Til þess eru fjölmiðlar

Af hverju þurfum við lesendur að leita fram og aftur um allar trissur til þess að fá skýringar á fréttum? Er það ekki hlutverk blaðamanna/fréttamanna að afla allra upplýsinga og kynna okkur þær?

Í þeirri frétt sem hér er bloggað við, sem er úr Morgunblaðinu, eru yfirlýsingar Geirs um að Dagur fari með rangt mál og hafi vitað að byggingakostnaðurinn fór úr öllum böndum. Vísar fyrirsögnin í þá fullyrðingu.

Í næstu frétt við hliðina á mbl.is, sem er úr 24 stundum, segir í niðurlagi:
"Í hnotskurn
21. mars 2006 funduðu KSÍ og framkvæmdasvið Reykjavíkur. Þar voru lagðar fram upplýsingar um framúrkeyrslu. 3. apríl var haldinn fundur í byggingarnefnd verksins. Þar voru sömu upplýsingar ekki kynntar."
Lesendum bloggs þessa skal bent á að Dagur sat ekki fyrri fundinn og átti ekkert að sitja hann, heldur aðeins þann síðari þar sem hann var nefndarmaður.

Fyrsta fréttin er af visir.is þann 26. mars kl 11:36, þar sem eingöngu er sagt frá bréfi Geirs til núverandi borgarstjóra. Ég sá þá frétt í hádegisfréttum Stöðvar 2 og heyra má hana í fréttum Bylgjunnar frá þeim tíma. Þessi orð fréttamannsins um efni bréfsins vöktu sérstaklega athygli mína: "Þá er fjallað sérstaklega um aðkomu Dags B. Eggertssonar að málinu." Af hverju?

Visir.is bætir við frétt kl 12:58 þar sem rætt er við Dag, en sú frétt er hvorki á Bylgjunni né Stöð 2. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 er fjallað áfram um málið og þá fyrst er rætt við Dag. En fréttin er mikið til með hinni þekktu uppstillingu Geir segir, Dagur segir, Geir segir, Dagur spyr. Ég vil hins vegar að fréttamenn segi mér hvort það sem Dagur og Geir segja eigi sér stoð í gögnum, ekki bara að láta þá halda einhverju fram. Ég vil líka að fréttamaður leiti svara við spurningum sem varpað er fram, en láti þær ekki bara svífa í lausu lofti.

Mbl.is fjallar svo um málið kl 18:50 í gær undir fyrirsögninni Geir segir Dag fara með rangt mál og þá bara með tilvitnunum í bréf Geirs, en ekkert um hlið Dags. Enn hefur engin frétt birst unnin af fréttamönnum mbl.is, þar sem skoðun Dags kemur fram.

Hvaða blaðamenn ætla að skýra okkur lesendum frá því hvað stendur í fundargerðum þeirra funda þar sem Geir segir að Dagur hafi verið upplýstur um gríðarlegan kostnaðarauka framkvæmdanna?

Ef þú lesandi góður vilt vita hvað segir í Nánar í Morgunblaðinu, þá get ég sparað þér ómakið við að fletta blaðinu, öll umfjöllun Morgunblaðsins í dag er í þeirri frétt sem hlekkurinn hér að neðan vísar á. Ekkert nánar en það. 


mbl.is Segir Dag hafa vitað um kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í drottningarviðtal hjá umboðsmanni

Af hverju eru gagnrýnar spurningar taldar vísbending um væntanlegan áfellisdóm? Eru slíkar spurningar ekki kærkomið tækifæri til að skýra réttmætan málstað með óyggjandi hætti?

Ráðherran lýsir frati á spyrjandann, sem skýringu á því af hverju svör hans verða algjört frat, "hafi því takmarkaða þýðingu".

Engin furða að rætt sé um það að sparka þessum hrokagikk úr ráðherrastóli og í feita stöðu forstjóra Landsvirkjunar.

Vitiði hvern við Sunnlendingar fáum þá sem fyrsta þingmann Suðurkjördæmis? Árna Johnsen! Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn kann ekki að skammast sín.


mbl.is Ráðherra efast um hlutleysi umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú ert tryggður ...

... þá færðu það bætt! Eða hvað?

Í dómsgögnum kemur fram að: "Með bréfi 6. júlí 2007 hafnaði réttargæslustefndi Tryggingamiðstöðin hf. því að stefnandi ætti rétt til bóta úr fjölskyldutryggingu stefndu A [móðurinnar], þar sem ósannað væri að B [barnið] hefði með saknæmri háttsemi valdið tjóni stefnanda, heldur væri um að ræða óhappatilvik."

Í dómnum segir dómarinn: "Ekkert liggur fyrir um það í málinu að B hafi ætlað sér að skella hurðinni á stefnanda umrætt sinn heldur er líklegra að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinnast við skólabræður sína."

Nú er búið að dæma móðurina, f.h. barns síns, til greiðslu bóta upp á tæpar 10 milljónir og þar til viðbótar eiga eftir að bætast hellings vextir og 1 milljón í málskostnað.

Ætlar TM (Tryggingamiðstöðin) þá að greiða bæturnar eða að vitna í það að þetta hafi verið "óhappaverk" af því stúlkan hafi ekki ætlað sér að skella á kennarann?

Samkvæmt heimasíðu TM er ábyrgðartrygging innifalin í öllum þeirra heimilis- og fjölskyldutryggingum.

Rifjum nú aðeins upp slagorð TM: Ef þú ert tryggður, þá ...?
 


mbl.is Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnorkuvopnalaus í kjarnorkuvopnabandalagi?

Samrýmast lög um um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, kjarnorkuvopnastefnu NATO?

NATO er hernaðarbandalag og hefur sérstaka kjarnorkuvopnastefnu. Í þeirri stefnu felst að hernaðarbandalagið áksilur sér rétt til að eiga og nota kjarnorkuvopn. Það er hluti af hernaðarstefnunni að eiga slík vopn og hafa þau tilbúin til notknunar á ákveðnum stöðum. Hernaðarbandalagið áskilur sér líka rétt til að nota kjarnorkuvopn að fyrra bragði.

Hér er hlekkur inn á kjarnorkuvopnastefnuna eins og hún birtist á ensku á heimasíðu NATO.

Hér er hlekkur inn á frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Hér er hlekkur inná friður.is um kjarnorkuvopn og kjarnorkuafvopnun.


mbl.is Frumvarp um kjarnavopnalaust Ísland í 8. sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru það ÞESSI meðmæli?

Af hverju vék Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sæti þegar skipað var í stöðu héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands?

Af því að hann hafði skömmu áður veitt Þorsteini Davíðssyni meðmæli, þegar Þorsteinn sótti um stöðu við embætti Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu. Þá stöðu fékk Þorsteinn, en á þeim tíma sem hann sótti um, var hann aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra.

Þar sem Björn hafði veitt Þorsteini skrifleg meðmæli, varð hann þar með vanhæfur (sem í þessu tilviki á við vanhæfi en ekki vanhæfni) til að gera upp á milli umsækjenda. Því var annar ráðherra settur dómsmálaráðherra til að gera upp á milli umsækjenda í þetta sinn og skipa í dómaraembættið. Til þess valdi forsætisráðherra Árna Mathiesen.

Árni taldi það strax fram sem veigamestu ástæðu þess að hann mat Þorstein hæfari en hina umsækjendurna, gagnstætt því sem dómnefndin gerði, að hann hafi metið þyngra starf hans sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra.

Í fyrri frétt hér á mbl.is segir: ...fór Árni í dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fékk öll gögn, sem vörðuðu málið, afhent. Um var að ræða öll gögn sem á málið voru skráð, þ.e. umsóknir ásamt fylgigögnum, álit dómnefndar og önnur bréf tengd málinu og auk þess eldri umsóknir umsækjenda og fylgigögn, sem fyrir lágu í ráðuneytinu. Fram kemur í svarinu að Árni aflaði sér ekki nýrra gagna og hann leitaði ekki til meðmælenda en skrifleg meðmæli sem fyrir lágu í málinu höfðu áhrif á ákvörðun ráðherrans.

Nú spyr ég:

Hafði Árni meðmælabréf Björns um Þorstein undir höndum, eða hafði einhvern tíma lesið það?

Var það meðmælabréf meðal þeirra skriflegu meðmæla sem höfðu áhrif á ákvörðun Árna um að skipa Þorstein?


mbl.is Áhrif meðmælabréfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óákveðnir fulltrúar

"Þetta er augljóst, borðleggjandi - Vilhjálmur og sexmenningarnir eru ekki borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru fulltrúar óákveðinna kjósenda og Ólafur F situr í borgarstjórn fyrir auða og ógilda." Svo ritar einn af mínum uppáhalds bloggurum, bæjarslúðrarinn á eyjan.is.

 


mbl.is Ákvörðun síðar um borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafrannsóknir eða fiskileit

Hver er munurinn á hafransóknum og fiskileit? Liggur kannski í svarinu skýringin á því hvers vegna fiskistofnar við Ísland hafa verið að hrynja hver um annan þveran?

Ég er að reyna að rifja það upp, kannski man það einhver betur en ég, en ...

Hvenær var byrjað að kalla fiskileitarskip hafrannsóknarskip? 


mbl.is Haldið í loðnuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimavistarreglur ráðherra

Það var þá að forsætisráðherra vor rak af sér slyðruorðið og fór að halda uppi aga á liðinu.

Hann hefur legið undir ámæli fyrir að flokkurinn hans sé í tómu rugli í Reykjavík og þar þurfi formaðurinn að fara að beita húsbóndavaldi. En nú hefur forsætisráðherrann tekið á sig rögg og sýnt að hann sé þó altént húsbóndi á ráðherraheimilinu. Hér skulu menn fara að heimavistarreglunum, eða sæta viðurlögum ella. Reglurnar eru: "Menn sem ætla sér að vera ráðherrar lengi þeir skulu vinna á daginn og skrifa á daginn og hvílast á nóttunni." Viðurlög eru: Þeir sem brjóta framangreinda reglu verða reknir af heimavistinni. Nema hvað!

Ég hef það mér til afsökunar fyrir að vera að blogga svona kl 05:26, að ég er á næturvakt að hafa umsjón með heimavist.


Frábært!

Ég segi nú ekki meira, enda komið framyfir miðnætti og þá á fólk ekki að vera að blogga.
mbl.is Vilhjálmur ætlar að sitja áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spegilmynd

Af hverju er þessi hneykslan á myndinni af hálfbera karlmanninum við hliðina á virðulega klæddri konu í rútu?

Er það af því að einhver sér fyrir sér spegilmyndina, sem við eru svo vön að sjá, af virðulega klædda karlinum og léttklæddu stúlkunni?

Mér finnst það geta verið skemmtilega ögrandi að sýna okkur spegilmynd af staðalímyndum.

Annars sá ég aðra mynd, hreyfimynd, af léttklæddum pilti og kappklæddri konu, á vef hestafrétta. Og ég sem var einmitt að skoða nærfataúrvalið í búð nýlega og leita mér að góðum brjóstahaldara til að nota þegar ég er á hestbaki!


mbl.is „Fólk situr ekki bert í rútum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband