Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Uppsögn

Hér með segi ég upp áskrift minni að Morgunblaðinu og hætti að nota Moggabloggið.

Ég vil ekki greiða fyrir pólitískt málgagn Davíðs Oddssonar og félaga.

Þar sem ég greiði ekki lengur fyrir afnot af Morgunblaðinu, finnst mér eðlilegt að ég hætti að nota endurgjaldslaust blogg á mbl.is.

 Takk fyrir mig.

Ofanritaðan texta sendi ég á askrift@mbl.is.

 


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarahagnaður

Verðtrygging lána og fleiri fjármálagjörninga, svo vitlaus sem hún var í upphafi, hefur nú slegið út úr öllum skölum og römmum sem henni voru ætlaðar. Mæling hennar nú er jafn vitlaus og jarðskjálftamælarnir á Suðurlandi í stóru jarðskjálftunum sumarið 2000, sem slógu svo rækilega út að nota þurfti jarðskjálftamæla í Kanada til að greina stærð og upptök skjálftanna.

Verðtryggingin var sett sem meint skynsöm skammtímalausn á verðbólguvanda, en framtíðarlausnin látin bíða sem síðari tíma vandamál. Og vandamál er hún.

Hugmyndafræði verðtryggingarinnar var að halda verðgildi fjármálalegra gjörninga. Í fyrstu náði hún til launa, lána og leigusamninga. Fyrst var hún afnumin af laununum, enda reyndist hún óstöðvandi hringekja víxlhækkana launa og verðlags. Svo var hún afnumin af skammtímalánum eftir að verðbólga minnkaði, en háir vextir notaðir í staðinn. Hún sat hins vegar sem fastast á langtímalánum, því langtíma vandi þeirra varð aldrei að brennheitum skammtímavanda, menn þraukuðu og borguðu. “Það er vont en það venst”, er kjörorð verðtryggingarfræðinnar.

Þegar allt heila efnahagskerfi landsins hrynur, gjaldmiðillinn týnir verðgildi sínu, fasteignaverð lækkar og fer lækkandi, atvinnutekjur minnka og verðlag rýkur upp, þá verður vísitölumælingin út í hött. Að slemba fingrinum á einhvern stað á grafi vísitölumælisins sem sló út og ætla að nota hann sem grunn að uppreikningi höfustóls lána til framtíðar, slær út skalann fyrir út í hött. Hér varð efnahagslegt kerfishrun, verðtryggingarkerfið hrundi með því!

Bankarnir sem lánuðu eru allir farnir á hausinn og munu ekki standa við fjármögnunarsamninga sína gagnvart lánveitendum til þeirra, engir útreikningar á íslenskum íbúðalánum fá því breytt.

Veðin sem lánað var út á, húsnæðisveðin, hafa lækkað í verði og er spáð enn frekari verðlækkun.

Meðaltekjur lántakenda hafa lækkað og önnur greiðslubyrði þeirra hækkað með hækkuðu verðlagi.

Forsendur lánveitingar íbúðalánanna, greiðslumat lántakanna og verðmæti veðanna, hefur brostið og þar er ekki vanefndum einstakra lántakenda um að kenna.

Verðgildi gjaldmiðilsins er uppspuni í Seðlabanka Íslands frá degi til dags.

Grunnur útreikninga verðtryggingar á lánunum er farinn í helvítis fokking fokk. Lánskjaravísitalan er hrofin út við sjóndeildarhring.

Þeir útreikningar sem nú eru notaðir til hækkunar höfuðstóls verðtryggðra lána, eru ósvífin tilraun til að hagnast á hamförum íslensks efnahagskerfis.

Þess vegna þarf að og á að endurreikna áfallnar “verðbætur” á lánum nokkra mánuði aftur í tímann. Öllum. Hver niðurstaða slíks útreikings á að verða, met ég ekki hér. Fyrst er að samþykkja að þessi endurreikningur þurfi að eiga sér stað og leiðrétting í kjölfar hans. Svo er að ákveða hvernig.

Þar til viðbótar mun þurfa sértæk úrræði fyrir suma þá sem verst hafa farið út úr efnahagshruninu.

Núverandi útreikningur og framkvæmd á verðtryggingu lána er ekkert annað en hamfarahagnaður fjármagnseigenda.


mbl.is Er lausnin fólgin í fasteignafélögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hefði samið betur

Icesavesamningarnir eru ekkert flóknir. Því hef ég ákveðið að útskýra þá hér á máli sem hver fullorðinn Íslendingur skilur. Ég útskýri forsendurnar, hvað um var samið og svo bendi ég á það sem betur hefði mátt fara.

1. Ísland á að borga!

1.1. Íslenski innlánstryggingasjóðurinn og íslenska ríkið vegna hans, bera fulla ábyrgð á endurgreiðslu út af innlánsreikningum Landsbankans, allt að 20.887 evrum á hverjum reikningi. Fyrir þessu eru lagaleg rök, sem eru t.d. skýrt rakin í grein Hróbjarts Jónatanssonar hrl í Morgunblaðinu.

1.2. Fari ágreiningur um greiðsluskylduna fyrir dómstól, hvort heldur er á Íslandi eða annars staðar í Evrópu, þá mun íslenska ríkið verða dæmt þar til greiðslu ábyrgðar, þ.e. tapa málinu. Sjá fyrri tilvitnun.

1.3. Tapi íslenska ríkið málinu, mun það annað hvort þurfa að greiða reikninginn strax, eða semja um greiðslu hans. Þá stendur Icesave-skuldbindingin aftur á byrjunarreit. Auk þess mun verulegur málskostnaður hafa bæst við.

1.4. Að þessarri niðurstöðu komust íslensk stjórnvöld og út frá þeim gekk íslenska samninganefndin. Þess vegna rengdi hún aldrei grunnupphæðina.

1.5. Íslenski innlánstryggingasjóðurinn átti ekki fyrir skuldbindingum sínum og það hefði reynst íslenska ríkinu mjög erfitt að snara þessum greiðslum fram. Þess vegna var ákveðið að semja um greiðslur Icesave-skuldbinganna við hollensku og bresku kröfuhafana. Ekki að semja um hvort, heldur um hvernig.

1.6. Breskir og hollenskir innlánstryggingasjóðir höfðu tekið yfir kröfur allra einstakra innleggjenda í þeim löndum og því var við tvo viðsemjendur að ræða en ekki hátt í fjögurhundruðþúsund.

2. Hvernig á að skipa samninganefnd?

2.1. Samninganefnd samanstendur af öllu í senn, viðræðunefnd, stærri baknefnd, aðstoðarmönnum og sérfræðingum um einstök álitamál.

2.2. Sérfræðingar um einstök álitamál, telja sig oft best til þess fallna að leysa mál sem snertir þeirra svið, en yfirsést mikilvægi annara sviða sem snerta sama mál. Fyrir því er m.a. dæmi í niðurlagi tilvitnunarinnar í 1.1.

2.3. Samninganefnd þarf að gera sér grein fyrir því hvað er umsemjanlegt og hvað ekki og svo hvað sé mikilvægara og hvað léttvægara í því sem umsemjanlegt er. Þar á meðal verður hún að gera sér grein fyrir því að ekki verður hægt að halda fram lagarökum sem eiga sér ekki lagalega stoð. Hins vegar er hægt að teygja sig með ýmsum öðrum rökum, þess vegna er verið að semja.

2.4. Mikilvægast er að samninganefnd sé fær um að ljúka samningum. Til mats á því hvenær sé nóg komið er lagt það grundvallaratriði að vega saman það sem náðst hefur og svo tilkostnað á móti ávinningi af því sem enn er hugsanlegt að ná.

2.5. Afar óraunhæft er að ætla samninganefnd að ná fram öllu því sem hún gæti fræðilega náð fram á lengri tíma. Þá er enn ótalið það sem óraunhæft er að hún nái nokkurn tíma fram, hvernig sem reynt er.

3. Um hvað er samið?

3.1. Semja þarf um: a) lánstíma, b) vexti, c) dreifingu greiðslnanna, d) tryggingu fyrir fullnustu greiðslnanna. Þetta kunna allir sem einhverntíma hafa tekið lán.

3.2. Langur lánstími léttir greiðslubyrði afborgana, en þyngir heildar greiðslur, því á þær safnast vextir. Samið var um 15 ára lánstíma.

3.3. Vaxtakjör ráðast af þeim vöxtum sem í boði eru á þeim tíma sem lánið er tekið og möguleikum lántakans til að taka lán annars staðar. Samið var um 5,5% vexti og hafa íslenska ríkinu ekki boðist hagstæðari vextir annars staðar, sem er skjalfest því íslenska ríkið hefur á sama tíma verið að semja um lán annars staðar.

3.4. Afborganir lánsins dreifast þannig að fyrstu 7 árin eru afborgunarfrjálsar, þ.e. hvorki þarf að borga af höfuðstól né vöxtum á þeim tíma, en eftir það verður höfuðstól með áföllnum vöxtum deilt niður á 8 ár með ársfjórðungslegum afborgunum. Á fyrstu 7 árunum má borga inn á höfuðstólinn eftir því sem efni verða til og lækkar þá vaxtaberandi höfðustóll eftir því.
Reiknað er með að til þessarra afborgana fari það sem inn kemur af eignum Landsbankans, en þær falla til við innheimtur af skuldabréfum og sölu eigna.
Þessi sjö ára frestun á beinum framlögum ríkisins til greiðslu afborgana, er mjög mikilvæg. Því á þeim tíma ætti íslenska ríkinu, ef vel er á haldið, að hafa tekist að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið og vera í stakk búið til að mæta skuldbindingum sínum.
Þar að auki er líklegt að á þessu tímabili takist að ná því hæsta verði út úr eignum Landsbankans, sem á annað borð er hægt að ná.

3.5. Íslenska ríkið semur um lánið og Alþingi Íslendinga, sem fer með fjárveitingavaldið á Íslandi, samþykkir því ríkisábyrgð á því. Þar að auki er samið um að það sem fæst út úr eignum hins fallna Landsbanka, gangi til greiðslu krafna innistæðueigenda.

4. Fyrivarar

4.1. Í samningnum er fyrirvari um að hægt sé að skoða málið að nýju eftir 7 ár, þegar afborganir eigi að hefjast. Deilt hefur verið á að ákvæðið sé ekki afgerandi varðandi það hvað þurfi til að endursemja um afborganirnar og hvað í því þurfi að felast.
Ég túlka þetta ákvæði sem svo að í stað þess að vera með getgátur um framtíðina, verði málið eftirlátið þáverandi stjórnvöldum. Megin línurnar eru lagðar. Vilji annar aðilinn endursemja þarna, þá verður hann að færa fyrir því góð rök og vona að hinn aðilinn taki rökum. Rétt eins og fyrri daginn.
Tel ég að endurskoðunarákvæðið sé hvorki tryggara né ótryggara en spár um lífsins ólgusjó að sjö árum liðnum.

4.2. Alþingi Íslendinga, sem hefur reynslu af íslenskri fjárlagagerð og íslenskri pólitík, leggur sjálfstætt mat á það hvernig það geti ábyrgst greiðslurnar.

4.3. Á að krefjast þess að Bertar og Hollendingar hafi meðaumkun með okkur ef á þeim tíma verður Bjarni Benediktsson orðinn forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fjármálaráðherra og Tryggvi Þór Herbertsson efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar? Hver ætlar að bera upp þá hugmynd í endurupptöku samningaviðræðnanna?

4.4. Á að krefjast þess að Ísland þurfi ekki að borga eftirstöðvarnar, nema sem hluta af hagvexti á Íslandi á þeim tíma, eins og Pétur Blöndal lagði til í Kastljósi? Hvað þá með viðmið við hagvöxt í Bretlandi og Hollandi?

4.5. Á að krefjast viðmiðs um hversu ríkt Ísland megi vera, í samanburði við nágrannalönd,til að þurfa að efna samninginn? Ertu með tillögu um viðmið sem aðrir geti sætt sig við?

4.6. Á að krefjast þess að til þess að Ísland þurfi að efna samninginn, þá megi lífskjör í landinu ekki hafa lækkað um eitthvað tiltekið frá því sem var á meðan við lifðum í góðærinu margrómaða? Hvaða viðmið?

Svona hefði ég samið:

1. Íslenska ríkið ábyrgist greiðslur innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og í Hollandi, allt að upphæð 20.887 evrur, eftir innistæðum á hverjum reikningi.
2. Íslenska ríkið samþykkir að taka til þess lán hjá innistæðutrygingasjóðum breska og hollenska ríkisins.
3. Lánstíminn er 15 ár.
4. Vextir eru 5,5%.
5. Lánið ber strax vexti, en er afborganalaust fyrstu 7 árin. Að því loknu verður höfuðstól með áföllnum vöxtum deilt niður á ársfjórðunglegar afborganir til 8 ára.
6. Heimilt er að greiða inn á lánið á fyrstu sjö árunum og lækkar vaxtaberandi höfuðstóll sem því nemur hverju sinni.
7. Endurskoða skal samninginn að sjö árum liðnum. Hafi Íslendingar þá kosið yfir sig ræningjaflokka og sápukúluhagfræðinga, veðsett óveiddan fisk í sjónum og niðurgreitt orku til erlendra auðhringa, þá er óskað eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beiti hernaðaríhlutun til að frelsa þjóðina undan sjálfri sér.

Af þessu má sjá að ég hefði samið betur!


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumastjórn í vökulandi

Er núverandi ríkisstjórn við það að springa eftir fáeina daga? Hvað tekur við ef svo fer? Þá verður um tvennt að velja, nýja ríkisstjórn byggða á núverandi þinglið, eða nýjar þingkosningar í október.

Lítum fyrst á nýjan stjórnarmeirihluta. Skipting þingsæta er:
Samfylking 20
Vinstrigræn 14
Sjálfstæðisflokkur 16
Framsóknarflokkur 9
Borgarahreyfing 4
Samtals 63

Borgarahreyfingin er í rugli og enginn mun treysta á hana í ríkisstjórn. Hún er því ekki talin með í hugmyndum um þriggja flokka stjórnarmöguleika.
Vinstrigræn geta ekki myndað tveggja flokka meirihluta með neinum nema Samfylkingu, en gætu stærðfræðilega verið í hverskonar þriggja flokka stjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn getur heldur ekki myndað tveggja flokka meirihluta með neinum nema Samfylkingu, en gætu verið í hverskonar þriggja flokka stjórn.
Framsóknarflokkurinn getur ekki verið í minna en þriggja flokka stjórn.
Samfylking getur myndað tveggja flokka meirihluta með hvort heldur er VG eða Sjálfstæðisflokki og verið í hverskonar þriggja fokka stjórn.
Svo er svokölluð þjóðstjórn, eða öllu heldur þverflokkastjórn, en hún er skipuð öllum flokkum og fer meirihluti og minnihluti þá eftir einstaklingum en ekki flokkslínum.

Við skulum skoða raunhæfa möguleika á nýrri ríkisstjórn úr þessum potti, en lítum fyrst á kosningaleiðina.

Fyrsta vinstristjórn Íslandssögunnar mun þá hafa náð innan við hálfu ári. Með því að springa, er verið að senda þau skýru skilaboð að slík stjórn sé ekki volkostur. Enda, af hverju ættu þessir flokkar að ná saman aftur eftir kosningar? Hvaða sameiginlegu úrlausnum eru þeir að sækja umboð til að hrinda í framkvæmd?

Gömlu valdaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, munu ná völdum á ný, eftir að hafa í fyrsta sinn í sögunni verið báðir utan ríkisstjórnar í tæpt hálft ár. Alla daga íslenska lýðveldisins fram að því, - og reyndar fyrr, hafa þeir skipt með sér völdum í landinu, pólitískum og efnahagslegum, í ríkisstjórn, í embættismannakerfi, í valdablokkum atvinnulífsins og í aðgangi að kjötkötlum hermangs og einkavinavæðingar. Bandalag þeirra heldur, hvort sem þeir eru báðir eða annar í ríkisstjórnar. Sá þeirra sem er innan ríkisstjórnar hverju sinni sér til þess að ekki verði gengið um of á hlut hins. Þeir munu ekki unna sér hvíldar, fyrr en þeir verða komnir að kjötkötlunum aftur.

Þessir flokkar eru þegar búnir að velja sér nýja formenn og setja hreina bleiu á bossana á þeim. Nú munu þeir setja fram stefnuskrár um endurreisn lands og þjóðar, sem yfirbýður svo glæsilega í áætlunum að annað eins hefur ekki sést frá endurreisn þýska ríkisins á fjórða áratug síðustu aldar. Þeir munu höfða til særðs stolts þjóðarinnar og eftirsjá hennar vegna nýhorfins góðæris. Ekki verður nokkur þörf á að setja fram raunhæfar áætlanir, enda þjóðin búin að fá sig fullsadda af raunsæisrausi undangengna mánuði. Fólk er samt ekki algjör fífl og því verður ekki hægt að segja þjóðinni að þetta verði sársaukalaust. En, því verður lofað að þjóðin muni aðeins þurfa að æpa eitt "Æ" á meðan góði læknirinn rífur plásturinn af, svo kyssir hann á báttið og sárið verður gróið!

Heldur einhver að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur geti ekki sett saman söluhæfan kosningapakka handa þjóðinni? Heldur einhver að sá pakki verði þá ekki keyptur? Enda, hvað ætla félagshyggjuflokkarnir að setja í sína pakka? Raunsæi? Og með hverju ætla þeir að skreyta þá? Sultaról?

Líklegast er að þingkosningar í október kæmu gömlu valdaflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki aftur til valda. Báðum.

Skoðum þá betur möguleika á nýrri ríkisstjórn án nýrra kosninga.

Ef ný ríkisstjórn verður mynduð úr núverandi þinglið, þá verður hún með þátttöku annarra eða beggja gömlu valdaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Raunhæfir möguleikar eru: Samfylking + Sjálfstæðisflokkur eða "þjóðstjórn".

Sjálfstæðisflokkur + Samfylking:

Fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átti að ná mjúkri lendingu eftir efnahagslega þenslu, sem vitað var að gengin var til enda, þótt endann sjálfan sæju menn ekki fyrir. Hugmyndin byggði á "þjóðarsáttarsamningum" en það heiti hefur verið notað um samstarf samtaka atvinnurekenda og launþega, SA og ASÍ, hið sanna "stétt með stétt". Hugmyndafræði þessi sagði að hvorki auðvaldið né alþýðan næðu árangri ef þau væru alltaf að berjast hvort gegn öðru, hvort um sig kæmi í veg fyrir árangur hins, nær væri að þau sýndu hvort öðru tillitssemi, báðum í hag. Þannig fengi auðvaldið að græða á daginn og alþýðan að grilla á kvöldin. Að vísu þyrfti alþýðan að fá yfirdráttarlán í banka auðvaldsins til að borga Vísareikninginn fyrir grillinu, en veltum okkur ekki upp úr því.

Vitað er að sterk öfl í röðum atvinnulífsins mæna vonaraugum á endurnýjað samstarf þessara flokka. Þeir umbera ábyrgðarlaust gaspur þingmanna Sjálfstæðisflokksins meðan þeir eygja þá von að með því takist að draga kjarkinn svo úr einstaka stjórnarþingmönnum að stjórnin springi. En þegar ný ríkisstjórn tekur við, með þátttöku Flokksins, þá verður ekkert gaspur liðið lengur. Þessir aðilar vilja hafa vinstriflokka með í stjórn til að tryggja frið á vinnumarkaði. Þeir hafa líka lært það af reynslunni að Sjálfstæðisflokkur + Framsóknarflokkur, án samstarfs við vinstriflokk, leiðir til hömlulauss gróðafyllerís með harkalegum timburmönnum á eftir. "Þjóðstjórn" eða þverflokkastjórn uppfyllir þessi óska skilyrði.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu hvorki fara í "þjóðstjórn" né nokkra aðra ríkisstjórn, nema til þess að tryggja þau öfl sem þeir eru pólitískur armur fyrir. Þeir fara ekki í ríkisstjórn bara til þess að bjarga þjóðinni! Hvorki nú eða síðar.

Nú ramba Vinstrigræn á barmi klofnings. Flokkurinn hefur ekki styrk innan þingliðs síns til að taka erfiðar ákvarðanir. Hann hefur hvorki sameiginlega sýn á það hvaða erfiðu ákvarðanir þurfi að taka né hvernig. Stór hluti þingmanna þeirra er upptendraður af því að vera kominn inn á Alþingi til að standa við persónulega sannfæringu sína. Þeir eru bakkaðir upp af fjölda liðsmanna sinna sem telja það æðra að halda fram réttlæti en að ná fram endurbótum. Jafnvel þótt með því uppskerir þú hvorugt. Þar skilur sko á milli þeirra og kratanna!

Í Samfylkingunni hugnast mönnum alls ekki að endurnýja stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. En, það er kominn fram mikill þrýstingur á flokkinn að gera það samt, annað hvort í tveggja flokka stjórn eða í þverflokkastjórn. Þetta er afar vondur kostur, því hann kemur gömlu spilltu valdaflokkunum aftur til valda. Þeim völdum fylgja áhrif. Áhrif til að gera ekki upp við kollsteypu samfélagsins sem skyldi og áhrif til að láta ekki valda menn sæta ábyrgð. Einnig áhrif til að koma í veg fyrir róttækrar breytingar á samfélaginu, breytingar sem gætu tekið samfélagslega velferð fram yfir einkahagsmuni og græðgi.

Geti vinstristjórnin ekki leyst vandamálin nú, er hún óstarfhæf og fellur þar með. Þá verður engin vinstristjórn meir. Alla vega ekki næstu allmörg ár.

Það ræðst í alvöru á  allra næstu dögum hvort þessi ríkisstjórn stendur eða fellur!

Vilji Vinstrigræn og Samfylkingin aðeins segja okkur sögur um réttlátt þjóðfélag, geta þau eftirlátið auðvaldsflokkunum völdin og haldið áfram að segja okkur sögur fyrir svefninn.

Vilji Vinstrigræn og Samfylkingin byggja réttlátt þjóðfélag, skulu þau leysa þau vandamál sem staðið er frammifyrir núna og sýna okkur framkvæmdaáætlun sem dugar vakandi fólki.

Við búum í vökulandi en ekki í draumalandi.

 


mbl.is Efast um alvöru þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þvottahússbókin?

Af hverju finnst mér alltaf áhugaverðast að lesa það sem ekki er skráð og að hlusta á það sem ekki er sagt? Af því að það segir svo mikla sögu.

Við lausn ráðgátu er alltof oft einblínt á það sem sést og heyrist. Lítur þetta ekki alltsaman eðlilega út og hljómar skynsamlega?

Leitaðu að því sem er ekki á myndinni, en ætti að vera þar! Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar grunur er um að ekki sé allt sem sýnist.

Þótt margt sé áhugavert í hinni heimsfrægu Lánabók Kaupþings, þá finnst mér samt áhugaverðast það sem ekki er þar.

Fyrir það fyrsta er þetta ekki yfirlit yfir lánveitingar sem verið var að samþykkja á fundinum. Þetta er yfirlit yfir lánastöðu þeirra aðila sem voru með lán yfir 45 milljónir evra. Þessar lánveitingar eru mis gamlar. Þetta er því ekki vitnisbók um lánveitingar Kaupþings síðasta hálfa mánuðinn fyrir hrun bankans.

Ég sé hvenær skýrslan er dagsett, en þykir áhugaverðara að fá að vita hvenær hún var tekin saman og enn áhugaverðara hvort hún hafi sýnt alla nýjustu gjörninga í þessum verðflokki. 

Eftir fundinn og væntanlega líka á fundinum, var gripið til margvíslegra aðgerða, sem væri mjög áhugavert að vita um. T.d. hefur komið fram, annars staðar, að á þessum sama degi var ákveðið að fella formlega niður sjálfsábyrgðir starfsmanna á lánum til hlutafjárkaupa í bankanum.

Í sjónvarpsfréttinni, sem allt uppþotið varð út af, var sagt að eftir fund þennan hafi átt sér stað miklar tilfærslur á lánum, ábyrgðum og veðum tengdra aðila, niðurfellingar og ný lán. Ég bíð spennt eftir þeim fréttum. Ég held nefnilega að lögbannið hafi verið tilraun til að þagga niður framhaldið. Hitt var komið á netið.

Skyldi Deutche Bank þykja fengur að Lánabókinni?

Hvað með öðruvísi lánasamninga, sem ekki fara í lánabókina? Þar á ég við svokallaða framvirka samninga með gjaldeyri og skuldabréf, en slíkir gjörningar voru uppistaðan í fléttunni þar sem ríkur sjeik frá Katar keypti vænan hlut í Kaupþingi sér að kostnaðarlausu.

Nú er ég bara að tala um atriði sem tengjast Lánabókinni en eru ekki í henni.

Svo eru það öll hin málin sem tengjast ekki Lánabókinni og eru ekki síður áhugaverð. T.d. fjárfestingar Kaupþings. Í hvaða ævintýrum fjárfestu þessir snillingar?

Af mestum áhuga býð ég samt eftir Þvottahússbók Kaupþings.


mbl.is Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn flótti án Icesave?

Ef við gerum eins og formaður Framsóknarflokksins leggur til og semjum ekkert um Icesave, verður þá enginn fólksflótti frá Íslandi vegna kreppunnar. Eða verður þá engin kreppa á Íslandi? Þurfum við þá bara að fylgja restinni af ráðum Framsóknarflokksins og þá verður okkur líka bætt tjónið af bankahruninu og allt verður gott eins og áður?

Ég hef ekki unniíð í lottóinu hingað til, svo nú hlýtur að koma að því. Ráð Framsóknarflokksins hafa ekki gagnast þjóðinni hingað til, svo nú hlýtur að vera komið að því!

Að ógleymdum ráðum Sjálfstæðisflokksins. Eigum við að fara að ráðum aðalhugmyndafræðingsins Hannesar Hólmsteins og aðal framkvæmdastjóra þeirrar sömu hugmyndafræði Davíðs Odddssonar? Eða eigum við að trúa nýskeinda formanninum með hreinu bleiuna á bossanum? Hann hlýtur að hafa séð í gegnum frjálshyggjuna, hafi hann ekki séð ljósið og innbyggt óréttlæti kapítalismans, þá hefur hann allavega séð ljósið og þörfina á ströngu ríkisaðhaldi með framkvæmd kapítalismans!

Auðvitað verður erfiðara að ráða við afleiðingar hruns íslenska efnahagskerfisins ef fólksflótti brestur á frá landinu, með minni þjóðarframleiðslu. Stóra spurningin er hvaða leiðir verða helst til þess að draga mest úr því tjóni sem bófarnir og hinni pólitíski armur bófafélagsins hefur nú þegar valdið þjóðinni og hvaða leiðir duga best til að efla efnahag landsins aftur.

Það er ekkert flókin stærðfræði að reikna út kostnað við að greiða skuldbindingar vegna Icesave út frá mismunandi forsendum um endurheimt eigna Landsbankans, vexti, forgangsröð krafna, gengisbreytingar gjaldmiðla og fleira. Reiknivélin getur hins vegar engu spáð um það hvaða samningum sé hægt að ná, aðeins hvað mismunandi samningar myndu kosta. Þar á ofan nær engin reiknivél yfir það hvað gerist ef Ísland semur ekki um Icesave. Það er nefnilega pólitík en ekki stærðfræði.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins var að segja í sjónvarpsfréttum áðan að Icesavesamningurinn muni kosta lífskjaraskerðingu á Íslandi og því hættu á fólksflótta. Ráðherra Samfylkingarinnar sagði í sama fréttatíma að enginn mannlegur máttur geti sett tilveruna á rewind og afmáð tjónið af bankahruninu, við munum aldrei fá það bætt að fullu og það muni kosta lífskjaraskerðingu að byggja upp á ný. Erum við svo illa stödd að við þolum ekki lífskjaraskerðingu frá því er hæst lét? Verður nokkrum meint af því þótt lífskjör fari aftur til þess tíma sem var fyrir 5 árum, 10 árum, 15 árum? Var Ísland þá á vonarvöl? Getum við ekki hugsað okkur að byggja upp frá þeim tímapunkti? Og það jafnvel skynsamlegar en síðast!

Staðreyndin er að við munum verða fyrir lífskjaraskerðingu frá því sem best lét, meðan við erum að vinna okkur upp úr Hruninu, pakkinn er  miklu stærri en Icesave eitt. Það er ómerkileg pólitík að reyna að telja fólki trú um að kostnaðurinn við Icesave skipti hér úrslitum.

Íslendingar eru löngu komnir út úr þeim tíma að stunda sjálfsþurftarbúskap. Núverandi lífskjör og lífskjör okkar til framtíðar byggjast að verulegu leyti á stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu, útlfutningi, innflutnigni og erlendri lánafyrirgreiðslu. Mistakist okkur þar, þá má reyna að búa til reiknivél sem spáir fyrir um það hve margir henda ferðatöskunni og ákveða að taka upp íslenskan sjálfsþurftarbúskap.

Kannski er einhver til í að taka smá exelæfingar fyrir næsta samkvæmisleik: Dear Icesave - FOCKYOU - Yours truly - Iceland! Þá getum við dundað okkur við bjartsýnisspár og svartsýnisspár um afleiðingarnar. Hvað ef Ísland fær svo og svo mikið/lítið  í gjaldeyrislán frá AGS o.fl.? Hverjir verða þá vextirnir á erlendum lánum? Hverjir verða þá vextirnir á innlendum lánum? Hvernig verður þá endurfjármögnun Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja? Fá þeir lán og hvað kosta þau þá? Hvernig verður með endurfjármögnun stórra innlendra fyrirtækja? Eða fjármögnun íbúðalánasjóðs? Eða bara möguleika þína á að fá bankalán? Hvað verður um lífeyrissjóðina?

Áttu ekki ennþá spjaldið með HELVÍTIS FOKKING FOKK!?


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskur útrásarvíkingur

Hið sanna víkingaeðli norrænna þjóða lætur ekki að sér hæða. Að vísu hafa íslenskir hernaðarandstæðingar nær rústað mannorði íslenskra víkinga, svo við höfum ekkert herlið til að státa okkur af, jafnvel ekki þrátt fyrir góða tilburði Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar, að ógleymdum Birni hermálaráðherra þeirra.

En, Anders Fogh Rasmussen heldur uppi heiðri norrænna víkinga. Hann lét ekki sitja við orðin tóm í stuðningi sínum við Íraksstríðið, heludr sendi danska hermenn til þátttöku í því líka. Nú er þessi víkingur tekinn við stöðu framkvæmdastjóra Alantshafsbandalagsins, NATO. "Hann segir að málefni Afganistan verði hans aðalverkefni í starfi."

Þegar íslenskir útrasarvíkingar með kreditkort að vopni eru að lympast niður, sveiflar danski útrásarvíkingurinn byssunni.

Orðspor deyr aldregi hveim sér góðan getur.


mbl.is Fogh Rasmussen mættur til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna að meta verklegar framkvæmdir

Oft leynist sitthvað athyglisvert í smáletrinu. Líka í smáaletri Lánabókar Kaupþings. Þar segir um einn lánþeganna, verktakafyrirtæki nokkurt,undir liðnum Áhættuþættir:

Risk Factors
The construction sector has been under some pressure, especially the residental part of it. Declining sales, inventory build-up in high intrest rate environment, high inflation environment and ISV instability. Rising constuction prices are hard to push into price of residental properties that sell badly to begin with. ÍAV's project pipeline in tender projects is on the other hand very strong and on that side rising costs are pushed onto the client wich are many governmental and minicipal institutions and organisations.

Feitletranir eru mínar. Þar er greint frá því að erfitt sé að velta hækkuðum framkvæmdakostnaði inn í verð íbúðarhúsnæðis um þessar mundir. En, á hinn bóginn vill svo vel til að verktakafyrirtækið skiptir mikið við samtök og stofnanir ríkis og sveitarfélaga og í þeim geira sé verðhækkunum troðið oní kok viðskiptavinanna.

Nú, nú, svo er bankinn með veð í öllum þeim eignum sem hann lánar til (80% lán) og krosseigntengslaveð að auki, enda er verktakafyrirtækið hluti af stærri samsteypu. Svona Einbjörn, Tvíbjörn, Þríbjörn eignarhaldskeðjuform.

Ég hef ekki fylgst með því hvort Kaupþing er búið að leysa þetta verktakafyrirtæki til sín eða ekki. Enda eru örlög þessa fyrirtækis ekki umfjöllunarefnið hér, heldur bara þessi litla athugasemd um að kunna að meta verklegar framkvæmdir - og notfæra sér það!


mbl.is Aðgerðarsinnar fóru upp í vinnupalla við Hallgrímskirkju.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég greip peningafalsara

Ég greip ungan mann með falsaðan 2000 kr seðil og spurði hann öskureið hvurn andskotann honum gengi til. Hann varð heldur niðurlútur og muldraði að sig langaði svo í kappakstursbíl, væri að reyna að safna fyrir honum.

Kappakstursbíl! Ég sem ærlaði eitt augnablik að fá snert af aumingjagæsku og vorkenna honum fyrir að vera eitt af fórnarlömbum kreppunnar sem væri kannski að reyna að borga af verðtryggða láninu fyrir kjallaraíbúðinni sinni. Það var þá!

Jú, hann langaði að komast í Gumball 3000 kappaksturinn.

Jón Gerald Sullenberger, eða hvað hann nú heitir, sá góði maður, ritar svo í kommenti við færslu Egils Helgasonar um Gerspilltan og geggjaðan banka:

Gumball 3000, kappakstur ríka og fræga fólksins, er kominn á fullt skrið. Fyrsta sérleiðin var til Vienna og þaðan til Budapest og á morgun verður svo ekið til Belgrad. Gumball 3000 kappaksturinn er nú haldin í sjöunda sinn og í ár eru 240 þátttakendur skráðir til leiks eða 120 lið. Gumball 3000 er nútíma útfærsla á bíómyndinni Canonballrun það sem Burt Reinolds var í aðalhlutverki.
Fjórir Íslendingar eru skráðir á ráslista í keppninni en það eru Hannes Smárason Forstjóri FL Group sem ekur á Porsche, Ragnar Agnarsson á BMW M5 og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs group, og félagi hans Guðmundur Ingi Hjartarson keppa á Bentley sem mun vera einn flottasti bíllinn í þessari keppni.
Þetta á svo þjóðin að borga.
Kv Jon Gerald Sullenberger.

http://eyjan.is/silfuregils/2009/08/02/gerspilltur-og-geggjadur-banki/#comment-111121

Þetta Gumball 3000 ævintýri hefur áður ratað í fréttir hér á landi. Ég fann m.a. þessa á gúggli:

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2006/05/03/evropulegg_gumball_3000_rallsins_lokid/

Þar er líka vísað á heimasíðu Gumball 3000: http://www.gumball3000.com/#

Við nánara spjall komst ég að því að pilturinn hefði staðið við Sæbrautina í Reykajvík að morgni s.l. föstudags þegar fimm kolsvartir lúxusjeppar óku þar hjá og fengið sting í hjartað. DV segir svo fá þeirri sýn sem við blasti:

Margfaldir milljónamæringar í skemmtiferð á Íslandi

„Þessi félagsskapur er eingöngu fyrir farsæla athafnamenn með heildartekjur upp á að minnsta kosti milljón dali.“ Þetta er meðal þess sem meðlimir skemmtifyrirtækisins Maverick Business Adventurs þurfa að uppfylla en fyrirtækið er nú með hóp viðskiptavina í skemmtiferð á Íslandi. Með í för er danski kaupsýslumaðurinn Morten Lund, sem átti meðal annars Nyhedsavisen, sem að vísu var úrskurðaður gjaldþrota fyrr á árinu.

Þeir sem áttu leið um Sæbrautina snemma í morgun sáu ef til vill fimm kolsvarta lúxusjeppa af gerðinni Lincoln Navigator. Bílarnir voru kyrfilega merktir "Maverick Business Adventures". Í þeim var hópur milljónamæringa sem kominn er hingað til lands í skemmtiferð. Hópurinn kom til landsins á miðvikudag en fer aftur heim á mánudag.

Samkvæmd dagskrá fyrirtækisins mun hópurinn meðal annars fara í snjósleðaferð um hálendið, köfunarferð í gjánni Silfru á Þingvöllum og að sjálfsögðu spóka sig um í Bláa lóninu.

Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins verður Daninn Morten Lund með í för en hann er sérstakur heiðursgestur. Hann er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað Skype. Í byrjun árs var hann mikið í umræðunni þegar fríblaðið Nyhedsavisen, fór á hausinn. Baugur seldi Lund 51 prósent hlutafjár í félaginu í byrjun árs 2008.

Maverick Adventures skipuleggur skemmtiferðir fyrir auðmenn um allan heim. Meðal fyrirhugaðra ferða í haust má nefna kappakstursferð í Kaliforníu sem fram fer í október. Í henni mun auðmaðurinn John Paul DeJoria, sem er í 261 sæti yfir ríkustu menn heims, taka þátt.

http://www.dv.is/frettir/2009/7/31/margfalir-milljonamaeringar-i-skemmtiferd-islandi/

Ég fékk sting í hjartað af samúð með unga manninum og aumingjgæskan yfirbugaði mig svo ég sleppti honum. Ég get jú ekki verið þekkt fyrir að láta lögguna bösta draumórapilt sem reynir að líkjast Kjarval. Það er nú ekki eins og hann hafi rænt banka!


mbl.is Peningafalsarar á sveimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæðuharðindin

Af hverju eru Íslendingar svona óskaplega mæddir um þessar mundir?

Bankakerfið hrundi með brauki og bramli og sýndi okkur að góðærið var byggt á lántökum og snilligáfa viðskiptajöfranna fólst í blekkingum. Við vöknum upp með hroðalega timburmenn og finnst við ekki munu lifa þá af. En, viti menn, við drepumst ekki úr timburmönnum!

Nú um stundir mæðist þjóðin mest yfir Icesave. Margir líkja endurgreiðslum vegna þeirra skuldbindinga við móðuharðindin sem gengu hér yfir land og þjóð í kjölfar Skaftárelda. Hvíklíkur óhemjudkapur! Ég man eftir því að fyrir mörgum árum var sagt að fyrr færu Bandaríkjamenn í stríð en að fórna öðru sjónvarpstækinu af heimilinu. En, hverju erum við Íslendingar að fara að fórna fyrir Icesave?

Íslendingar eru ennþá, eftir bankahrun, ein af auðugustu þjóðum heims. Við höfum efni á að taka á okkur skellinn af öllu heila heilvítis sukkinu, að Icesave meðtöldu. Við höfum meira að segja efni á því án þess að lífskjör okkar falli niður í nokkurt vesældarástand, ekki einu sinni tímabundið.

En....

Við gerum þetta ekki án þess að dýfa hendinni í kalt vatn. Svo, brettum upp ermar og komum okkur að verki. Við Íslendingar erum upp till hópa harðduglegt og heiðarlegt fólk. Við eigum ennþá fjölbreytt og öflugt atvinnulíf, sem skaffar tekjur sem duga fyrir framfærslu fjölskyldna okkar og velferðarkerfi, menntun, framförum og meira að segja dálitlum lúxus að auki.

Eitt er að bölva yfir lóláni. Annað er að leyfa óláninu að yfirtaka líf sitt og leggjast í vælupest þess vegna. Það er ósanngjarnt að borga fyrir Icesave. En, það kostar meira að væla yfir því meðan hjól atvinnulífsins ískra, heldur en sem því nemur sem hjól atvinnulífsins geta framleitt ef þau fá að snúast.

Icesave-vælið er að tefja uppbyggingu íslensks efnahagslífs. Sú töf er dýrari en nokkur sá ávinningur sem vælararnir gætu samið um, þótt þeir færu allir í nýja samninganefnd. Það er staðreynd.

Við höfum verk að vinna. Koma þarf á eðlilegu fjárstreymi sem smyr hjól atvinnulífsins. Vinda þarf ofan af skuldaklafa sem verðtrygging lána lagði á fjölda fólks. Jafna þarf lífskjör til að tryggja velferð allra íbúanna. Það er nægur auður í landinu, það þarf bara að skipta honum sanngjarnar.

Brettum upp ermarnar, hættum þessu mæðuharðindavæli og komum okkur að verki við uppbyggingu samfélagsins. Svo, áður en við brettum niður ermarnar aftur, þá tökum við skemmdavargana og rassskellum þá!


mbl.is Ekkert lát varð á kaupum á hjólhýsum og tjaldvögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Soffía Sigurðardóttir

Höfundur

Soffía Sigurðardóttir
Soffía Sigurðardóttir
Já, en, AF HVERJU?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ingolfsfjallsvindur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband