Bæjarráð Hornafjarðar vill sátt um fyrningaleið

Hvernig fór fyrirsagnahöfundur Morgunblaðsins að því að lesa það út úr ályktun bæjarráðs Hornafjarðar að það vari við fyrningaleið í kvótamálum? Ályktunin í heild sinni er á hlekk undir fréttinni og þar er hvergi minnst á andstöðu við fyrningarleið. Þar segir m.a. og er vitnað til í fréttinni: "... að vegna mikilvægis sjávarútvegs fyrir einstakar byggðir og þjóðarbúið í heild sinni sé mikilvægt að unnið verði að varanlegri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ekki sé ásættanlegt að þessi grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sé í uppnámi fyrir hverjar kosningar. Að slíkri sátt verði allir hagsmunaðilar að koma með stjórnvöldum."
 
Er hægt að túlka ósk um "að unnið verði að varanlegri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið" sem ósk um að sátt náist loksins um núverandi eignarfyrirkomulag á kvótanum? Eða er þetta ósk um nýja lausn? Er þetta ósk um að hrópandi óréttlæti þeirra sem slógu eign sinni á kvótann og stungu arðinum í eigin vasa, verði loksins afnumið? 
 
Hvaða fyrirsögn er rétt að setja á frétt um ályktun bæjarráðs Hornafjarðar? 
 
Svo skulum við bera þessa ályktun saman við samþykkt þess ægilega flokks Samfylkingarinnar:

Samfylkingin

landsfundarályktun2009

Sáttargjörð um fiskveiðistefnu

Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands verði fiskveiðistefnan strax að loknum kosningum endurskoðuð í þeim tilgangi að skapa sátt meðal þjóðarinnar um nýtingu auðlinda hafsins.

Markmið stefnunnar eru:

Að tryggja eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins.

Að stuðla að atvinnusköpun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.

Að uppfylla skilyrði um jafnan aðgang að veiðiheimildum og uppfylla þar með kröfur mannréttindanefndarSameinuðu þjóðanna.

Að auðvelda nýliðun í útgerð.

Að tryggja þjóðhagslega hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.

Aðgerðir til að ná þessum markmiðum:

Þjóðareign á sjávarauðlindum bundin í stjórnarskrá með samþykkt þess stjórnarfrumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi. Markmið slíks ákvæðis um þjóðareign er að tryggja þjóðinni ótvíræð yfirráð allra sjávarauðlinda til framtíðar og fullan arð af því eignarhaldi.

Stofnaður Auðlindasjóður sem sér um að varðveita og ráðstafa fiskveiðiréttindum í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri Auðlindasjóðs renni einkum til sveitarfélaga og verði einnig notaður til annarra samfélagslegra verkefna, svo sem haf- og fiskirannsókna. Kannaðir verði kostir þess að fela Auðlindasjóði jafnframt umsýslu annarra auðlinda í þjóðareign og felur fundurinn framkvæmdastjórn flokksins að skipa starfshóp sem útfæri nánar tillögur um Auðlindasjóð.

Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum.

Framsal aflamarks í núgildandi aflamarkskerfi verður einungis miðað við brýnustu þarfir.

Auðlindasjóður býður aflaheimildir til leigu. Greiðslum fyrir aflaheimildir er dreift á það ár þegar þær eru nýttar. Framsal slíkra aflaheimilda er óheimilt. Útgerðum verður skylt að skila til Auðlindasjóðs þeim heimildum sem þær nýta ekki.

Frjálsar handfæraveiðar eru heimilaðar ákveðinn tíma á ári hverju. Sókn verður meðal annars stýrt með aflagjaldi á landaðan afla.

Stefnt verður að því að allur fiskur verði seldur á markaði.

Jafnframt er því eindregið beint til stjórnvalda að þau hlutist til um að þar til ný stefna tekur gildi ráðstafi fjármálastofnanir á vegum ríkisins ekki aflaheimildum án þess að setja skýra fyrirvara um endurskoðun slíkra samninga til samræmis við þá stefnu sem að framan er lýst.

Kópavogi, 29. mars 2009

 

mbl.is Bæjarráð Hornafjarðar varar við fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á meðalvindi og vindhviðum undir Ingólfsfjalli

Báðir hjólhýsaeigendurnir sem misstu hjólhýsi sín undir Ingólfsfjalli í fyrradag skoðuðu vef Vegagerðarinnar áður en þeir lögðu af stað og litu þar m.a. á upplýsingarnar frá mælinum undir Ingólfsfjalli. Báðir lásu þar að vindur undir Ingólfsfjalli væri 8 m/sek. Svo fuku hjólhýsin þeirra útaf í meira en 30 m/sek hviðum! Hvernig stendur á þessu?

1. Vegagerðin er með síðu fyrir færð og veður. Af henni er hægt að velja einstaka landshluta. Upplýsingar frá veðurvita undir Ingólfsfjalli eru bæði á síðunni fyrir Suðurland og fyrir Suðvesturland. Fyrir hverja veðurathugunarstöð Vegagerðarinnar er rammi með nýjustu upplýsingum frá stöðinni og uppfærist hann á nokkurra mínútna fresti, en tímasetningin kemur fram í rammanum. Uppgefinn vindur er meðalvindur síðustu 10 mín fyrir birtingu og þar er ekki getið um hviður.

2. Engar upplýsingar eru um það á neinni af ofantöldum síðum að hægt sé að fá frekari upplýsingar með því að smella innan rammans. Hægt er að uppgötva það með því að færa músina yfir skjáinn og þá breytist trítillinn í hendi þegar farið er yfir ramma.  Sé smellt innan rammans koma fram ýtarlegri upplýsingar, m.a. um vindhviður.

3. Þegar ég smellti á rammann fyrir Ingólfsfjall s.l. nótt, sá ég graf frá vindmælinum fyrir síðustu 2 sólarhringa. Þar kemur nokkuð eftirtektarvert í ljós. Meðal vindhraði undir Ingólfsfjalli á föstudag frá kl 06 til 19 var undir 10 m/sek, oftast 6-8 m/sek. Allan þann tíma voru tíðar vindhviður í kringum 20 m/sek og stundum vel yfir það. Frá kl 19 - 21 fer meðalvindur upp undir 14 m/sek og hviður yfir 30 m/sek. 

4.  Fyrra hjólhýsið fauk útaf fyrir kl 20. Eigendur þess hafa mjög líklega séð skráðan 8 m/sek vind á stöðinni undir Ingólfsfjalli hafi þau litið á síðuna rétt áður en þau lögðu af stað. Hvergi var hvasst á leiðinni frá Reykjavík, þar til þau komu undir Ingólfsfjall. Þau segjast hafa hlustað á útvarp allan tímann í bílnum og heyrt oft minnst á óveður á Kjalarnesi, en aldrei neinar viðvaranir vegna Ingólfsfjalls.

5. Í norðanátt og norðaustanátt, eins og var þarna, þá er oft mikill munur á meðalvindi og vindhviðum undir Ingólfsfjalli og mjög byljasamt. Þannig háttar til við þessar aðstæður, vindátt og vindstyrk, að undir fjallinu er bæði skjól að meðaltali og mjög hvassar vindhviður inn á milli. Á Selfossi er hvasst á þessum tíma en ekki mjög byljasamt. Skaplegt veður getur verið víðast hvar annars staðar í nágrenninu á sama tíma.

6. Bæta þarf upplýsingar Vegagerðarinnar á yfirlitssíðum. Bæði mega ítrekaðar sterkar vindhviður ekki leynast á bakvið upplýsingaramma athugunarstöðvar á yfirlitssíðunni. Svo þurfa að vera upplýsingar um það að smella skulu á ramma stöðvarinnar til að fá frekari upplýsingar. Upplýsingar um daggarmark þurfa líka að vera skiljanlegri, en þær skipta verulegu máli við mat á hugsanlegri hálku. Nokkuð sem fæstur almenningur hefur þekkingu á, en mætti bæta úr þarna.

Svona leit grafið fyrir Ingólfsfjall út s.l. nótt:

Ingolfsfjallsvindur

 


mbl.is Enn fjúka hjólhýsi undir Ingólfsfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhagskerfi stjórnmálaflokka

Tilraun til að gera flókið mál einfalt:

Samfylkingin birti á árinu 2007, ársreikning ársins 2006. Síðan þá hefur það verið opinbert að landsflokkurinn fékk um 45 milljónir króna í styrki það ár.

Nýverið birti Samfylkingin hverjir borguðu styrki yfir 500 þúsund króna og hvaða upphæð hver þeirra borgaði, á árinu 2006.

Jafnframt lýsti Samfylkingin því yfir að hún myndi kalla eftir og síðan birta samsvarandi upplýsingar frá öllum kjördæmisráðum, fulltrúaráðum og flokksfélögum fyrir árið 2006, en þau hafa hvert um sig sjálfstæðan fjárhag.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki birt upplýsingar um það hver heildar upphæð fjárstyrkja til landsflokksins var á árinu 2006.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins birt hverjir borguðu yfir 1 milljón króna, ekki hverjir borguðu 1 milljón og minna, og hvað hver þeirra borgaði. Samtals greiddu þessir stórgreiðendur um 81 milljón króna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lýst því yfir að hann ætli að birta samsvarandi upplýsingar frá kjördæmisráðum, fulltrúaráðum og félögum vítt um land, fyrir árið 2006.

Flokkarnir hafa allir þann sama hátt á að:
Kjördæmisráð ákveður, annast og kostar framboð til Alþingis innan síns kjördæmis.
Fulltrúaráð eða einstakt félag, þar sem eitt félag er innan sveitarfélags, ákveður, annast og kostar framboð til sveitarstjórnarkosninga, hvert á sínu svæði.
Kjördæmisráð, fulltrúaráð og félög, fá eftir atvikum styrk frá landsflokknum, þar með talið af tekjum flokksins og þingflokks hans frá ríkinu, til að standa straum af kostnaði við framboðin.
Þess vegna segja efnahagsreikningur og rekstrarreikningur landsflokks hvergi nærri alla söguna um fjármál hans.

Á þessu var tekið með lögum um fjármál stjórnmálaflokka, sem tóku gildi 1. janúar 2007.

Fyrir árið 2007, liggja þessar upplýsingar fyrir frá ríkisendurskoðanda og þær ná til allra kima hvers flokks, svokallaðir samstæðureikningar, fyrir landsflokk, deildir og félög. Einnig er þar birtur listi yfir alla þá lögaðila sem greiddu styrki til flokkanna, frá smæstu upphæðum til þeirra stærstu.

Á árinu 2006 fóru fram sveitastjórnarkosningar, allt frá borgarstjórnarkosningum til hreppakosninga. Enginn flokkanna hefur birt bókald sitt frá þeim tíma og Samfylkingin ein hefur lýst því yfir að ætla að gera það.

Í lögum um fjármál stjórnmálaflokka eru ákvæði um fjármál frambjóðenda í prófkjörum. Þau tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2007 og ná því ekki til prófkjöra fyrir þingkosningarnar það ár. Þetta var réttlætt með því að sumir voru búnir að taka sinn prófkjörsslag fyrir áramót en aðrir ekki fyrr en eftir.

Nú í ár, fara fram fyrstu prófkjörin þar sem frambjóðendum er skylt að skila bókhaldi sínu til ríkisendurskoðanda og hefur hann þegar sent þeim öllum boð þar um.


mbl.is Fjárstyrkjatillaga til nefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónustjórn eða evrustjórn

Hvort ætlar VG að starfa með Samfylkingunni í ríkisstjórn, þar sem sótt verður um aðild að Evrópusambandinu og samningurinn borinn undir þjóðaratkvæði, eða að fara í krónustjórn með Sjálfstæðisflokknum?

 


mbl.is VG ekki tilbúinn í aðildarviðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kallast það að borga einkaaðilum fyrir kvótann?

Sjálfstæðisflokkurinn og helstu styrktaraðilar hans, útvegsmenn, eru nú enn einu sinni að ganga af göflunum rétt fyrir kosningar, vegna kvóthagsmuna. "Samfylkingin ætlar að setja útgerðina á hausinn! Samfylkingin er að skattleggja landsbyggðina! Samfylkingin er að gera Vestmannaeyjar gjaldþrota!"

Hvar hafa allar þeirra upphrópanir verið á meðan útgerðarmenn sem sölsað höfðu undir sig sameign þjóðarinnar á fiskimiðum, voru að selja öðrum réttinn til að stunda fiskveiðar?

Hvað er sá landsbyggðarskattur orðinn hár? Fjölmargir kvótkóngar hafa selt fiskveiðiréttind burt úr hverju sjavarplássinu á eftir öðru og farið burt með andvirðið. Fyrir það hafa þeir m.a. keypt sér tuskubúðir í Reykjavík, fótboltafélög á Englandi, sumarhús, þyrlur og banka. Eftir sátu nýjir útgerðaraðilar, sem tóku óheyrileg lán til að kaupa kvótann af gömlu kvótakóngunum. Enda er sjávarútvegur núna gríðarlega skuldsett grein.

Og ef Samfylkingin ætlar ekki að rústa bæði sjávarútvegi og landsbyggðinni með fyrningarleið á eignarhaldi á fiskveiðirétti, þá ætlar hún væntanlega að útrýma þessu lífi með inngöngu Íslands í ESB!

Já, þetta bölvaða ESB og evran hennar! Áður en bankahrunið varð, þá glímdu útgerðarfyrirtæki og fleiri sem eiga mikið undir gengi krónunnar komið, við þann vanda að geta ekki reitt sig á það fram í tímann hvers virði krónan yrði. Þetta leiddi sjávarútvegsfyrirtæki, eins og t.d. Ísfélag Vestmannaeyja, út í að breyta rekstrarsjóði sínum i vogunarsjóð, sem var alltaf að veðja á hvort hann ætti að gera framvirka samninga um gjaldeyriskaup sem reiknuðu með falli eða risi krónunnar. Síðasta veðmál Ísfélagsins endaði með ósköpum og þeir töpuðu hundruðum milljóna á braskinu. En að fá stöðugan gjaldmiðil í staðinn fyrir íslenska krónu? Landráð!

Fyrningarleið Samfylkingarinnar er sannkölluð leið til þjóðarsáttar um endurheimt sjávarútvegsauðlindarinnar í þjóðareign. Hún endurheimtir aðeins 5% á ári, sem gerir greininni færi á að aðlagast breytingunni. Það er minni sveifla en sveifla í aflamarki af náttúrulegum ástæðum. Svo er ekki eins og fiskveiðar dragist við þetta saman þar til þær verða að engu. Nei, öðru nær, munurinn er sá að nú borga menn í auðlindasjóð þjoðarinnar, en ekki til einkaaðila. Andvirðið verður notað til að styrkja byggð á landinu, einkum í sjávarplássum, efla hafrannsóknir og styrkja úterðina til að mæta kostnaði af þessum aðgerðum eða óvæntum áföllum. 

Með þessu móti verður þjóðinni, og sjávarútveginum sérstaklega, bætt að nokkru það arðrán sem í einkavæðingu veiðiheimilda fólst. Sterkur gjaldmiðill, með stöðugleika og öflugan bakhjarl, mun líka stórbæta rekstarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja, rétt eins og annarra fyrirtækja í landinu. Sá gjaldmiðill fæst ekki með íslensku krónunni, en hann býðst með evru.

Ágætu íbúar landsbyggðarinnar. Þeir sem ætla að skattpína landsbyggðina og sjávarútveginn i drep, með braski einkaaðila á kvóta, svimandi háum vöxtum og óstöðugum gjaldmiðli, eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Þeir sem leggja fram raunhæfa leið út úr núverandi efnahagsvanda, nýjan öflugan gjaldmiðil og auðlindir í þjóðareign, eru Samfylkingin.

Þitt er valið og valdagur á laugardag 25. apríl. 


mbl.is „Sýður á mönnum vegna 5% landsbyggðarskattsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðilegur heilsubrestur BYRs

MP banki hafði veitt mönnum lán gegn veðum í stofnfjárbréfum í BYR. Þegar verðmæti bréfanna þótti ekki standa lengur undir andvirði lánsins, gerði MP banki veðkall. Það þýðir að hann krafði veðhafana um frekari veð. Þeir ýmist áttu ekki eða vildu ekki leggja fram ný veð og þá voru góð ráð dýr. 

Dýra ráðið sem gripið var til, var að stofna skúffufyrirtæki, Exiter, sem keypti bréfin á yfirverði og gerði upp við MP banka. Til þess fékk skúffufyrirtækið lánið hjá BYR. Aðallögfræðingur MP banka og fyrrum stjórnarmaður stýrir skúffufyrirtækinu. Frekari eignar- og stjórnartengsl eru milli MP og BYRs.

MP banki, sem nú vill fá að bjóða viðskiptavinum SPRON að koma til sín, og stjórnendur BYRs segjast allir jafn saklausir af því að nokkuð óeðlilegt sé við þessi viðskipti. Þar á meðal eru englarnir sem skrifa bréf það sem hér er bloggað um.

Lestu endilega þetta blogg, sem fer ítarlega yfir málið: http://verjumbyr.blog.is/blog/verjumbyr/

Bankar, sparisjóðir, verðbréfasjóðir ....... Hver munurinn á kúk og skít? 


mbl.is Kaup á stofnfjárbréfum í andstöðu við lánaheimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illur fengur illa forgengur

Af hverju er betra fyrir útgerðina í landinu að kaupa kvóta af einkaaðilum en af ríkinu?

Stór hluti af gríðarlegum skuldum í íslenskum sjávarútvegi stafar af kaupum á fiskveiðikvóta. Næst stærsti hlutinn stafar af því að farið var með kvótagróða, og í mörgum tilvikum með veltu í atvinnugreininni, í verðbréfabrask.

Kvótinn var settur á sem veiðistjórnun til að koma í veg fyrir ofveiði fiskistofna og finna leið til að stýra aðgangi að þeirri takmörkuðu auðlind sem fiskistofnar við landið eru. Útgerðarmenn keyptu aldrei þennan kvóta, heldur slógu eign sinni á þennan veiðirétt og hafa síðan selt hann sín í milli. Ræningjar hirtu sameiginlega auðlind þjóðarinnar og seldu hana.

Þegar maður kuapir þýfi, í góðri trú um að það hafi verið heiðarlega fengin eign seljandans, þá verður hann að skila því bótlaust til rétts eiganda og á aðeins endurgreiðslukröfu á hendur ræningjanum.

Samfylkingin gerir sér grein fyrir því að löng flétta af kaupum og sölu á kvóta, býr til nýjan vanda ef kvótinn verður nú endurheimtur bótalaust af þeim sem keyptu hann síðast.  Þess vegna leggur Samfylkingin fram leið til þjóðarsáttar um endurheimt fiskveiðiauðlindarinnar.

 

  • Í þeirri leið felst að aðeins 5% auðlindarinnar verða endurheimt á ári hverju.
  • Þetta er minna en sveifla í kvótauthlutun af náttúrulegum ástæðum. 
  • Þessum 5% verður útdeilt aftur á markaði, þar sem bæði gamlir og nýir aðilar eiga þess kost að kaupa veiðirétt að þeim.
  • Tekin eru 5% af öllum veiðiheimildum hverju sinni, hvenær og hvernig sem þær voru fengnar.
  • Andvirðið rennur í auðlindasjóð þjóðarinnar, en ekki í vasa örfárra einstaklinga. 
  • Hluta andvirðisins er hægt að verja til að styrkja sjávarútvegsatvinnugreinina í landinu.

 

Útgerðarmenn geta ekki kennt Samfylkingunni, og ekki heldur ESB, um gríðarlegar skuldir sínar. Þeir geta þar aðeins kennt um ránfiskum úr eigin stétt. Þar hefur verið illa farið með illa fengið fé.

Við höfum heyrt heimsendaspádóma grátkórs útgerðarmanna áður. Fyrir nokkrum árum rauk þáverandi forstjóri ÚA upp með hræðsluáróður rétt fyrir kosningar og sagði Samfylkinguna ætla að setja sjávarútveg landsins á hausinn með tilheyrandi hruni landsbyggðarinnar. ÚA fór á hausinn, án atbeina Samfylkingarinnar, og forstjórinn færði sig á nýjan starfsvettvang. Nú stýrir hann gríðarlega skuldsettum mjólkuriðnaði þar sem áður var Mjólkurbú Flóamanna með sterka eiginfjárstöðu. 

Sveiattan, þið krókódílar útgerðarauðvaldsins! 

 


mbl.is Ávísun á fjöldagjaldþrot í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona flytur maður gjaldeyri úr landi

Þeir sem vilja losna við stórar fjárfúlgur í íslenskum krónum, geta ekki skipt þeim út fyrir erlendan gjaldeyri, vegna þeirra gjaldeyrishafta sem nú eru í lögum. Þetta gildir t.d. um eigendur svokallaðra jöklabréfa. Þeir fá bara útborgað í íslenskum krónum og geta ekki skipt þeim í gjaldeyri. Hvað gera þeir þá?

Þeir geta annað hvort keypt vörur innanlanda, borgað fyrir þær í krónum og flutt þær síðan út og selt þær þar fyrir erlendan gjaldeyri, sem þeir flytja síðan ekki til Íslands. Eða að þeir troða íslensku krónunum í ferðatösku og nota þær svo til þess að greiða íslenskum útflytjendum fyrir vörur erlendis. Íslenski útflytjandinn kemur þá heim með krónur en ekki gjaldeyri. Í báðum tilvikum berst gjaldeyrir fyrir útflutninginn ekki til landsins.

Eðlilega leiðin er að útflytjandi selur vöru gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri og skiptir þeim gjaldeyri svo í Seðlabanka Íslands fyrir íslenskar krónur sem hann leggur inn á reikninginn sinn. Gjaldeyrinn notar Seðlabankinn síðan til að selja þeim sem eru að flytja inn vörur, en fyrir þær þarf að greiða í erlendum gjaldeyri.

Ástæða þess að útflytjendur svíkjast um að taka við greiðslum í erlendum gjaldeyri og skipta honum hér heima, er að þeir eru að versla á miklu lægra gengi íslensku krónunnar á gráa, eða eigum við að kalla það svarta, markaðinum en á gjaldeyrismarkaði Seðlabanka Íslands.

Þeir sem vilja eindregið losna við íslenskar krónur, eru reiðubúnir til að skipta þeim á miklu lægra gengi en því opinbera. Vandinn er að í íslensku hagkerfi liggja stórar fúlgur í krónum í eigu aðila, einkum erlendra kaupenda jöklabréfa, sem vilja fyrir alla munu skipta þeim út fyrir hagstæðari gjaldmiðla. Ef þessir aðilar skipta þessum krónum fyrir erlendan gjaldeyri, ryksuga þeir upp gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og valda því að Seðlabankinn þarf að kaupa nýjan gjaldeyri dýrum dómum, af því að erlendir bankar vilja ekki kaupa íslenskar krónur. Þess vegna er verið að fá þessi lán frá AGS og erlendum ríkjum.

Við Íslendingar erum nefnilega háð innflutningi á mjög mörgum vörum, sem ekki fást frá innlendri framleiðslu. Gríðarlegt gengisfall og samsvarandi verðhækkunarsprengja myndu senda verðtryggingu lána í þvílíkar hæðir, að jafnvel formanni Framsóknarflokksins svelgdist á að reyna að strika þær út.

Lögunum um gjaldeyrishöft er ætlað að reyna að halda innflutningi sem mest innan þess ramma sem útflutningur skaffar af gjaldeyri. Skili gjaldeyristekjur af útflutningi sér ekki, þarf að nota lánsféð frá AGS og fleirum til að skaffa nauðsynlegan gjaldeyri fyrir innflutningi.

En sumir telja svo smáskitlegan þjóðarhag ekki ofar eigin hag. Sá sem er búinn að innleysa jöklabréfið sitt og situr uppi með vænt íslenkt seðlabúnt, kaupir t.d. fyrir það fisk á Íslandi. Svo flytur hann fiskinn út og selur hann þar. Eða hann situr fyrir íslenska fisksalanum erlendis og býðst til að skipta gjaldeyrinum sem hann var að fá fyrir fisksöluna, með mun fleiri krónum en hann getur fengið fyrir hann hér heima.

Með þessu móti er íslenski útflytjandinn að hjálpa til við að smygla erlendum gjaldeyri úr landi. Það kemur nefnilega í sama stað niður að flytja gjaldeyri úr landi og að flytja gjaldeyri ekki inn í landið.

Gengi gjaldmiðils ræðst af framboði og eftirspurn, því færri sem vilja eiga íslenskar krónur og því lægra verð sem þeir vilja borgar fyrir þær, því lægra verður gengið. Ef sá sem vill losna við íslenkar krónur er tilbúinn að skipta þeim fyrir 300 kr á móti hverri evru, þá verður það gengi íslensku krónunnar.

Þetta er það sem kallað er gjaldeyriskreppa íslensku krónunnar.


mbl.is Brýnt og óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég varð verðbréfabraskari

Ég gerðist verðbréfabraskari fyrir um tveimur árum síðan. Fjandinn fjarri mér! Ég sem hef aldrei haft nokkurn áhuga á verðbréfum. Ég sumsé hóf að leggja fyrir smá sparnað.

Nú var komið að þeim kaflaskilum í lífi mínu, að ég var hætt að borga bankanum vexti, vaxtavexti og dráttarvexti og hóf að leggja inn í bankann. Ha, ha, ha, tapaði líka á því! Svona fór ég að:

Ég skráði mig í séreignarlífeyrissparnað og lagði jafnframt inn á einhverja sparnaðarlínu sem sérfræðingur bankans sagði að hentaði einmitt svo vel mínum aldri.

Við vitum flest að bankinn geymir peningana okkar ekki bara í bankanum og leggur svo annað slagið nokkra seðla ofan á búntið. Nei, við vitum að hann notar innlegg okkar í veltu sinni, m.a. til útlána og á annan hátt. Skipti mér ekkert af því, meðan bankinn stendur við sitt gagnvart mér og ég fæ innleggið mitt og umsamda vexti útborgaða þegar mér hentar, þá má hann græða á innlegginu eins og hann vill.

Þannig gat bankinn t.d. grætt eða tapað á einstaka lánveitingum og verðbréfakaupum, þá skilaði hann bara meiri eða minni hagnaði. Ekki mitt mál, enda átti ég ekkert hlutabréf í bankanum. Bara smá innistæðu.

En, bankinn er klókur. Hann sá auðvitað að það var ótækt að hann bæri alla áhættu af áhættuviðskiptum. Lánveitingar og verðbréfakaup falla einmitt undir áhættuviðskipti. Ráð við þessu var auðvitað að deila áhættunni milli bankans og viðskiptavinanna. "Vina mín, ef þú leggur inn á þessa frábæru sparileið, þá munum við sjá um að fjárfesta fyrir aurana þína í verðbréfum og hlutabréfum og þú færð arð í samræmi við það hversu snjallir við erum í vali á fjárfestingaeiðum. Sjáðu hérna hvað verðbréfasjóðirnir okkar skiluðu miklum hagnaði í fyrra!" Svo fjárfestu snillingarnir í verðbréfum, innlendum og erlendum skuldabréfum og hlutabréfum. Þeir sögðu mér aldrei hvaða bréfum og ég spurði ekki. Yfirlitið sýndi ávöxtun með mínusstriki fyrir framan. Ég sumsé tapaði á sparnaðinum.

Séreignarlífeyrissparnaðurinn fór sömu leið. Um séreignarlífeyrissparnaði gilda ákveðnar reglur, hann er bara hægt að leggja inn í séreignarlífeyrissjóði, en ekki á almenna innleggsreikniga í bönkum því þá fæst ekki mótframlag frá launagreiðanda. Séreignarlífyrissjóðurinn var ávaxtaður af sömu snillingum og með sömu aðferðum og að ofan er lýst. Hann bar líka neikvæða ávöxtun, sumsé tap.

Ég hefði betur sleppt séreignarlífeyrissparnaðinum og mótframlagi launagreiðandans og lagt minn hlut inn á venjulega bankabók, þá ætti ég aðeins fleiri aura í bankanum nú.

Svo sá ég í heimilisbankanum að ég get breytt um "línu" í sparnaðinum og er búin að því. Nú ber hann bara innleggsvexti áháð verðbréfaviðskiptum bankans.

Ég þarf ekkert að upplýsa ykkur um hvaða séreignarlífeyrissjóður þetta var, þeir vinna allir eins. Gáðu bara að þínum!

Nú, nú, svo borga ég líka í almennan lífeyrissjóð. Hann lofar mér ekki ákveðnum vöxtum, gefur mér eitthvað í skyn um það á hverju ég megi eiga von í ellinni, miðað við innborganir mínar. Það fer allt eftir þvi hversu vel honum gengur að ávaxta sitt (mitt) fé, hver lífeyrir minn verður í fyllingu tímans. Hér gerist ég verðbréfabraskari í þriðja sinn. Lífeyrissjóðurinn minn ávaxtar aurana mína nefnilega af sömu snilld og sérfræðingarnir í bönkunum. Hann kaupir innlend og erlend skuldabréf og hlutabréf. Arðurinn af þeim fer í að ávaxta innlegg sjóðsfélaganna. Nú eru þeir allir með tölu reknir með bullandi halla. Sá halli þýðir að lífeyrissjóðsgreiðslur launafólks rýrna í sjóðnum. Eins og segir í fréttinni, "en ekki liggur fyrir hversu mikil sú skerðing verður." 

Viðtu fá meira að heyra um lífeyrissjóði? T.d. hvernig þeim er stjórnað, fyrr og nú? Ok, kíktu þá á síðuna mína aftur innan fárra daga.

 

 


mbl.is Lífeyrisréttindi væntanlega skert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill fá lán frá ríkinu til að kaupa banka af ríkinu

Alltaf batna fréttirnar. Eftir langan lestur frétta af mönnum sem fengu lán í banka til að kaupa hlutabréf í þeim sama banka, þá les maður þetta. Nú er það VBS sem vill kaupa netbankann nb.is af ríkinu og auðvitað að fá til þess lán frá ríkinu. "...eykur það möguleika okkar til að greiða lánið frá ríkinu til baka. Ætti lánveitandinn að vera ánægður með það“, segir kotroskinn forstjóri VBS. Umrætt lán, 26 milljarðar króna, var VBS að enda við að fá frá ríkinu til að fara ekki á hausinn.

Jamm, það hlýtur líka að bæta veðhæfni VBS að geta bætt veðum í nb.is við veðið til ríkisins. Ætti lánveitandinn að vera ánægður með það!

Hvað las þessi Jón, þegar hann las fréttir um banka sem lánuðu fyrir kaupum á hlutafé í sjálfum sér? Varla það sama og við lásum út úr þeim fréttum?

Hvað skyldu annars margir hafa keypt hlutabréf í VBS gegn láni hjá VBS og veði í bréfunum eingöngu?

Æi, sumum er ekki við bjargandi, hafnvel ekki fyrir 26 milljarða! 


mbl.is Samdi um 26 milljarða lán og vill kaupa Netbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband