Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Biðlar á hnjánum

Fer ekki að koma tími á að Sjálfstæðisflokkurinn kaupi nýjar buxur á Vilhjálm Þ., þær hljóta að vera orðnar slitnar á hnjánum? Má örugglega færa þetta undir pólitísk útgjöld í bókhaldi flokksins.

Víða má sjá þess merki að Sjálfstæðismenn hafi skriðið á hnjánum á eftir Ólafi F., Vinstri grænum og jafnvel sumir þeirra á eftir Samfylkingunni í leit sinni að veikum hlekk í Tjarnarkvartettinum.
Svandís segir þá hafa gengið á eftir sér snemma á hundraðdagatímanum, en síðan ekki meir og Ólafur segir Sjálfstæðismenn hafa sagt sér að þeir hafi átt í "alvarlegum viðræðum" við VG einhvern tíma á þessu tímabili. Villi Vill man ekkert!

En hvað man spunakerlingin og atvinnu blaðurfulltrúinn Ómar R. Valdimarsson? Hann man a.m.k. nóg til að segja "I love to say I told you so"! Og hvað var það sem hann hafði sagt okkur? Hann vísar sjálfur í blogg sitt frá 27. nóvember s.l.: "Ætlar Ólafur F. að sprengja meirihlutann?" Þar spáir Ómar því að meirihluti borgarstjórnar verði sprengdur upp með flugeldunum um áramót og "gamli góði Villi" verði borgarstjóri á ný.

Kannski Ólafur F. geti rifjað upp hversu lengi gamli góði Villi er búinn að liggja á hnjánum fyrir framan hann?

Tókst þú lesandi góður eftir því að það var fyrst haft eftir Vilhjálmi Þ., en ekki Ólafi F., að Ólafur F. myndi koma fyrr úr veikindafríi en við hafði verið búist? Þetta var 19. nóvember á visir.is. Villi nefndi að vísu áramót, en minntist þó ekkert á væntanlega flugeldasýningu um leið.

Tókst þú lesandi góður eftir því þegar Vilhjálmur Þ. sagði í dag að Ólafur hefði leitað til hans að fyrra bragði og hann ekki haft brjóst í sér til að bjarga honum ekki úr gíslingu Tjarnarkvartettsins?

Tókst þú eftir því lesandi góður að í Kastljósi vísaði Ólafur F. á Margréti að svara því hvenær hún hafi gefið honum skýrt afsvar með að hún ætlaði ekki að styðja hann í stjórn með Sjálfstæðisflokknum? Og tókstu eftir því að hann kom sér undan að svara spurningunni um það hvenær hann hefði sagt Sjálfstæðismönnunum frá því?

"Það gerðist allt svo hratt", segir Ólafur titrandi röddu. Á einhver að trúa því að þessi borgarstjóri geti tekið yfirvegaðar ákvarðanir?


mbl.is Segir sjálfstæðismenn hafa átt í viðræðum við VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2000 kallar

Kom á fundinn með tvær töskur fullar af 2000 kr seðlum, alls 40 milljónir, segir visir.is frá.

Eru til tuttuguþúsund seðlar af 2000 kr seðlum í landinu öllu?


mbl.is Býðst til að kosta kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hrópa - bara blogga

Af hverju teljast það skrílslæti þegar heyrist í mótmælendum?

Má bara blogga?

Má bara tuða?

Mótmælaaðgerðirnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag fóru friðsamlega fram, jafnvel þótt þær hafi ekki verið samkvæmt fundarsköpum borgarstjórnar. Þær eru ekki aðför að lýðræðinu, þær eru réttmætur hluti af lýðræðinu. Þá fyrst þegar slík friðsamleg mótmæli verða brotin aftur með valdi, verður lýðræðinu ógnað.


mbl.is Mótmælendur yfirgefa Ráðhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona verður frambjóðandi til

Af hverju má kosningasjóður ekki kaupa föt á frambjóðendur?

Mega kosningasjóðir borga litgreiningu og ráðleggingu um fataval? Mega þeir borga hárgreiðslu, förðun, ljósmyndun, stílista, námskeið í framsögn og framkomu, hönnun, prentun og dreifingu á persónulegu bréfi frambjóðandans til akkúrat þín, sjónvarpsauglýsingu þar sem frambjóðandinn er kynntur, blaðaauglýsingar, plaköt með myndum af frambjóðandanum?

Leggja leikararnir til búninga í leiksýningum?

Teinótt jakkaföt í kauphöllina, gallabuxur og peysa á höfnina, þetta er okkar maður hvar sem er!
Fólk kýs þennan flokk og frambjóðendur hans af fúsum og frjálsum vilja. Sama gildir um þá sem borga í kosningasjóðina. Svo fékk stuðningsliðið það sem það bað um: Frambjóðandinn náði kjöri!

Í hita kosningabaráttunnar, þegar rétt vantar herslumuninn upp á að koma okkar manni að, sjást menn oft ekki fyrir í eyðslu og ómarkvissum aðgerðum. Mikið held ég að ýmsum kosningastjórum og frambjóðendum víða um land sé órótt núna.


mbl.is Undrandi á fjölmiðlaumræðu um fatakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvonandi þarnæsti borgarstjóri

Í frétt RÚV kemur fram að það var Vilhjálmur Þ., tilvonandi þarnæsti borgarstjóri sem lét stöðva prentunina, ekki Ólafur F., tilvonandi næsti borgarstjóri.

Á kynningarfundi hins nýmyndaða meirihluta í borgarstjórn kom fram að Vilhjálmur ætti að verða formaður borgarráðs og varaborgarstjóri meðan Ólafur væri borgarstjóri. Fór Vilhjálmur mörgum orðum um það hve náið samstarf þeirra tveggja yrði.

Það er alla vega orðið ljóst strax hvor þeirra er fyrirfram borgarstjórinn. 


mbl.is Prentun álagningarseðla fasteignagjalda stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekinn aftanfrá?

Er búið að gera þær breytingar á skipinu að alda geti ekki komið upp skutinn og drekkt skipinu ef það verður vélarvana í stórsjó?


mbl.is Sæfara miðar hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve margir lögfræðingar sitja í Hæstarétti?

Hver er munurinn á lögfræðingi og dómara?

Flestir dómar hér á landi eru kveðnir upp af einum dómara. Iss, þetta er bara álit eins lögfræðings!

Hæstaréttardómar eru oftast kveðnir upp af þremur dómurum og sex þegar mikið liggur við. Það eru þó færri en 12!

„Aðaltriðið er auðvitað það að þetta er aðeins álit 12 lögfræðinga. Það hefur ekki neitt lagalegt gildi hér á landi. Við erum ekki bundnir af þessu. Það er stóra málið," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um það álit mannréttindanefndar SÞ að kvótakerfið brjóti gegn mannréttindasáttmála SÞ. 

Þessir 12 lögfræðingar, sem lögfræðingurinn Friðrik J. Arngrímsson talar svo lítilsvirðandi um, skipa Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Íslenska ríkið er aðili að þeirri stofnun, viðurkennir málskotsrétt til hennar og tekur þátt í henni með málflutningi þar. Þótt nefndin kveði ekki upp dóm, SKAL samt taka niðurstöðu hennar alvarlega og grípa til ráðstafana sem taka mið af niðurstöðu nefndarinnar.

Hvað ætlar FJA svo að segja ef málið verður lagt fyrir alþjóðadómstól sem Ísland á aðild að og þessi úrskurður lagður þar fyrir? Iss, þetta er bara álit nokkurra lögfræðinga?!

Á það kannski að skipta máli hverra þjóðar lögfræðingarnir verða sem skipa dóminn? Þá kemst FJA á bekk með sjávarútvegsráðherranum, Einari K. Guðfinnssyni, sem telur upp á bloggsíðu sinni hverrar þjóðar hver og einn sem kváðu upp hið ægilega álit Mannréttindanefndar SÞ séu.

Á kannski að fara að meta íslenska dómara eftir því hverra manna þeir séu?


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Próf í fagmennsku

Eiga alveg sömu sjónarmið að gilda um ráðningu dómara og annarra embættismanna? 

Löggjafavaldið er kosið beint af þjóðinni í Alþingiskosningum. Framkvæmdavaldið situr í skjóli meirihluta Alþingis, sem getur sett ríkisstjórn af.

Dómsvaldið á að vera sjálfstætt, dæma eftir lögum og gera þar ekki upp á milli manna eftir neinum öðrum sjónarmiðum en skýrð verða í lögum. Við getum sett stjórnmálamenn af fyrir sérhagsmunagæsku eða aðrar ákvarðanir þeirra sem okkur mislíkar. Við kjósum ekki dómara og verðum því að setja leikreglur, megum kalla það faglega ferla, sem tryggja eins vel og kostur er að dómarar séu valdir sem óhlutdrægir fagmenn.

Við viljum búa við þrískiptingu ríkisvalds í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Þegar fulltrúi framkvæmdavaldsins, dómsmálaráðherra, skipar dómara, þarf að reyna að búa svo um hnúta að val hans á dómurum sé faglegt og hlutlægt, en ekki pólitískt eða persónulegt. Þess vegna er nefnd fagmanna sem skilar faglegu áliti á umsækjendum um dómarastöður. Þegar hún skilar þeirri niðurstöðu að þrír séu langhæfastir, er eðlilegt að ráðherra velji úr þeim hópi. Þegar hann gerir það ekki og skipar mann sem metinn var lægra í hæfi og er þar að auki úr pólitískum innsta hring, þá þarf veigamikil rök til þess og þau hefur Árni Mathiesen einfaldlega ekki fært fram.

Skipan æðstu embættismanna á líka að vera fagleg, en þar getur ráðherra samt verið að leita eftir fleiru en faglegri menntun, t.d. stefnu og framtíðarsýn hins nýja embættismanns. Það eru þau rök sem Össur lagði m.a. fram um skipanir sínar á nýjum orkumálastjóra og ferðamálastjóra. Ég tek undir þær röksemdir og er sátt við skipanir hans í þessi embætti. Ég vil t.d. sjá nýja sýn í orkumálum þjóðarinnar. Og ég vil líka sjá meiri áherslu á náttúru og umhverfisvernd í ferðaþjónustunni. 

Fagmennska er fleira en próf, en stjórnmálamenn mega samt ekki falla á prófinu í fagmennsku. 

Svo, 24 stundum seinna, er Össur farinn að vorkenna Davíðssyninum og verja Árna Matt! Æ, hann Össur minn hugsar með hjartanu. En sem ráðherra og framámaður í stjórnmálaflokki, má hann gjarnan hugsa sig tvisvar um og hleypa seinni umferðinni í gegnum rökvísina áður en hann sleppir henni út.

Sem stjórnmálamaður í eldlínu oft harðvítugra stjórnmálaátaka, hugsar hann eðlilega til afleiðinga þess á saklaus börn sín. En Þorsteinn Davíðsson er ekkert barn og á eigin pólitíska feril að baki. Svo beinist gagnrýni mjög margra málefnalega að gerðinni en ekki einstaklingnum.

Hins vegar, þegar ráðherrann fer að rugla svona og bera blak af pólitísku eða bara einfaldlega persónulegu vinavali annars ráðherra, gerir hann nýskipuðum embættismönnum sínum þann óleik að vekja upp grunsemdir um að hans eigin ráðningar hafi ekki verið svo faglegar sem hann sagði sjálfur, fyrst honum finnst ætterni og kunningsskapur vera ásættanlegar afsakanir í embættisveitingum.

Æ, Össur minn, ég hélt að litli fingur hægri handar væri vandamálið hjá þér, að hann ýtti of fljótt á Enter!


mbl.is Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur leitt til vanhæfni

Bendi á grein sem Helga Vala Helgadóttir laganemi skrifar á eyjan.is. Þar bendir hún á að ef dómari er valinn á umdeildum grundvelli og ráðherran telur þar fram sem helstu rök fyrir vali sínu að umsækjandinn hafi starfað sem pólitískur ráðgjafi ráðherra, þá geti það leitt til þess að dómarinn verði talinn vanhæfur í málum sem varða hagsmuni ríkisins og þá ekki síst í pólitískum áltamálum.

Við Héraðsdóm Norðurlands Eystra og við Héraðsdóm Austurlands má á næstunni búast við þónokkrum málum sem varða hagsmuni ríkisins í hápólitískum ágreiningsmálum þar sem eru bótakröfur vegna virkjanaframkvæmda. Megum við eiga von á því að lögmenn geri kröfu um að hinn nýi dómari víki í slíkum málum af því að hann hafi verið skipaður á pólitískum forsendum?


mbl.is Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég ætti hatt ...

... myndi ég taka hann ofan fyrir þeim Erni og Erlingi!

Nú verður kvótakerfinu vonandi breytt og það þótt fyrr hefði verið.

Fyrst þegar kvótakerfið var settt, var því auðvitað lýst yfir að þarna væri ekki verið að gefa þáverandi útgerðarmönnum allan veiðrétt við landið.

Svo komu bankarnir og fóru að taka veð í kvótanum, fyrst í formi aukinnar veðhæfni báta með kvóta en kvótalausra, sumsé ekki veð í efnislegum hlut eins og bíl, heldur í atvinnuréttindunum.

Svo fóru útgerðarmenn að kaupa og selja og leigja þennan kvóta sín í milli, en allan tímann þurftu þeir sem upphaflega fengu hann ekki að borga neitt fyrir það sem þeir síðan seldu.

Afleiðingarnar urðu þær að útgerðamenn um land allt gátu selt undirstöðuatvinnugreinar úr heilu byggðarlögunum, án þess að sjómenn eða fiskvinnslufólk eða nokkur annar í byggðinni gæti rönd við reist.

Kvótakerfið er ekki bara umdeilanlegt veiðistjórnunarkerfi, það breyttist líka í hreint rán frá þjóðinni og mikið óréttlæti.

Vonandi hefur Alþingi kjark til að breyta kvótakerfinu. Svo mikið er víst að ekki bætir sjávarútvegsráðherrann það ótilneyddur.


mbl.is Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband