! Sérstaklega skaltu gæta Stóra bróður þíns!

"Það mun jafnframt þýða að allir bílar verða undir gervihnattaeftirliti." 


mbl.is Allir bílar undir gervihnattaeftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lón eða miðlunarlón

Af hverju leggja stóru orkufyrirtækin ekki áherslu á þróun rennslisvirkjana?

Með rennslisvirkjun er lítil eða engin þörf á lóni og engin þörf á miðlunarlóni. Munurinn á stöðulóni og miðlunarlóni er, vel að merkja, sú að vatnsborð stöðulóns helst nær stöðugt, afmarkast af hæð útfalls þess, en vatnsborð miðlunarlóns sveiflast eftir því sem safnað er í eða tappað úr lóninu. Það er þessi sveiflukennda yfirborðshæð sem skilur eftir fokset á bökkunum. Annar munur er líka sá að rennsli úr stöðulóninu er mis mikið eftir ákomu í lónið, úrkomu og árstíma, en rennsli úr miðlunarlóninu er stýrt. Þess vegna vill Landsvirkjun miðlunarlón.

Rennslisvirkjanir hafa hins vegar mun minni áhrif á náttúruna, svo þegar upp er staðið er þetta spurning um mat á umhverfisáhrifum og peningaáhrifum.

Það er ekkert að því að virkja útfallið úr Hagavatni og ég vísa ekki á bug að skoða þann kost að stækka vatnið í leiðinni til að stöðva fokið frá núverandi umhverfi þess. Hins vegar leysir það alls ekki fokvandann að búa til miðlunarlón úr Hagavatni.

Spurningni er hvort nægt rennsli sé úr Hagavatni um hávetur, til að OR þyki taka því að setja upp rennslisvirkjun við útfallið.

Rennslisvirkjanir eru enn sem komið er ekki eins hagkvæmar og virkjanir við miðlunarlón, miðað við að náttúrulegt umhverfi sé lítils metið. Það þarf líka svolítið annan búnað í rennslisvirkjanirnar. Ég skora á orkufyrirtækin að þróa betri búnað fyrir rennslisvirkjanir.

Stórfelld inngirp í náttúruna, með miðlunarlónum og breytingu á farvegum vatnsfalla, eru nefnilega ekki lengur sú sýn sem við höfum á framfarir, ekki frekar en kolareykur.

Hér eru myndir og kort af svæðinu, á heimasíðu Kjartans Péturs Sigurðssonar


mbl.is Kanna kosti Hagavatnsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatur hatri fremra

Af hverju er hatur betra en hatur? Hvaða frelsun er í því að finna trúarlegan grundvöll undir hatur sitt? 

Hver myndi ekki fordæma morðingja, ef hann stigi á stokk og fordæmdi samkynhneigða sem sora, nokkrum mánuðum eftir að hann losnar úr fangelsi eftir morð sem framið er af miskunnarlausu hatri, ef hann vitnaði ekki í Biblíuna í leiðinni? Kæmu þá ekki upphrópanir um að stórhættulegur glæpamaður sé sloppinn úr fangelsi, eftir allt of vægan dóm og greinlega haldin sama hatri og leiddi hann til fyrri glæps? Dytti þá ekki jafnvel einhverjum í hug að kauði þyrfti á smá kennslu að halda í kristilegum kærleika?

Hér er fyrri frétt um mann sem leiddi bænagöngu á dögunum og kallaði samkynheigða sora í upphafsorðum sínum:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=734291

Um mál hans hafa spnnist talsverðar umræður á blogginu, m.a. HÉR og HÉR

Að hata þjóðfélagshóp nógu mikið til að misþyrma og myrða manneskju, verður ekkert betra þótt menn vitni í trúarrit hatri sínu til stuðnings. Ég sé ekkert betra við það að vera í trúarrugli, en að vera í dóprugli, ef hvort tveggja heldur manni á sömu hatursbraut. Mér finnst það líka stórhættulegt þegar ofstækismenn fá að prédika yfir andlega veiku fólki, sem er í, eða að reyna að ná sér úr, veikindum sínum, t.d. eftir dópneyslu.

Ég kalla eftir ábyrgð samfélags trúaðra að taka á þessum ofstækismönnum og láta þá ekki komast upp með hatursáróður í nafni guðs. Látið ekki hatursmenn leiða ykkur, hvorki í orði né í göngu og síst af öllu í bæn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband