Reiðufé fengið að láni

Hvernig fór Katarbúinn góði að því að greiða fyrir hlutabréfakaup sín í Kaupþing í lok september? Hvað skyldi standa á kvittununum sem talsmaður hans hérlendis segist vera með? Er það yfirlýsing um að kaupverðið hafi verið greitt að fullu, eða er það raunveruleg kvittun fyrir innborgun?

Þann 11. desember sagði á visir.is:
"Að sögn Telmu Halldórsdóttur talsmanns Q Iceland Finance mun Al-Thani hafa greitt fyrir 5% eignarhlut sinn í Kaupþingi með reiðufé og mjög tryggum veðum í eignum sínum erlendis."

Nú segir á mbl.is: "Viðskiptin voru fjármögnuð til helminga með láni frá Kaupþingi, sem nú hefur verið greitt að fullu, og veðtryggingum."Hvað varð um reiðuféð?

Í því litla sem frá Telmu hefur komið um þetta mál, nú í dag og í gær, er öll áherslan á að Katarinn sé skuldlaus við Kaupþing.

Enn á samt eftir að skýra út hvernig kaupverðið var greitt. Það mun koma í ljós!

Bendi á komment frá Gunnar Th við þessa sömu frétt og líka fyrri færslu frá mér við sama mál.


mbl.is Segir allt með felldu í Kaupþingsviðskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týndu greiðslu með reiðufé

Það lítur út fyrir að einhverjir hafi týnt úttroðinni tösku með jafnvirði nokkurra milljarða króna í reiðufé og "mjög tryggum veðum í eignum sínum erlendis." Frétt Rúv í gær og annara fjölmiðla í kjölfarið, er reyndar nokkuð gömul frétt. Ég sá hana fyrst á bloggi Hauks Haukssonar 18. október s.l. Skyldi leit hafa staðið yfir linnulaust síðan?

Meðan starfsfólk Gamla Kaupþings og Nýja Kaupþings leitar að kvittunum og reiðufé, skulum við hin dunda okkur við að vafra á internetinu:

Fjölmiðlar greindu frá því 22. september s.l. að Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hefði keypt 5,1% hlut í Kaupþingi á 25,5 milljarða króna. Á þáverandi gengi! http://www.vidskiptabladid.is/frett/1/47499/5--i-kaupthingi-til-katar

Þann dag þótti verðið bara nokkuð sanngjarnt. http://www.vidskiptabladid.is/frett/1/47504/

Hinn íslenski Mr. President hafði nýlega skroppið til Katar og bankastjórinn Mr. Sigurdsson said: "These visits certainly helped". http://www.icelandreview.com/icelandreview/Daily_News/?ew_0_a_id=312508

Svo hrundi bankakerfið. "Þeir missa sem eiga," segir í æðruleysisbæn Íslendinga og svipaðs æðruleysis gætti hjá Íslandsvininum frá Katar. Vísir greinir svo frá 11. desember. http://www.visir.is/article/20081211/VIDSKIPTI06/569201063

Eins og segir í fréttinni hér framar, hafði velgjörðarmaður vor áður keypt hlut í Alfesca, sem Ólafur nokkur Ólafsson ræður ríkjum í. Frá þessu segir m.a. 2. september, ásamt yfirlýsingu um framtíðarhorfur í rekstrinum og rekstrarumhverfinu. https://chepa.netfonds.no/release.php?id=20080902.OMX.274391&layout=print

Eitt er að vera æðrulaus en annað að vera vitlaus. Og skemur en Adam var í Paradís, var Katarskur sheikh í Alfesca. Mbl.is segir svo frá 14. október. http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/14/sjeik_haettir_vid_alfesca/

Áðurnefndur Ól.Ól. á sitthvað fleira. http://74.125.77.132/search?q=cache:Iw8iaGHQwVQJ:wap.mbl.is/frett/1366563/%3Fcat%3D5+Sheik+Mohammed+bin+Khalifa+Al-Thani&hl=is&ct=clnk&cd=39&gl=is&lr=lang_is

18. október bloggar Haukur Hauksson að Katarinn sé ekki búinn að borga neitt fyrir hlutinn í Kaupþingi. http://haukurhauks.blog.is/blog/haukurhauks/entry/679288/

Ha? Týndu menn kvittuninni? Og hann sem borgaði með reiðufé! http://www.visir.is/article/20090114/VIDSKIPTI06/697071533/-1

Persónulegir vinir Kaupþingsmanna í arabaheiminum eru víðar en í Katar. Ætluðu ekki einhverjir Líbýumenn að kaupa Kaupþing í Lúxembúrg? http://eyjan.is/silfuregils/2008/12/09/hvad-er-ad-gerast-med-kaupthing-i-luxemborg/

Já, vel á minnst, Kaupþingsmenn og Líbýumenn. Fáum þessa til að skella sér í olíubísnessinn á Drekasvæðinu. http://www.smallcapnews.co.uk/article/Circle_Oil_attracts_Libyan_sovereign_wealth_fund_in_new_fundraising/5665.aspx

Guð blessi Ísland!


mbl.is 25 milljarða króna greiðsla týnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ég vil ekki heyra

Af hverju er ekki hægt að fá réttlætinu fullnægt með dómi? Af því að lög ná ekki yfir allt heimsins óréttlæti!

Dómarar í vestrænum lýðræðisríkjum eiga að dæma eftir lögum, en ekki bara eftir eigin réttlætiskennd. Þess vegna sigrar réttlætið ekki alltaf fyrir dómi, jafnvel ekki einusinni þar sem lögin eru annars sanngjörn.

Svo koma dómarar og jafnvel bara lögfræðingar og segja okkur að eitt og annað óréttlæti sé ekki ólögmætt. Vei þeim illa þenkjandi lögfræðingi! Og, sérstaklega, vei þeim ömurlega stjórnmálamanni sem segir manni að ekki þýði að láta á óréttlætið reyna fyrir dómstólum!

Baráttan fyrir réttæti er pólitísk barátta en ekki lögfræðileg. Lögfræði er tæki, en ekki stefna. Lög eru sett af stjórnmálamönnum og það fer eftir pólitískri afstöðu hvort þau eru og fyrir hvern þau eru sanngjörn eða ósanngjörn, hvað þau leyfa, banna og skylda.

Ég kýs heldur stjórnmálamann sem segir mér það sem ég vil ekki heyra, heldur en stjórnmálamann sem lætur ríkislögmann um að segja mér það. Ég vil heldur lögfræðing sem segir mér það sem ég vil ekki heyra, heldur en lögfræðing sem segir mér það sem ég vil heyra og tapar svo máli mínu fyrir dómi.

Svo ætlast ég til þess af stjórnmálamanninum mínum að hann haldi réttlætismáli mínu áfram á lofti á hinum pólitíska vettvangi, árangur þar er oft ekki minna virði en dómsuppkvaðningar.


mbl.is Væntu of mikils af dómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers er stjórnmálasamband ríkja?

Það er auðvitað vonlaus leið til samskipta að slíta sambandi. En ef hvorki er talað saman, né hlustað á yfirlýsingar, til hvers eru samskiptin þá?

Það að slíta stjórnmálasambandi milli ríkja er alvarleg aðgerð. Hún er ekki bara táknræn mótmæli, hún er líka yfirlýsing um að ekki verði reynt að ræða málin. Ef íslensk stjórnvöld vilja ekki slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna hryðjuverka þeirra í Palestínu, þá kref ég þau skýrra svara við því hvaða áhrifum þau séu að beita í gegnum þetta stjórnmálasamband til að stuðla að friði á svæðinu.

Svo þá er best að bera spurninguna upp beint og henni er að sjálfsöðu beint til utanríkisráðherra Íslands:
Á hvern hátt eru íslensk stjórnvöld að beita áhrifum sínum í gegnum stjórnmálasamand sitt við Ísrael til að stuðla að friði í Palestínu?


mbl.is Deilt um stjórnmálasamband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum þeim blóm

og rúsínupoka með hnetum.
Þegar illvirkjar myrða, sprengja og limlesta fólk, í nafni varnar, hefndar eða guðs, þá langar mig til að berja þá í klessu.
Við þessarri tilfinningu er aðeins eitt ráð: Að gefa þeim blóm og rúsínupoka með hnetum.


mbl.is Fordæmir innrás á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknileg mistök

Þetta getur maður nú kallað tæknileg mistök. Það er að segja hverjum bréfið var sent. Hugurinn að baki sendingunni er hins vegar ekki tæknilegur heldur siðferðilegur. Seinna bréfið sem Bjarni sendi fjölmiðlum, þar sem hann bað þá að segja engum frá mistökum sínum, er svo vitlaust að ótrúlegt er að reyndur blaðamaður skuli senda það frá sér. Þar á ofan bætist sú óafsakanlega afstaða til blaðamennsku að þeir megi hylma yfir vitneskju um það að þingmaður sé að búa til nafnlausa tölvupósta til að breiða út óhróður. Svo svarar Bjarni spurningum fréttamanna eins og hann geti eitthvað afsakað gerðir sínar. Hann átti bara að biðjast afsökunar og ekki orð meir.AAAÁÁÁTSS!!! 
mbl.is Áframsendi gagnrýni á Valgerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegnumstreymissjóðir

Af hverju eru lífeyrissjóðirnir söfnunarsjóðir en ekki gegnumstreymissjóðir?

Með söfnunarsjóði leggur þú fyrir í sjóð sem þú tekur síðar út í elli þinni eða ef starfsgeta þín bregst fyrr. Í sameiginlegum lífeyrirssjóði dreifum við þessarri áhættu og ábyrgð á milli okkar, hver leggur til eftir getu og fær eftir þörfum. Í séreignarsjóði, fær hver aðeins það sem hann hefur lagt fyrir sjálfur. Á meðan beðið er kappkostar þú að ávaxta, eða a.m.k. halda verðgildi söfunarsjóðs þíns, t.d. með því sem þú telur arðbærar fjárfestingar. Þar koma m.a. til kaup á hlutabréfum og skuldabréfum og bein lán sjóðsins sjálfs með vöxtum og ekki hvað síst, verðtryggingu.

Í sameiginlegum lífeyrissjóði er alveg eins hægt að hafa  gegnumstreymi eins og sjóðssöfnun, en slíkt er skiljanlega ekki hægt í séreignarsjóði. Með gegnumstreymi er áætlað hversu margir vinnandi menn leggi til fé í sjóðinn og hversu margir lífeyrisþegar fái úr honum og út frá því eru iðgjöld og lífeyrisgreiðslur ákveðnar. Ég legg þá ekki til hliðar fyrir elliárum mínum, heldur fyrir öldruðum nú og eins munu þeir yngri gera þegar ég eldist.

Hagtölur í þjóðfélaginu gefa okkur nokkuð raunhæfa möguleika á svona áætlunum. Við sjáum á fæðingum hvernig við getum áætlað fjölda aldraðra eftir 60+ ár. Hagtölur segja okkur líka til um hlutfall þeirra sem hljóta skerta starfsorku fyrir þann tíma og þurfa því á lífeyri að halda fyrr. Eins er með atvinnustig og laun. Þetta er svipað fyrirkomulag og haft er á almannatryggingum, nema að þarna er teknanna ekki aflað með almennri skattheimtu, heldur með beinum greiðslum launafólks.

Þegar engir eru söfnunarsjóðirnir, eru þeir ekki heldur notaðir í brask á fjármálamörkuðum, eða til að setja einstaka verkalýðsrekendur í bankastjórastól gagnvart félagsmönnum verkalýðsfélaga.

Þótt greiðslur til lífeyrisþega LV skerðist ekki strax á næsta ári, þá munu þær skerðast til lengri tíma litið, vegna þess að sjóðurinn hefur tapað á verðbréfabraskinu. Þar að auki tapa þeir sem lagt hafa inn í séreignasjóði Lífeyrissjóðs verslunarmanna 23,4% af uppsöfnuðum sparnaði sínum, skv. frétt á mbl.is frá 7. nóv.

 


mbl.is Áætlun bendir til óbreyttra lífeyrisréttinda LV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það má ekki kýla fólk"

Fólk mótmælir á torgum og fólk mótmælir í sófum. Ég skemti mér vel yfir Spaugstofunni í gær. En bragð er að þá barnið finnur...

Ég er ekki á því að það að berja boxpúða með myndum af þekktum einstaklingum hvetji almenning til alvöru ofbeldis gegn viðkomandi einstaklingum. Slíkar kýlingar í gamanþætti eru ferkar útrás fyrir þá reiði sem fær fólk til að langa til að berja mann og annan. Langar til en gerir það ekki, ekki af því að það þori það ekki, heldur af því að það vill ekki beita ofbeldi. Þarna voru kvikindin barin fyrir okkur og engum varð meint af. Eða hvað?

Barnabarn mitt, þriggja ára, horfði á Spaugstofuna með mér í gærkvöldi. Í bílnum á heimleiðinni á eftir, sagði hún við pabba sinn: "Það má ekki kýla fólk."

Hún hefur séð blaðamannafundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra í sjónvarpinu og þá segir hún: "Sjáðu, þarna er pabbi hennar Elísbetar" og bendir á Björgvin G. Sigurðsson. Elísabet Björgvinsdóttir er líka þriggja ára og er með sonardóttur minni í leikskóla. Fyrir Elísabetu, Emmu Fíu og alla hina krakkana á sömu deild í leikskólanum, er þessi Björgvin nefnilega ekki viðskiptaráðherra, eða bankamálaráðherra, heldur pabbi hennar Elísabetar. Þau vitað það af því að hann  kemur oft með hana eða sækir hana í leikskólann.

Það þarf stundum börn til að benda manni á. Álitaefnið um það hvort tiltekið spaug, sem sýnt er í fjölskylduþætti í sjónvarpi rétt fyri háttatíma leikskólabarna, hvetur eða letur til ofbeldis, vék fyrir annari áleitnari spurningu. Ef ég get ekki réttlætt það fyrir barnabarni mínu að sjá foreldri annars barns sem það þekkir, kýlt í sjónvarpinu, hvernig get ég þá sætt mig við það gagnvart börnum sem ég þekki ekki?

 


mbl.is Greint frá mótmælunum erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BDSM flengingar á börnum

Af hverju mátti hann ekki flengja börnin? Lestu dóminn, þar sem málsatvik eru rakin!

Þessi mannfýla sem flengdi drengina stundar sjálfur svokallað BDSM kynlíf með flengingum og niðurlægingum. Hann sóttist eftir að flengja drengina og bar svo olíu á rassinn á þeim á eftir! Móðir þeirra, sem var rugluð og undirokuð í afbrigðilegu sambandi við þennan mann, horfið á. Það er talið manninum til málsbóta að hún sem forráðamaður og uppalandi barnanna hafi samþykkt verknaðinn. Sjálf sætti hún niðurlægingum og ofbeldi af hálfu manns þessa og er andlegt skar eftir þær hremmingar. Þegar hún svo reynir að rétta úr kútnum og kæra, fær hún þann dóm að vera ábyrg fyrir öllum ósköpunum.

Já, lestu dóminn og berðu svo málsatvik saman við þá flengingu sem þú fékkst sem krakki!

 


mbl.is Er í lagi að refsa börnum líkamlega?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Who is going to Möðrudalur?

Á hverju sumri villast nokkrir ferðamenn sem ætluðu frá Öskju í Mývatnssveit og þvælast í margar klukkustundir um óvegi sem enda á Sprengisandi. Þeir sáu skilti sem stóð á "Möðrudalur"! Hvaða túristi er á leið í Möðrudalur? Túristi getur hvorki lesið né sagt orðið Möðrudalur. Verða menn ekki bara étnir af ísbjörnum þar? Eða vegpresturinn við Laugafell sem vísar í Skagafjörður? Ha? Vegvísir uppi á hálendinu sem vísar þér út á sjó!?

Nú þegar ferðamenn, innlendir og erlendir, þeysa um allar trissur, kemur berlega í ljós hve skelfilega vantar mikið upp á almennilegar merkingar, bæði þær sem vísa fólki til vegar og þær sem vara við hættum.

Fáðu þér gott landakort! Þar eru sýndar þrjár gerðir af vegum: Malbikaðir vegir, malarvegir og jeppavegir. En jeppavegirnir eru ekki flokkaðir í vondur, verri og ófær. Þar á ofan er þekking þeirra sem reyna að leiðbeina ferðalöngum, jafnvel um næsta umhverfi, víðast hvar allsendis ófullnægjandi hvað varðar þekkingu á fjallvegum. Sumir þessir fjallvegir eru bara fyrir bændur á hestum að smala rollum. Ef þú lendir í vandræðum þar, máttu bíða í marga daga eftir að næsti ferðalangur eigi þarna leið um. Og hann hefur líklega villst til þín! Hva, hringja bara, það er komið gsm samband um allt hálendið. Mikil er trú þín maður! Gsm samband nær EKKI um allt hálendið.

Þetta þekkingarleysi virðist enn herfilegra þegar kemur að starfsmönnum og forráðamönnum bílaleigufyrirtækja. "I have a four wheel" er samheiti lítilla fjórhjóladrifinna "jepplinga" sem sumir eru lítið hærri en götusópar. Og þeir sópa fjallvegina! Sjálfsábyrgð leigutakanna hlýtur að vera há, fyrst það borgar sig að leigja þeim þessar pútur til fjallferða.

Nú er ég að starfa þriðja sumarið mitt við skálavörslu í Nýjadal á miðjum Sprengisandi. Ég stend margsinnis í ströngu við að telja ferðamönnum, innlendum og erlendum, trú um að farkostur þeirra muni ekki flytja þá heilu og höldnu gegnum Vonarskarð, hvað þá yfir Köldukvíslarbotna og bið um nafn og símanúmer nánustu aðstandenda ef þeir ætli yfir "vaðið" á Tungná við Jökulheima. Eða leiðin frá Ingólfsskála, norðan Höfsjökls, að Kili! "Oh! That was on my scedule. But, what if we have two cars?"

Svo þarf eldsneyti á bílana. Það virðist vera talsverð útgáfa á Íslandskortum erlendis þar sem frjálslega er farið með uppfærslur. Eitt slíkt var með bensínstöðvar í Versölum (á Sprengisandi 50 km norðan Hrauneyja), heima á bæ norðarlega í Bárðardal og inni í Veiðivötnum. Á engum þessara staða er selt eldsneyti. Bara til að svala forvitni þinni, þá eru 250 km frá Hrauneyjum að næstu bensínstöð norðan Sprengisands, á Fosshóli í Bárðardal, við hringveginn. Talan á skiltinu við Hrauneyjar er nokkuð lægri. Svo er líka skilti þegar ekið er frá Versölum, sem vísar á að 163 km séu norður í næstu bensínstöð, en ekkert um hve langt sé í bensínstöðina í suðurátt. Að vísu eru 200 km frá Versölum í Fosshól, en skiltið er þar á ofan forngripur frá því að fyrir mörgum árum var bensínsala í Versölum.

Missi menn af því að taka eftir vegprestinum sem vísar þeim á að beygja inn á Sprengisand, um 13 km norðan Hrauneyja, fara þeir upp að Þórisvatni. Slíkt gerist þónokkuð oft. Þá koma menn að mörgum slóðum, fæstum merktum og öðrum með merkingum sem menn klóra sér í hausnum yfir og halda áfram að villast eftir.

Þegar komið er að Versölum, þarf að beygja til austurs eftir Sprengisandsvegi. Fari menn ekki eftir því skilti, halda þeir beint áfram eftir Kvíslaveituveginum, sem er fínn uppbyggður Landsvirkjunarvegur. Svo kemur skilti fyrir ofan Kvíslavatn, sem bendir í austur og á stendur Hágöngur. Er Sprengisandsvegur þar? Sértu ekki viss, heldurðu áfram og kemst í ógöngur. Eftir nokkurn spöl fer vegurinn að versna og þú kemur að skilti sem sýnir þér skýrt og greinilega að vegurinn framundan endi í botnlanga! Að vísu heldur hann áfram eftir eldgömlu Sprengisandsleiðinni upp á Sprengisandsveg við syðri afleggjarann að Laugafelli, en hann er grjótbarningur með nokkuð ströngu vaði á og ekki gott að draga skuldahalann á eftir sér þar. Svo eru tveir þverslóðar inn á Sprengisandsveg sunnan Nýjadals, en þeir eru jafn grimmir við skuldahala og "I have a four wheel" sóparana. Til viðbótar er þarna norðantil fullt af villuslóðum eftir Landsvirkjun sem er þarna um allar trissur að tutla hvern vatnsdropa inn í hana Þjórsá sína.

Loks eru það göngumenn sem ætla að vaða yfir Köldukvísl og Tungná, eða yfir Þjórsá.....

Æ,æ, ég þarf að hætta að blogga og koma mér út í Flugger að kaupa málningu á skálana í Nýjadal.

Hittumst heil!


mbl.is Skilti verða sett upp við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband